Feng Shui í baðherbergið

FENG SHUI ER LISTIN AÐ SKAPA JAFNVÆGI OG SAMHLJÓM.

Samkvæmt Feng Shui eiga baðherbergi að vera hrein, þægileg og afslappandi. Ljósbláir tónar, þægilegt andrúmsloft og innréttingar með gott notagildi skipta þar mestu máli. Markmið Feng Shui er að bjóða lífsorkunni heim og hjálpa henni að ferðast á milli herbergja heimilisins. Baðherbergið getur því verið krefjandi því orkan getur „sloppið” með vatninu í niðurfallið (skv. sumum Fengh Shui bókum). En það er hægt að vinna gegn þessu og skapa góða orku á baðherberginu með þessum góðu Feng Shui ráðum.

VATN

Baðherbergið er staðurinn sem er helgaður hreinsun líkamans. Þar er vatn aðal frumefnið og mikið notað. Þú liggur í heitu baði, sturtar þig undir volgri bunu og skvettir köldu vatni á andlitið. Nálægð vatnsins er nærandi en í Feng Shui merkir vatn einnig peningar. Litlir vatnsbrunnar eru vinsælir í Feng Shui vegna þess að þeir halda hreyfingu á orkunni sem tengist gæfu og efnislegum ávinningi heimilisins. Baðherbergið getur þó orðið til vandræða því orkan getur skolast niður í klósettið og niðurföll. Þess vegna er mikilvægt að hafa klósettsetuna alltaf niðri.

SPEGLAR

Í Feng Shui eru speglar gagnlegir á baðherberginu því að þeir koma hreyfingu á orkuna og spegla hana um rýmið. Aftur á móti, er talið slæmt ef spegillinn speglar klósettið í heild sinni. Þú átt ekki að sjá þig alla/n í spegli þegar þú situr á klósettinu.

LOFT OG LJÓS

Hleyptu sólskyni og fersku lofti inn á baðherbergið með opnum glugga. Ferska loftið þurrkar upp loftið á baðherberginu. Ef baðherbergið er gluggalaust þá er gott að opna hurðina í nokkrar mínútur eftir sturtu til að lofta út (mundu bara að hafa klósettsetuna niðri). 

NÆTURLJÓS OG PLÖNTUR

Þú getur aukið góða orku á baðherberginu með því að bæta við næturljósi, grænni plöntu, einhverju úr tré og með því að setja tappa í niðurföll þegar þú ert ekki að nota þau. Hafðu næturljósið kveikt, settu plöntuna hærra en klósettið og skapaðu þannig huggulega stemningu.

HREINLÆTI

Haltu baðherberginu hreinu og reyndu að láta það líkjast heilsulind með kertum og róandi andrúmslofti.

Þetta er vissulega einföldun á Feng Shui sem vinnur ítarlega með áttir, frumefni, liti og fleira. En þessar einföldu leiðbeiningar geta gefið aukna orku og aukið líkurnar á að peningarnir flæði að þér en ekki frá þér!
HEIMILD: Feng Shui Your Life eftir Jayme Barrett