Feng Shui í svefnherbergið

10 ráð til að bæta orkuna í svefnherberginu!

Samkvæmt hinum 5000 – 6000 ára gömlu Feng Shui fræðum getur nánasta umhverfi þitt haft allt að því 33% áhrif á það hvernig þér líður. Hin 66% greinast í tvennt, annars vegar hafi fæðingarstaður þinn um 33% áhrif á möguleika þína í lífinu og svo skipti það hvernig þú nýtir meðfædda hæfileika þína um 33%.

Það að nánasta umhverfi okkar geti haft svona mikil áhrif virðist þér ef til vill einkennlegt en leiddu hugann að því hvernig þú upplifir aðstæður og umhverfi á ólíkan hátt á ýmsum stöðum sem þú hefur komið á. Stundum líður þér strax vel, á öðrum stöðum upplifir þú einhver þyngsli, ójafnvægi eða jafnvel óþægindi sem virðast í fljótu bragði ekki eiga sér neinar sjáanlegar eða auðskiljanlegar skýringar. Þetta getur átt við hvort heldur sem er á heimilum, á skrifstofum eða í fyrirtækjum.

Feng Shui fræðin eru enn í dag notuð út um allan heim á heimilum, á skrifstofum og í fyrirtækjum til að auka vellíðan í víðum skilningi. Unnið er út frá Feng Shui jafnt inni sem úti fyrir í garðinum umhverfis húsið.

Feng Shui í svefnherberginu

Þú getur nýtt Feng Shui í allri íbúðinni þinni og í byrjun leggja flestir mesta áherslu á að vinna með anddyrið, stofuna og svefnherbergin. Góð heilsa er undirstaðan að svo mörgu öðru í lífinu en alltof oft tökum við góðri heilsu sem sjálfsögðum hlut og gleymum að hlúa að henni í dagsins önn þangað til að eitthvað bjátar á. Hvíld og góður svefn eru afar mikilvæg fyrir heilsu þína og lífshamingju og því er svefnherbergið þitt einna mikilvægasta herbergið í íbúðinni. Þangað átt þú að geta sótt þér jákvæða orku, hvíld, ást og unað. Svefnherbergið á ekki að vera hluti af vinnustofu. Það á heldur ekki að þróast upp í geymslu, þangað sem hlutum er skotið undan þegar gesti ber að garði.

Það er oft hægt að bæta andrúmsloft í hjónaherbergjum til mikilla muna með því að gera lítils háttar breytingar. Svefnherbergið þarf ekki að vera búið dýrum húsgögnum og á alls ekki að vera yfirfullt af alls kyns hlutum og myndum. Það er mun mikilvægara að rúmið sé rétt staðsett og að hlutum sé ekki ofaukið. Litir geta líka skipt miklu máli sem og staðsetning og val spegla og veggskreytinga. Samkvæmt Feng Shui fræðunum getur það skipt miklu máli bæði hvar rúmið er staðsett innan svefnherbergisins og einnig í hvaða átt hvirfill þinn snýr þegar þú sefur.

1. Snúðu rúminu þínu þannig að hvirfillinn snúi í eina af þínum fjóru hagstæðu áttavitaáttum. Það hvaða áttir eru „bestu áttirnar“ þínar fer eftir fæðingardegi þínum og fæðingarári.

2. Rúmið þitt á ekki að vera beint fyrir innan dyragættina. Ef ekki er annað hægt þarf að setja t.d. náttborð á milli dyragættar og höfðalagsins til að verja þig gegn of sterku orkuflæði.

3. Speglar þurfa að vera þannig staðsettir að þú sjáir þig ekki í speglinum þegar þú ert í rúminu.

4. Myndir af börnunum þínum – eða myndir sem þau hafa t.d. teiknað – eiga ekki að vera í svefnherberginu.

5. Ef þú vilt meira „fjör“ í svefnherbergið skaltu fjarlægja helgimyndir, krossa og íkona og koma þeim fyrir annars staðar í íbúðinni, t.d. á góðum stað á austurvegg.

6. Taktu rækilega til í svefnherberginu, burt með erfiðar minningar og óþarfa.

7. Hvað er á veggjunum í svefnherberginu? Eru það hlutir sem ýta undir rómantískar og ánægjulegar minningar? Ef svo er … þá er það gott. Ef ekki … breyttu þá til.

8. Fjarlægðu hluti sem kalla fram sorg og eftirsjá. Það sem skiptir máli er lífið í dag, á morgun og til framtíðar. Fortíðinni fáum við ekki breytt.

9. Hvaða liti ertu með í kringum þig í svefnherberginu? Hvaða litir eru á rúmteppinu, púðum, gardínu og á veggskreytingum? Ákveðnir litir kalla fram ákveðna orku og þeir litir sem tala mest til þín áttu að hafa í kringum þig.

10. Búðu um á hverjum degi þegar þú ferð á fætur og viðraðu sængur- og rúmfatnaðinn reglulega, Opnaðu gluggann og hleyptu ferskum blænum inn til þín, fullum af lífsorku.

Þetta eru fáein grunnatriði sem allir geta gert og þurfa ekki að kosta mikið annað en eigið vinnuframlag. Byrjaðu á þessu til að hreinsa grunninn, svo er hægt að halda áfram þegar þessu er lokið.

1 athugasemd

Lokað er fyrir athugasemdir