Í samfélagi okkar er hraðinn mikill og flestir upplifa streitu og álag. Það vilja flestir standa sig vel á öllum vígstöðvum og dagurinn dugar oft á tíðum ekki til að klára verkefni dagsins. Við erum dugleg þjóð og höfum komist svo langt á eljunni. En ætli það séu margir sem eru að ganga á síðustu dropunum og eru oft að elta skottið á sjálfum sér?
Þegar stressið er orðið of mikið þá vill það verða erfiðara að taka ákvarðanir og heyrum við sífellt meira af því hvernig stress og álag er að orsaka og tengist mörgum helstu líkamlegu kvillum, sjúkdómum og dauðsföllum í okkar samfélagi í dag og hefur tíðni þunglyndis einnig stóraukist.
Það er því nauðsynlegt, fyrir svo margar sakir, að staldra við og næra sjálfan sig og fylla á orkubrunninn okkar. Við erum svo heppin að hafa dásamlega náttúru allt í kringum okkur og ferskt og hreint loft. Góður göngutúr getur gefið mikið og hjálpað manni að hreinsa hugann. Sundlaugarnar okkar er önnur perla og nýta margir sér það að geta stungið sér í ferska laugina og synt í eigin heimi og sleppt í nokkrar mínútur öllum heimsins áhyggjum. Gufurnar okkar hreinsa og eru svo orkugefandi og svona mætti lengi telja.
Það er einhver galdur sem á sér stað þegar maður nær að tæma hugann alveg í nokkrar mínútur og vera fullkomlega áhyggjulaus og frjáls. Manni líður dálítið eins og maður geti flogið. En hvernig nær maður að viðhalda jafnvægi og hugarkyrrð í gegnum erilsaman dag?
Mín leið er jóga.
Þegar ég kynntist Kundalini jóga, þá loksins kynntist ég sjálfri mér og áttaði mig á hvað ég þurfti til að láta mér líða vel.
Galdurinn er að þekkja sjálfan sig, leita inná við og hlusta. Við fæðumst með þann eiginleika að vita hver við erum og hvað við viljum en oft á lífsleiðinni förum við að hlusta á kröfur samfélagsins og þær kröfur sem við höldum að samfélagið setur og fyrr en varir erum við kannski farin að hlusta meira á hvað fólki finnst að við eigum að gera og hvað við höldum að öðrum finnist við eiga að gera. Meðvirkni kemur upp í hugann.
Þegar maður nær að vera trúr sjálfum sér öðlast maður mikla hugarró. Það er kyrrð sem færist yfir mann við það eitt að setjast á jógadýnuna. Í gegnum æfingarnar höldum við líkamanum sterkum og sveigjanlegum. Hreysti er vellíðan og styrkir jóga bæði líkama og sál. Í gegnum öndunaræfingar náum við að læra að anda aftur dýpra, við fæðumst nefnilega með fullkomna öndun. Ef þú fylgist með barni anda þá sérðu að það andar djúpt ofan í maga þannig að maginn þenst út. Þannig nær barnið að anda súrefninu alla leið ofan í maga og fyllir þannig líkamann af orku og súrefnið nær svo miklu betur inn í kerfið okkar.
Síðan vill það oft gerast, þegar við vöxum úr grasi, að við tökum áhyggjur heimsins og stress inná okkur. Við förum smám saman að anda styttri öndun og þá hefur stressið tekið völdin. Með því að ná tökum á djúpri öndun á ný verður svo miklu auðveldara að láta stress ekki á sig fá og þá er töluvert auðveldara að takast á við þær áskoranir sem til okkar koma.
Í stað þess að vera lauf í vindi getur þú verið sterka tréð sem er stöðugt og jarðtengt sem nær í gegnum sveigjanleika sinn að teygja laufin upp í átt að sólinni og tengja saman himinn og jörð. Það er vellíðan.
Gerðu kröfu um að gera hluti á þínum forsendum og þegar þú veist ekki svarið, gefðu þér þá tóm til að spyrja innra mér þér, og þegar maður smám saman fer að hlusta meira verður auðveldara að vita hvað maður vill og hvert maður stefnir. Vittu til, þegar maður gengur í takt við eigið hjarta þá verður allt svo miklu auðveldara.
Finndu þitt jafnvægi.