Það er fátt betra en að vera elskaður, að finna fyrir umhyggju og væntumþykju frá fjölskyldu, vinum og vandamönnum. Að finna að maður sé metinn að verðleikum, að fá viðurkenningu fyrir framlag sitt eða hrós fyrir vinnu sína. Fá góða endurgjöf fyrir verkefni, viðurkenningu fyrir árangur af ýmsu tagi, allt frá námsárangri til íþróttaiðkunar.
Allt er þetta ótrúlega stór hluti af því að vera manneskja að upplifa þessa hluti með fólkinu okkar og öðru fólki í kringum okkur. Þetta gefur lífinu gildi og tilgang og drífur okkur áfram og hvetur okkur inn í daginn. Við vöknum hvött til þess að gera og upplifa þessa hluti, hvort sem það er að ná góðum árangri í námi, vinnu, hreyfingu eða eyða tímanum okkar með fjölskyldu og vinum.
Það er vissulega gaman að njóta góðs af þessu öllu og engin ástæða til annars en að gera það ,,All Inn” ! Hins vegar er það jafn mikilvægt fyrir okkur að muna eftir því að elska sjálf okkur sama hvað við gerum, sama hvaða árangri við náum, sama hvaða viðurkenningu við fáum og sama hvaða hrós við fáum. Að muna eftir því að elska okkur sjálf óháð því hversu mikla eða litla umhyggju, væntumþykkju eða nærveru við fáum frá öðrum í kringum okkur.
Í rauninni stöndum við uppi með þetta verkefni sjálf þegar uppi er staðið að elska sjálfan okkur í öllu sínu veldi. Við berum ábyrgð á því að hlúa að okkur, elska og gera það sem er best fyrir okkur hverju sinni. Það er enginn annar sem getur sinnt þessu verkefni betur en við sjálf. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt og gott fyrir okkur að fá hjálp til þess og engin ástæða til annars. En það er jafn mikilvægt fyrir okkur að muna eftir því að bera ábyrgð á þessu hlutverki okkar sjálf. Það er hætta á því að þetta gleymist og við getum orðið háð því að eltast við viðurkenningu, hrós, markmið, væntumþykkju og umhyggju frá öðrum. Það setur okkur í erfiða stöðu sem getur valdið kvíða og vanlíðan. Þar sem við erum í rauninni búin að takmarka kærleika og umhyggju til okkar við viðurkenningu, hrós, markmið, væntumþykkju og umhyggju frá öðrum. Í stað þess að elska okkur skilyrðislaust, algjörlega óháð því hvað við gerum, erum og hverjir elska okkur og þykja vænt um okkur.
Það er mikilvægt fyrir okkur að muna eftir því að sama hver við erum, sama hvar við erum og sama hvernig okkur líður, þá erum við elskuð.
Mjög fallega skrifað og svo mikilvægt!