Íslensk jólatré – já takk!

Þegar kemur að því að velja jólatré spyrja margir sig hvort velja eigi íslensk eða erlend jólatré. Töluverður munur er á þeim ef litið er til umhverfissjónarmiða og hér eru þrjár góðar ástæður fyrir því að velja íslensk tré:

  1. Erlendis eru eiturefni notuð við ræktunina, en á ræktunarsvæðum hérlendis er lítið um samkeppnisgróður og skordýr og því sáralítið eitrað ef nokkuð.
  2. Íslensku trén eru flutt skamman veg og skapast því ekki sú mengun sem annars verður til við skipaflutninga.
  3. Hvert jólatré sem keypt er af Skógræktarfélagi Reykjavíkur gefur loforð um þrjátíu ný tré sem gróðursett verða að ári og er skógarhöggið því sjálfbært og einnig liður í grisjun skógarins.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir er innlend framleiðsla aðeins 20% af heildarsölu jólatrjáa. Reyndar hefur gervijólatrénu vaxið ásmegin síðastliðin ár á kostnað hins lifandi. Plastjólatré eru framleidd úr olíu í Kína, mikill kostnaður felst í framleiðslu og flutningi til Íslands. Þau endast vissulega lengi – kannski fulllengi, því plast eyðist jú ekki í náttúrunni.

Við mælum því eindregið með íslenskum jólatrjám sem er m.a. hægt að kaupa á Jólamarkaðinum í Heiðmörk og í Jólaskóginum á Hólmsheiði hjá Skógrækt Reykjavíkur allar helgar í desember. Allur ágóði af sölu jólatrjáa rennur til uppbyggingar og viðhalds Heiðmerkur.

Það er einstök upplifun að fara með fjölskylduna og finna og höggva sitt eigið tré og fá sér heitt kakó með rjóma á eftir. Toppurinn er svo auðvitað að finna ilmandi lykt trjánna heima í húsi og skreyta þau!

 

 

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.