Í fullkomnum heimi

Það er magnað og algjör forréttindi að geta haft áhrif á sitt eigið líf. Að geta þroskast í gegnum lífsleiðina, framkvæmt drauma sína og markmið, læra að elska sjálfan sig og aðra í kringum sig á dýpri og auðmýkri hátt. Að hafa getuna til þess að læra af mistökum en fyrst og fremst læra að hafa áhrif á sín eigin lífsgæði.

Til dæmis með því að breyta gömlum venjum, hvort sem þær eru hugrænar (viðhorf, hugsanamynstur) eða tengdar hegðun (skaðleg vs. uppbyggjandi hegðun) til hins betra og auka þannig hamingju okkar með hverri breytingunni á fætur annari.

Við vitum að við getum haft áhrif á margt í lífinu okkar og innst inni, hvort sem við förum eftir því eða ekki þá viljum við alltaf fylgja því sem er best fyrir okkur og aðra í kringum okkur. Það má segja að við höfum einhvers konar tilfinningu eða skynsemisrödd innra með okkur sem við getum hlustað eftir, sem vísar okkur leiðina.

Í fullkomnun heimi þá getum við haft áhrif á líf okkar til hins betra á hverri stundu á hverjum degi með því að hlusta á skynsemisröddina og velja það sem er best fyrir okkur hverju sinni. Velja heilbrigt viðhorf, heilbrigðar hugsanir og heilbrigða hegðun.

Í fullkomnum heimi

En hvorki við né lífið er fullkomið. Við getum ekki valið í sífellu það sem er best fyrir okkur og aðra hverju sinni. Þetta hljómar mjög einfalt en stundum setjum við þá kröfu á okkur að geta einmitt þetta. Valið það rétta hverju sinni og ef við gerum það ekki þá refsum við okkur fyrir það og gagnrýnum. Við fyllumst af sektarkennd og skömm þegar við veljum ekki það sem við vitum innst inni að var best fyrir okkur og aðra. Þetta getur verið ótrúlega lúmskt ferli þar sem maður tekur varla eftir því. En svo „allt í einu“ líður manni illa og veit ekkert af hverju.

Hvað er til ráða?

Þetta er ekki spennandi að vita; Að við munum óhjákvæmlega velja að gera það sem við vitum að er okkur ekki fyrir bestu og í kjölfarið upplifa sektarkennd og skömm. Það eina sem virkar og hægt er að gera í stöðunni virkar svo einfalt en getur verið flókið í framkvæmd, en það er að fyrirgefa.

Á þeim stundum sem við veljum ekki besta kostinn fyrir sjálf okkur er kjörið tækifæri að prufa að fara í fyrirgefningu frekar en niðurrif. Það er svo magnað við þetta líf að okkur gefst tækifæri til að fyrirgefa okkur sama hvað við gerum. Eða hvað? Hverju trúir þú? Þetta veltur í rauninni allt á því hvort þú trúir því að þú sért elskuð/aður sama hvað þú gerir, þ.e. skilyrðislaust. Trúir þú að þér og öðrum eigi að vera refsað fyrir misgjörðir sínar og læra þannig af mistökunum eða trúir þú því að þér og öðrum sé fyrirgefið fyrir misgjörðir sínar og geti samt sem áður lært af mistökunum sínum?

Ég hvet ykkur til að skoða eigin viðhorf til sjálfs ykkar hvað varðar ,,mistök”. Það er hvernig bregðist þið við þegar þið hafið valið að hugsa eða gera eitthvað sem þið vissuð innst inni að var ekki besti valkosturinn fyrir ykkur? Völduð þið að refsa ykkur og skamma eða gátuð þið fyrirgefið ykkur það?

Ef þið völduð fyrri valkostinn og ef ykkur langar til að læra að velja seinni valkostinn þá hvet ég ykkur eindregið til að gefa ykkur tíma til þess að bæta þeim vana inn í líf ykkar.

Nokkur ráð:

  • Settu áminningu í símann nokkrum sinnum yfir daginn ( t.d. 4-5 sinnum) sem segir ,,Ég fyrirgef sjálfri/sjálfum mér fyrir að velja ótta og vel kærleika í staðinn” .
  • Skrifaðu niður í dagbók það sem þú gerðir sem þú sérð eftir eða það sem var þvert á móti því sem þú vissir að var rétt fyrir þig og aðra. Í lok hverrar setningar geturu skrifað ,, Ég fyrirgef sjálfri mér að hafa ….. “.
  • Fyrir þá sem kunna að meta bænir og biðja reglulega eða vilja prufa það, geta þeir beðið æðri mátt eða hvað sem þeir trúa á um að fyrirgefa sér það sem þeir vilja. Taka allt fram, hvað sem það er, sama hversu lítið það er eða stórt og gefa sér góða stund.

Fyrir marga er þetta væmið og óþarft en getur í raun gert kraftaverk. Fyrir þá sem vilja gera þessa breytingu, að læra að fyrirgefa í staðinn fyrir að refsa sér og gagnrýna þá er gott að muna að það getur tekið tíma að venjast þessu. Þetta getur verið óþægilegt fyrst alveg eins og hver önnur breyting.

Gangi ykkur vel!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.