Hummus – einn grunnur, þrjár uppskriftir

Gleðilegan hummus dag! Það er ekki margur matur sem fær sinn eiginn alþjóðlega dag en hummus er það næringarríkur og góður að hann á það skilið. Hummus á sér langa sögu og er fyrst skrásettur sem uppskrift á 13. öld í Egyptalandi. Hummus hefur svo dreifst víða og er samofinn menningu og matarvenjum margra landa, sérstaklega á miðausturlöndum. Hummus hefur orðið vinsæll í Bandaríkjunum og Evrópu á síðustu árum þar sem hann er mjög heilsusamlegur, inniheldur mikið af próteini og gagnast því grænkerum og grænmetisætum vel.

Það besta við hummus er þó að það er ekkert mál að búa hann til heima og það er eiginlega ekki hægt að klúðra honum. Þannig sleppur þú við rotvarnarefni, sykur og annan óþarfa sem er oft bætt í þá tilbúnu og svo er þessi heimagerði miklu betri! Það tekur aðeins fimm mínútur að búa hann til ef notast er við krukku af soðnum kjúklingarbaunum. Hér fylgir góð grunnuppskrift af hummus sem er svo hægt að útfæra á ýmsa vegu:

INNIHALD

1 dós eða krukka af kjúklingabaunum
4 msk safi af kjúklingabaunum
2-3 msk tahini
1-2 fínskorin hvítlauksrif
2-3 msk ólífuolía
Safi úr hálfri sítrónu
Salt og pipar eftir smekk

AÐFERÐ

Settu allt innihaldið saman í blandara eða matvinnsluvél og settu af stað. Ef að blandarinn á erfitt með þetta þá er betra að stoppa hann og bæta við vatni, safa af kjúklingabaunum eða meiri olíu og kveikja aftur. Eftir örskamma stund ætti hummusinn að vera tilbúinn! Þá er bara að setja hann í skál og smakka til með kryddum.

AÐRAR ÚTGÁFUR:

Ef þig langar að prufa nýjar útgáfur þá eru til ýmsar leiðir í að útfæra þessa grunnuppskrift:

Jalapeno hummus: Skiptu út sítrónu fyrir lime, bættu við jalapeno eftir smekk og tveimur matskeiðum af hunangi.

Sætkartöflu hummus: Bættu við grunninn tveimur meðalstórum soðnum sætum kartöflum sem er búið að taka hýðið af, settu út í hálfa skeið af paprikukryddi, 1/4 teskeið af cumin og  1/4 teskeið af cayenne pipar. Og meiri vökva ef vantar.

Rauðrófuhummus: Bættu við einni meðalstórri rauðrófu sem er búið að sjóða og skera í bita í blandarann eða matvinnsluvélina með grunnuppskriftinni og tveimur matskeiðum til viðbótar af ólífuolíu og VOILA!


Eigðu yndislegan hummus dag!

Dagný

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.