Hver er ég? Er stóra spurningin í lífi okkar flestra.
Hver einstaklingur getur verið margar persónur: ein með fjölskyldunni, ein með vinunum, ein í vinnunni, ein í ræktinni og svo framvegis. En hvernig væri það ef þú gætir alltaf verið ÞÚ? Væri þá allt svo miklu auðveldara?
Að öllum líkindum já, en hvernig finnum við svörin við þessari stóru spurningu?
Vissulega erum við öll sérfræðingar í okkar eigin lífi og mörgum okkar finnst tilgangslaust að hlusta á aðra segja okkur hvernig við eigum að haga því. En oft getur verið gagnlegt að fá einhvern utanaðkomandi til að horfa hlutlausum augum inn í líf þitt og á þig.
Markþjálfar geta til dæmis aðstoðað við að gera slíka vinnu, en þannig aðili getur mögulega hjálpað til við að losa úr læðingi það besta í þér.
Markþjálfun snýst um að hjálpa þér að ná lengra en til að byrja með er mikilvægt að spyrja sig réttu spurninganna, til þess að komast að því hvað maður raunverulega vill:
Þegar maður vaknar á morgnana er gott að hugsa „hver ætla ég að vera í dag“ og fara svo eftir því sem hjartað segir, hlusta á innsæið sitt. Það er svo hollt og gott að leyfa innsæinu sínu að ráða því það er það eina rétta, en í flestum tilvikum látum við hausinn okkar ráða ferðinni.
Einnig mælir markþjálfun með því að gera stefnumótun í þínu eigin lífi, reyna að komast að því hver gildin þín eru. Af hverju ætti það ekki að vera jafn mikilvægt og að það sé gerð stefnumótun í fyrirtækinu sem þú starfar fyrir eða stjórnar?
Unglingar eiga oft erfitt með að vita hver þau eru, að vera þau sjálf. Það er líka erfitt að fylgja innsæinu ef það er ekki nógu töff og fylgir ekki tískustraumum. Menntakerfið gæti þurft á fleiri góðum verkfærum að halda til að hjálpa til við að efla sjálfsmynd nemenda og hlúa að þeim.
Við erum alltaf að reyna að vera eitthvað öðruvísi en við erum því þegar við sjáum aðra sem gengur vel hjá þá viljum við vera og gera eins. Börn og unglingar eiga sér oft fyrirmyndir allt frá superman til fyrirsæta. En er það rétt að reyna herma eftir öðrum, er það líklegt að það heppnist eins vel? Á maður að hlusta á ráð annarra um hvernig maður á að líta út? Það er ég ekki viss um, því þá ertu ekki að æfa þig í því að hlusta á innsæið þitt. Þetta er auðvitað allt háð hverjum og einum, gott er að fá ráð og álit frá góðum vinum af og til en það ættu að vera takmörk fyrir því hvað maður segir við aðra og hvað maður tekur frá öðrum.
Eitt vitum við vel, að við viljum að aðrir komi vel fram við okkur og við viljum koma vel fram við aðra. En kemur þú vel fram við sjálfa/n þig?
Að tala við hlutlausan aðila sem hlustar vel og er með bein tjáskipti þykir flestum gott, hver elskar ekki að tala um sjálfan sig? Fjölskylda og vinir vilja manni auðvitað vel en ráð þeirra þurfa oft ekkert að passa við það sem maður vill þó það hafi reynst þeim sjálfum vel.
Ef þú ert ekki á réttum stað í lífinu, veist það en finnur ekki leiðina til að komast áfram er hægt að fá aðstoð. Með að setja sér markmið og móta hugmyndir sínar um lífið, eru miklar líkur á því að maður nái þeim árangri sem maður vill.