Í djúpri kyrrð á lengstu nótt ársins.

Á dimmustu dögum ársins finna margir þörf fyrir að draga sig í hlé og eru ekki eins framkvæmdarglaðir. Sumir fyllast jafnvel depurð við tilhugsunina um að þurfa að gera eitthvað og fara út á við.

Þetta er það sem líkami og hugur manneskjunnar hefur tilhneigingu til að vilja í samhengi við náttúrulega hringrás sólarinnar. Því eins og við vitum er manneskja og náttúra tengd órjúfanlegum böndum og okkar að finna jafnvægið í þeim aðstæðum sem við búum við hverju sinni. Við fáum aðeins um 3 klukkustundir af sólarljósi á dimmasta degi ársins og er þessi dagur nefndur vetrarsólstöður.

Orðið sólstöður kemur úr latínu og merkir sólin situr kyrr. Í ár munu þær eiga sér stað þann 22. desember kl. 4:48. Þær láta í raun lítið yfir sér og vara aðeins í eina sekúndu.

Í árhundruðir hafa margar andlegar hefðir nýtt sér þá frumkrafta og eiginleika sem eru til staðar á vetrarsólstöðum. Í jógískum fræðum er talað um að sólin sé táknræn fyrir ýmislegt í okkur, td. innri eldinn, framkvæmdarorkuna, og sálina. Á dögum þegar sólar nýtur ekki eins mikið við þurfum við að hafa aðeins meira fyrir því að temja hugann, tilfinningarnar og mynstrin okkar. Okkur vantar birtu og yl, innra sem ytra og það reynir á hugann. Það er einmitt af þeirri ástæðu sem margir koma saman til að mynda sterkari tengsl við sitt innra (sálina, núvitund eða hvað sem þú kýst að kalla það) því samanlögð áhrif iðkunar margfaldast í hópi og hjálpa þér að ná dýpt og hugarró.

Við erum andlegar verur í líkama. Það gefur dýpri tilfinningu fyrir tilgangi og aukna virðingu fyrir okkur sjálfum og öðrum að gefa þeirri staðreynd pláss í tilverunni. Hvað nærir andlega tilveru okkar ef við teljum okkur ekki vera mjög andleg? Útivera, djúp öndun og hreyfing hjálpar til því núvitundarástand er mun aðgengilegra fyrir manneskju sem hefur gott flæði lífsorku um allar orkubrautir líkamans.

Í vedískum fræðum er mælt með að íhuga, biðja eða hugleiða á vetrarsólstöðum því að mikil kosmísk sköpunarorka er til staðar. Og hvað er kosmísk sköpunarorka? Hún er að baki öllu sem raungerist í alheiminum, hugsun sem endar á gjörð þarfnast sköpunarorku til að verða að veruleika. Þegar okkur skortir drifkraft til að koma hugmyndum í raunverulegan farveg er talað um að við þurfum að stilla okkur inn á slíka uppsprettu innra með okkur. Þá flæðir allt betur og við finnum jákvæðni og tilgang innra með okkur og það er líkt og það sé ósýnilegur meðbyr með hugsuninni á leiðinni í efnisheiminn. Öll fræ (hugmyndir eða óskir) sem við sáum í vitundinni þegar við erum umlukin mikilli skapandi orku eiga ss. betri vaxtarmöguleika.

Á lengstu nótt ársins ríkir kyrrð, hringrás sólar endar og fjarar út. Þetta eru endalok, nokkurs konar dauði ársins. Djúp þögn ríkir fyrir nýja upphafið líkt og augnablikið milli þess þegar þú hefur klárað útöndunina og ert við að draga andann inn aftur.

Tíminn áður en sólin hefur nýja hringrás er helgur hvíldar og íhugunartími. Njóttu þess að vera í tóminu þar sem ríkir algjör þögn og óendanlegir möguleikar. Það er hér sem er gott að skapa.

True intelligence operates silently. Stillness is where creativity and solutions to problems are found.

-Eckhart Tolle

Í virðingu og kærleika,

Arnbjörg Kristín

Jógakennari og jógískur ráðgjafi

www.graenilotusinn.is

Tögg úr greininni
,

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.