Í sumarblaðinu biðjum við þrjá náttúruunnendur og heimshornaflakkara að segja okkur hvað skiptir þá máli þegar kemur að ferðalögum, og hvað er ómissandi að taka með.
BERGÞÓR PÁLSSON
– söngvari og lífskúnster
„Ferðalög þar sem hvíld og upplifun fara saman eru mér að skapi. Einu sinni fórum við til Prag með syni mínum, Braga, og áttuðum okkur á því að það var hægt að ná tveimur dögum á einum degi. Við gerðum það með því að vakna snemma og skoða einhvern merkisstað, fara síðan á hótelið og leggja okkur í klukkutíma, og fara svo á annan stað, ferskur og úthvíldur síðdegis.
Ég hugsa stundum um það þegar ég kem á hótelherbergi að í raun hefur maður allt til alls í þessu litla rými, og með árunum tek ég æ minna með mér. Það er líka svo ægilega gott að þurfa aldrei að bíða eftir farangri og þess vegna er ég eiginlega kominn niður í lítinn bakpoka. Þá skiptir miklu máli að láta sér líða vel og þess vegna er valið á skóm lykilatriði. Sem betur fer er í tísku að vera í léttum skóm við jakkaföt, og ég get því verið allan tímann í Nike free skónum mínum, sem eru fisléttir og eins og mjúkir sokkar að stíga í.
Í sumar var Pólland og Spánn á dagskránni, en svo ætlum við með fjölskyldunni hans Alberts til Parísar í haust. Innanlands höfum við hugsað okkur að fara á Vestfirði og loks á Rauðasand, sem ég er búinn að þrá í mörg ár. Hugsanlega förum við líka yfir Sprengisand, en það gerðum við fyrir tuttugu árum og systursonur Alberts, Ármann, var með í för. Á leiðinni hringdi ég til að fá gistingu fyrir norðan og Albert sagði, sposkur á svip: „Segðu bara að það vanti gistingu fyrir þrjá homma.“ Þá gall í Ármanni: „Nei, tvo homma og einn venjulegan.“ Síðan heitir þetta ferðafélag Tveir hommar og einn venjulegur. Ármann hefur viðrað þá hugmynd að endurtaka ferðina í sumar, því að hún var einstaklega eftirminnileg.“
Ómissandi í mínímalíska ferðalagið:
1. Vegabréf, sími, kortaveski og tölva.
2. Bose-heyrnartólin mín – þau útiloka umhverfishljóð í flugvél og í umferð.
3. Lítill hátalari – til að hafa Rás 1 á þegar ég vakna og mjúka jógatónlist þegar ég legg mig.
4. Snyrtibudda – með tannbursta, tannkremi, rakvél og góðu kremi.
5. Minnsta gerð af blóðþrýstingsmæli – það er mjög áhugavert að sjá hvernig blóðþrýstingurinn lækkar þegar maður nær að slaka vel á í fríinu.
6. Nærbuxur og sokkar til skiptanna. Það segir sig sjálft en ég tek gjarnan eitthvað sem er komið á síðasta snúning, og má „gleymast“ þegar farið er heim.
7. Nokkrar skyrtur og bolir. Síðerma eða stutterma eftir loftslagi.
8. Lítill poki með reykelsi, tekertum og kveikjara – til að skapa stemningu.