Orðið Bandha kemur úr Sanskrít og er yfirleitt þýtt sem lás í þeirri merkingu sem það er notað, en bein þýðing er að binda eða að halda einhverju föngu. Í jógafræðnunum er oftast talað um þrjá lása eða Bandhas í líkamanum, þeir eru; Moola-, Uddiyana- og Jalandhara Bandha, eða rótar-, maga-, og hálslás. Takmarkið með því að virkja þessa lása er að beina Kundalini orkunni upp eftir hryggjarsúlunni, upp eftir aðal orkubraut líkamans, Sushumna Nadi. Samkvæmt jógafræðnunum er það að virkja þessa lása allra meina bót, og jafnvel gengið svo langt að segja að ef þú æfir þig reglulega náir þú að snúa á sjálfan dauðann.
Moola Bandha eða rótarlásinn er neðstur við fyrstu orkustöð líkamans, Muladhara Chakra eða rótarstöðina. Þegar Moola Bandha er virkjaður er orkunni beint upp á við, innri hiti byggður upp í líkamanum og með því möguleikinn á vakningu Kundalini. Rótarlásinn er í miðju líkamans og er virkjaður hjá körlum með að draga saman svæðið á milli pungs og endaþarms, en hjá konum er tilfinningin eins og verið sé að virkja grindarbotninn. Tekið er skýrt fram í jógafræðunum að ekki eigi að herpa endaþarminn sjálfan saman, en það er engu að síður gott fyrir byrjendur að finna svæðið þannig til að byrja með. Til að æfa rótarlásinn þá kemur þú þér fyrir í þægilegri sitjandi stöðu og byrjar á að halda spennu á áðurnefndu svæði í nokkrar sekúndur og sleppa svo aftur. Þetta er svo endurtekið nokkrum sinnum þar sem tíminn sem spennunni er haldið er aukinn með tíma og æfingu. Moola Bandha er líka nefndur í tenglsum við kynorkuna, að við leyfum henni ekki að stjórna okkur heldur beinum henni í uppbyggilegan farveg. Einnig eiga lásarnir að jafna hormónaflæði í líkamanum, og koma í veg fyrir of miklar sveiflur hvort sem það er líkamlega eða andlega. Jafnvægi í lífinu er alltaf gott og án efa það sem flestir sækjast eftir, en samkvæmt jógafræðunum eiga tímabil sem eru meira krefjandi en önnur, eins og unglingsárin og breytingaskeiðið að vera minna dramatísk en ella með heildrænni jógaástundun.
Uddiyana Bandha eða magalásinn er veigamestur og þegar sá lás hefur verði masteraður öðlast viðkomandi einstaklingur Mukti eða uppljómun. Lyftikraftur Uddiyana opnar fyrir orkuflæði upp í átt að Anja Chakra eða þriðja auganu, dyrum uppljómunar, og viðkomandi sér að allt er eitt og dauðinn bara tálsýn. Uddiyana Bandha er við naflann, þar sem þriðja orkustöð líkamans Manipura Chakra eða sólarplexus er staðsett. Uddiyana þýðir að rísa upp eða fljúga. Lífsorkunni í líkamanum, eða Kundalini, er líkt við fugl sem reynir aftur og aftur að fljúga upp á við, en er fastur með snæri við staur og því alltaf togaður aftur niður. Með því að sameina og beina orku Ida- og Pingala Nadi upp eftir aðalorkubrautinni, Sushumna Nadi er fuglinn frelsaður og nær að fljúga upp í efstu orkustöðina, Sahasrara Chakra, eða krúnustöðina. Uddiyana Bandha er oft kallaður lásinn fljúgandi eða “the flying lock” og er mjög oft nefndur í tenglsum við viðsnúnar stöður í jóga þar sem virkja þarf miðjuna til að ná að “fljúga” eða lyfta sér upp til að komast inn í viðkomandi stöðu. Má sem dæmi nefna Flying Pigeon og Pinca Mayurasana, eða í raun hvaða handstöðu sem er. Þegar Uddiyana Bandha er iðkaður eru líffærin í kviðarholinu dregin upp á við og hefur það góð áhrif á meltingar- og öndunarfærin ásamt því að örva blóðrásina. Hjarta og lungu eru nudduð með þyndinni og þyndin sjálf styrkist ásamt því að taugakerfið allt nýtur góðs af, sem og að súrefnisupptaka í líkamanum eykst. Uddiyana Bandha er alltaf iðkaður með Jalandhara- og helst Moola Bandha líka. Til að æfa magalásinn er staðið með mjaðmabreidd á milli fóta og bogin hné. Lófar lagðir á sitthvort lærið, þumlar inn, fingur út. Hryggjarsúlan er alveg bein. Andað er djúpt inn um nefið, svo er loftinu hleypt rólega út um munninn um leið og hakan er dregin ofaní bringu og axlir upp að eyrum og Jalandhara Bandha eða Hálslásinn er virkjaður. Dragðu kviðinn inn og upp og haltu í nokkrar sekúndur. Losaðu um maga, svo háls og að lokum andar þú inn. Endurtaktu þetta nokkrum sinnum.
Jalandhara Bandha eða hálslásinn er staðsettur eins og nafnið gefur til kynna í hálsinum framanverðum. Þegar lásinn er virkjaður dregur úr taugaboðum ásamt súrefnis- og blóðflæði til heila. Þegar lásinn er losaður er opnað aftur fyrir ofantalið og með því eykst virkni í svæðum heilans sem í jógafræðunum eru talin tengjast uppljómun. Jalandhara Bandha örvar skjaldkirtilinn, jafnar hormónastarfsemi og eykur frumumyndun í líkamanum og vinnur með því gegn öldrun. Hálslásinn hefur áhrif á beinþéttni og kalk í blóði ásamt því að örva grunnbrennslu líkamans og eykur alla almenna orku. Með því að virkja hálslásinn eru Ida- og Pingala Nadi gerðar óvirkar og orkuflæðinu beint upp eftir Sushumna Nadi þar sem orkan er stöðvuð og hún safnast öll fyrir í hálsstöðinni, eða Vishuddi Chakra, eins og stoppistöð á milli líkamans og hærri vitundarsviða. Jalandhara Bandha eða hálslásinn er auðveldastur að vinna með en hafa skal í huga að ekki er mælt með að iðka Jalandhara Bandha ef viðkomandi er með háan blóðþrýsting. Til að virkja hálslásinn er setið í þæglegri stellingu með krosslagðar fætur, bakið beint og lófa á hnjám. Andað inn og þegar andað er rólega frá er hakan dregin ofaní bringu, rétt úr handleggjum og axlir dregnar upp að eyrum. Andanum er haldið niðri á meðan lásinn er virkur. Til að losa er höfðinu lyft rólega upp og losað um axlir. Endurtakið fimm sinnum með um það bil mínútu á milli umferða.
Lásarnir eða Bandhas skipta miklu máli í jóga og fræðin segja þá jafn mikilvæga og það að borða og sofa. Til að ná sem mestum árangri ætti að iðka alla lásana þrjá saman og mynda það sem nefnist Maha Bandha eða stóri lásinn. En á meðan verið er að ná valdi á hverjum lás fyrir sig er gott að æfa þá í sitthvoru lagi.
Þegar Kundalini orkan er vakin í líkamanum verður miðtaugakerfið virkt og hlaðið orku. Sú orka sem sem fer venjulega í gegnum taugakerfið er lág, fer að mestu út í gegnum skilningarvitin og viðheldur einungis lágmarks meðvitund. Með vakningu Kundalini hækkar tíðni orkunnar og talað er um ofur meðvitund. Tekið er fram í fræðunum að ekki sé allt gefið upp í bókum og að allt þetta eigi að æfa undir leiðsögn Guru. Það er til dæmis ekki gefið upp hvernig eigi að beina orkunni upp að þriðja auganu eða Ajna Chakra, heldur aðeins að það sé takmarkið. Kundalini orkan er mjög kröftug og þarfnast líkaminn heildræns undirbúnings þar sem jóga er stundað með öllu sem í því felst eins og til dæmis öndun, hugleiðslu, mataræði og jógastöður eru iðkaðar ásamt lásunum svo eitthvað sé nefnt.
Heilmild: Hatha Yoga Pradipika eftir Swami Muktibodhananda
María Hólm