Pranayama – Öndunaræfingar

Við gefum okkur alltof sjaldan tíma til að draga andann djúpt að okkur. Flest okkar anda að sér of litlu súrefni og eru með alltof grunnan andardrátt. Marga heilsukvilla má rekja til þessa skorts á súrefni í blóðinu, en þetta gerist sérstaklega þegar fólk er undir miklu álagi eða finnur fyrir kvíða. Með því að vera meðvitaðari um öndunina og gera reglulega öndunaræfingar getum við minnkað streitu, kvíða, vöðvaspennu, höfuðverk og margt fleira. Pranayama er stór og mikilvægur partur af jóga vísindunum og þýðir að hafa stjórn á andardrættinum og flæði hans. “Prana” þýðir öndun eða lífsorkan í líkamanum og “ayama” þýðir að koma reglu á eða lengja. Samkvæmt yoga getur einstaklingur, með Pranayama æfingum, stjórnað takti lífsorkunnar og náð þannig meira heilbrigði á líkama og sál (meira um kosti pranayama hér).

Patanjali, sem er oft kallaður faðir jóga, segir pranayama vera leið til þess að ná meiri og hærri meðvitund. Þessar öndunaræfingar byggjast flestar upp á andardrætti í gegnum nasirnar. Þegar ég var sjálf í jógakennaranámi hafði ég minnstan áhuga á þessu pranabama eða hvað sem þetta nú hét. Ég hafði prufað þetta nokkrum sinnum í jógatímum en aldrei fundið áhrifin, fundist þetta óþæginlegt og gefist upp.

Þegar ég leit á stundaskrána í náminu voru öndunaræfingarnar líka agalega illa tímasettar, eftir þriggja tíma jógaæfingu á morgnanna og rétt fyrir morgunmat! Ég var afar svöng og “hangry” fyrsta daginn þegar kennarinn tilkynnti að nú myndum við reyna við nokkrar pranayama æfingar. Ég var glorhungruð og langaði alls ekki að fara að anda eitthvað sérstaklega.

Ég var augljóslega ekki vel upplögð fyrsta daginn en nokkrum dögum seinna fann ég svo sannarlega áhrifin. Við prófuðum ýmsar tegundir af öndunaræfingum og ég fann að þær gáfu mér augljóslega meiri orku til að takast á við daginn framundan. Til dæmis átti ég erfitt með að klára langan jógatíma á morgnanna og fór því að prufa að gera nokkrar öndunaræfingar fyrir tímann. Það breytti miklu, ég fór að hafa aukna orku út æfinguna, var glaðari og með vellíðunar tilfinningu í líkamanum.

Mikilvægt er að gera pranayama á fastandi maga, sitja í stól eða á gólfinu í þæginlegri stöðu með beint bak. Þær æfingar sem ég geri oftast kallast Bhastrika, Kapalabhati og Nadi shodana pranayama.

Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti það, en jóga vísindin eru byggð á reynslu og því um að gera að prófa hvort að Pranayama sé eitthvað fyrir þig!

https://youtu.be/XFCRNtFem14

 

Tögg úr greininni
, , , , ,

3 athugasemdir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.