Jákvæðar breytingar með markþjálfun

Hvað hefur þú gefið þér mikinn tíma síðustu mánuði til að skoða líf þitt? Hvernig þér líður andlega séð? Flestir gefa sér tímatil að spá í næsta helgarfrí, sumarfrí og næstu ferð til útlanda – en það vill verða minna um að fólk gefi sér tíma til að spá í daglegt líf sitt og líðan.

Okkur er öllum nauðsynlegt að staldra af og til við og gefa okkur tíma fyrir okkur sjálf. Það er svo mikill hraði á öllu í kringum okkur, allir eru að flýta sér, við erum líka sjálf að keppast við til að við náum nú öllu því sem við viljum. Við viljum svo margt, bæði á andlegum og veraldlegum sviðum.

Hefur þú smá tíma núna?
Tíma fyrir þig.
Hvernig hefur þú það í dag?
Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu?
Hvernig líður venjulegur dagur hjá þér?
Hvernig endurspeglast gildin þín í daglegu lífi þínu, bæði í einkalífinu og í því sem þú hefur að lífsviðurværi?

Gefðu þér nokkrar mínútur til að fara yfir síðustu daga í huganum. Reyndu að sjá þá fyrir þér.

– Er eitthvað öðruvísi en þú helst kýst? Hvað þá helst?
– Er eitthvað sem hindrar þig í að virða gildin þín? Hvernig þá?
– Hvernig kemur þú fram við þig dags daglega?
– Hvernig talar þú um þig við þig?
– Hvernig sýnir þú þér sjálfsvirðingu og kærleika í daglegu lífi?
– Hverju viltu breyta í því sambandi? Hvers vegna?

Þegar við lítum tilbaka er oftast eitthvað sem við viljum hafa gert á annan veg. Það er samt aldrei hægt að breyta eftirá því það er engin „taka tvö“ á líðandi stundu. Vonandi lærum við samt eitthvað af reynslu okkar og mistökum, mistökum sem má skoða sem atferli sem bar ekki tilætlaðan jákvæðan árangur.
Þegar við vitum hvað við vildum hafa gert eða sagt á annan hátt en raun varð á, þá getum við ákveðið hverju við viljum breyta. En hvernig förum við að því?

Það er hægt að breyta svo ótal mörgu í eigin fari og við getum lært að bregðast við áreiti á annan hátt en við höfum gert hingað til. Við getum skapað okkur nýjar venjur, framkomu sem kemur til með að koma í staðinn fyrir það sem hefur verið okkur tamast hingað til.

Einföld leið til að hefja hraðferð til jákvæðra breytinga er að byrja á því að skrifa niður þau atriði sem þú vildir hafa haft á annan veg síðustu daga. Það skiptir ekki öllu máli hvort listinn þinn verður stuttur eða langur, fyrstu atriðin sem koma upp í hugann eru líklega þau sem eru þér mikilvægust. Merktu við það sem þér þótti verst. Hvernig hefðir þú heldur viljað hafa hagað þér í því máli? Sagðir þú eitthvað sem hefði betur verið látið ósagt? Hefðir þú átt að bregðast við einhverju á annan hátt en raun varð á? Gefðu þér tíma til að velta þessu fyrir þér.

Þegar þú hefur fundið nokkur atriði sem þú vilt breyta til betri vegar í eigin fari þá skaltu skoða hvernig þú getur æft þig í haga þér á annan veg. Skrifaðu stutta lýsingu á því hvaða hegðun/framkomu þú vilt frekar sýna. Búðu þér til eitthvað tákn sem gæti minnt þig á það sem þú vilt æfa þig í að breyta. Tengist þetta aðstæðum sem þú ert oft í, jafnvel daglega? Ef ekki, finndu þá líka eitthvað sem tengist daglegu lífi. Það hlýtur að vera eitthvað sem þú gætir vel hugsað þér að æfa þig í að hafa öðruvísi dags daglega. Gerðu þér líka tákn fyrir það.

Settu táknin á lítið blað sem þú getur haft í vasanum eða kortaveskinu, geymdu það einhvers staðar þar sem er líklegt að þú sjáir það sem oftast til að minna þig á. Þú gætir líka verið með fallegan stein í vasanum til að minna þig á.

Notar þú dagbók til að skipuleggja daginn og til að minna þig á allt það sem þú þarft að gera? Gott ef svo er, annars færðu þér þá litla minnisbók því nú áttu að merkja við hjá þér í hvert sinn sem þú hefur æft þig í nýju hegðuninni. Þú þarft að æfa þig á hverjum degi í þrjár vikur.

Hvers vegna í þrjár vikur? Jú, ef þú framkvæmir sambærilega hegðun á hverjum degi í 21 dag eru mjög miklar líkur á að þú hafir þá tamið þér viðkomandi hegðun/framkomu það vel að hún sé orðin eðlilegur hluti af daglegu lífi þínu.

Nú getur verið að þér finnist þetta hálf fáránlegt með dagafjöldann en margir árangursfræðingar mæla eindregið með þessu ferli. Ein ástæðan er sú að þegar hænur fá frið til að liggja á eggjum í þeim tilgangi að unga þeim út eins og sagt er, þá liggja þær á í 21 dag. Á hverjum degi í 21 dag standa þær upp til að snúa egginu. Ef þær gera það brotnar skurninn í lok þess tíma og lítill hænuungi klöngrast út úr egginu. Við mannfólkið teljum okkur nú viti borin og ef hænan getur haldið sig við að gera sambærilegan hlut daglega í 21 dag – ættum við þá ekki að geta gert það líka?

Hvað með þig? Hve miklu máli skiptir það þig að breyta neikvæðri framkomu/hegðun þinni yfir á jákvæðari nótur? Veldu eitthvað sem skiptir þig verulegu máli, einsettu þér að æfa þig í jákvæðari breytni daglega í þrjár vikur og gerðu viðeigandi tákn við hvern þann dag sem þú nærð að æfa þig.

Gangi þér sem allra best

Jóna Björg Sætran,
M.Ed, markþjálfi
www.coach.is

Tögg úr greininni
, ,