Kristín fann ný tækifæri í lífinu

VIÐTAL Sigríður Inga Sigurðardóttir

Kristín Sigurðardóttir, slysa- og bráðalæknir, varð að umbylta lífi sínu eftir að hún veiktist af völdum rakaskemmda í húsnæði. Hún þurfti að finna sér nýjan starfsvettvang, flytja í nýtt húsnæði, og settist á skólabekk á ný. Í dag stundar hún sjósund og útivist af kappi, enda líður henni best í fersku lofti, umkringd íslenskri náttúru.

„Mér finnst geggjað að fara í sjóinn. Ég held líka að það sé mjög hollt, hvort sem það er kuldinn, efnin í sjónum eða útiveran sem gerir manni svona gott,“ segir Kristín Sigurðardóttir brosandi, þar sem við syndum í sjónum í Nauthólsvík á einum af þessum fallegu vordögum, sem gefa fyrirheit um gott sumar. Kristín er þaulvön sjósundkona, sem byrjar á því að gera kröftugar eldöndunaræfingar og armbeygjur í fjörunni áður en hún fer í sjóinn. Eftir sjóferðina látum við fara vel um okkur í heita pottinum og höldum síðan yfir í Braggann og tökum spjall saman.

Læknisfræðin

„Ég ólst upp í Bandaríkjunum en flutti til Íslands þegar ég byrjaði í gagnfræðaskóla. Ég var ekki sátt við flutningana og vildi fara út aftur við fyrsta tækifæri. En svo uppgötvaði ég þetta æðislega land sem Ísland er, og naut þess virkilega að vera hérna. Ég hafði stefnt að því að fara til útlanda í nám í þáttagerð og sjónvarpsupptökum en var orðin svo mikill Íslendingur í mér að ég gat ekki hugsað mér að flytja út aftur, heldur ákvað sumarið eftir stúdentspróf að fara í læknisfræði við Háskóla Íslands. Mér fannst gaman að læra um mannslíkamann og er mikil félagsvera, þannig að námið átti vel við mig. Læknisfræðin hefur líka gefið mér tækifæri til að búa víða og upplifa margt. Ég leysti t.d. af sem læknir í Stykkishólmi, á Flateyri, Ísafirði, Þingeyri, Þórshöfn og Raufarhöfn, og ég var í tvö ár á Akureyri. Ætlunin var að klára hringinn eftir sérnámið en ég á enn Austfirðina og Suðurlandið eftir,“ segir Kristín, og bætir við að hún kunni mjög vel við sig úti á landi.

Íslendingar á yfirsnúningi

Á meðan Kristín var í grunnnámi í læknisfræði vann hún á hinum ýmsum deildum Landspítalans, en einna mest á slysa- og bráðadeild.
„Ég var líka á neyðarbílnum, og síðar á björgunarþyrlunni. Mig langaði að læra slysa- og bráðalækningar því mér fannst heillandi að hjálpa fólki á öllum aldri, sem var að glíma við alls konar veikindi, vandamál eða slys. Ég fór í sérnám til Bretlands og með í för var maðurinn minn og sonur okkar. Ég vann á sjúkrahúsi í hjarta London og einnig í Newcastle. Að þeirri dvöl lokinni fluttum við aftur heim. Mér fannst íslenskt þjóðfélag hafa breyst á þessum árum sem við vorum í burtu. Allt var komið á einhvern yfirsnúning í þessu góðæri, og ég varð vör við meira ofbeldi og neyslu í gegnum starfið á bráðamóttökunni. Góðærið náði þó sannarlega ekki inn á spítalann. Þar var mikið aðhald, eins og alltaf, og mér fannst fólk stundum útskrifað þannig að það fór út um einar dyr á spítalanum og kom síðan strax inn um aðrar. Margt af þessu olli mér heilabrotum,“ segir Kristín hugsi.

Spánardvölin

Þegar manninum hennar bauðst spennandi vinna á Spáni ákváðu þau hjón að láta slag standa og flytja aftur út. „Synirnir voru þá orðnir þrír, og við vildum að þeir fengju allir tækifæri til að búa í útlöndum og kynnast annarri menningu og gildum. Þeir voru að æfa fótbolta og héldu því áfram úti á Spáni. Þeir voru að keppa, og í gegnum boltann ferðuðumst við mikið um spænsku eyjarnar og einnig Íberíuskagann. Við heimsóttum staði sem við hefðum aldrei annars séð, sem var alveg meiriháttar gaman, og eignuðumst góða, spænska vini.“

Kristín settist á skólabekk til að læra tungumálið en fljótlega var hún komin á kaf í sjávarútvegslæknisfræði. „Þegar ég vann á björgunarþyrlunni fylgdi starfinu að kenna við Slysavarnaskóla sjómanna. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki vissu af mér úti á Spáni og báðu mig um aðstoð þegar slys eða veikindi komu upp hjá sjómönnunum. Ég fór líka í það verkefni að bæta aðbúnað um borð í íslenskum skipum, sem voru á veiðum við strendur Afríku. Ég kom m.a. að því að meta hvort senda ætti veika eða slasaða sjómenn á sjúkrahús á þessum slóðum, eða kalla út sjúkraþyrlu eða flug, eða senda þá á skip, sem eru útbúin sem sjúkrahús,“ segir Kristín og heldur áfram: Það var t.d. mikið ævintýri að fara með lögfræðingi eins sjávarútvegsfyrirtækisins til Afríku í þeim tilgangi að meta heilbrigðiskerfið.

Við fórum til Máritaníu, en innfæddir eru íslamstrúar, og þeirra lausn við að taka á móti tveimur konum í heim karlmanna var að umgangast okkur sem „tímabundna heiðurskarlmenn“. Athyglisvert var að sjá jafnframandi land og menningu frá þessu sjónarhorni.

Stanslaust með flensu

Eftir nokkurra ára búsetu á Spáni ákvað fjölskyldan að halda heim á ný, ekki síst til að synirnir næðu að festa rætur á Íslandi. Kristín byrjaði að vinna á Landspítalanum við sitt fag en fljótlega fór heilsan að gefa sig án þess að hún næði að átta sig á hvað væri í gangi.

„Fyrst fékk ég pirring og roða í augun, svo hálsbólgu þannig að ég var rám og síðan fór þetta niður í öndunarveginn. Ég skrifaði þessi veikindi strax á flutning á milli landa með mismunandi loftslagi. Áður en langt um leið var mér farið að líða eins og ég væri alltaf með flensu, en ég náði að jafna mig aðeins í fríum. Ég sem hef alla tíð verið mikil íþróttamanneskja, full af orku, og stundaði hlaup frá unglingsaldri, hætti að geta hlaupið og hjólað, eða stundað ræktina. Þetta var nýr veruleiki, því undir lokin á spítalanum var ég bókstaflega alltaf veik,“ segir Kristín.

Þegar hún frétti að fleiri starfsmenn á Landspítalanum væru að kljást við veikindi, sem væru af völdum rakaskemmda í húsnæðinu, vaknaði sú spurning hvort það væri kannski ástæða hennar veikinda.

Mig hafði ekki grunað að rakaskemmdir gætu haft svona mikil áhrif á heilsuna en þegar ég kom til vinnu aftur eftir sumarfrí var ég sem slegin niður hvað heilsuna varðar. 

Veikindaleyfi

„Læknirinn minn segir að ég sé eins og mælir þegar kemur að rakaskemmdum, einkennin hjá mér koma svo fljótt fram. Um tíma var ég svo veik að ég var rúmliggjandi og stóð ekki undir sjálfri mér.“

Kristín fór í veikindaleyfi í þeirri trú að húsnæðið yrði lagað og hún gæti síðan farið að vinna aftur. En það fór á annan veg. „Ég fékk það mikil einkenni þegar ég reyndi að fara aftur á Landspítalann, að ég gat einfaldlega ekki unnið þar. Húsnæðið er gamalt og úr sér gengið og því hefur ekki verið haldið nægilega við um árabil, megnið af fjármagninu hefur þurft að fara í reksturinn. Nú er að vísu bygging hafin á nýjum spítala, sem er í raun viðbygging við gömul og illa farin hús. Í mínum huga hefði verið miklu skynsamlegra að byggja nýtt, alvörusjúkrahús á öðrum stað, fjarri mengun og svifryki. Helst á fallegum stað, nær náttúrunni með þægilegri aðkomu fyrir sjúklinga, starfsfólk og aðstandendur.“

Kristín talar ekki sérstaklega um myglu, heldur frekar um rakaskemmdir eða áunnin umhverfisveikindi. Mygla kemur oft af völdum raka, og er sannarlega merki um að eitthvað sé í ólagi. „Ég held að þetta sé flóknara en svo, og að við vitum ekki nægilega mikið um vandann. Það gæti verið um að ræða samspil raka, baktería og annarra örvera, og jafnvel efna sem losnað hafa úr blautum byggingarefnum, sem gætu ræst ónæmiskerfið í fólki. Þetta er eitthvað sem þarf að rannsaka ofan í kjölinn og bæta úr. Stundum nota ég einfaldlega orðið „örveruefnasúpa“ um mögulega orsök. En hvað sem veldur, virðist heilsutjón af völdum rakaskemmda í húsnæði vera vaxandi vandamál í íslensku samfélagi. Þetta þarf að ræða án fordóma og á faglegum nótum, og bregðast við þegar skaðinn er skeður. Einfaldast væri að byggja vandað húsnæði og viðhalda því vel og koma þannig í veg fyrir vandann.“

Stóri skellurinn

Þegar ljóst var að Kristín gæti ekki unnið á spítalanum, heilsu sinnar vegna, var það stór skellur. „Ég fylltist mikilli sorg þegar ég áttaði mig á að ég gæti vart unnið sem læknir hér á landi. Um langa hríð gat ég lítið verið innandyra. Ég get eiginlega ekki enn farið á tónleika, listasöfn eða í leikhús, eins og ég hafði mikið dálæti á því. Heimili mitt varð að vera minn griðastaður, svo ég gat ekki fengið gesti í heimsókn ef hætta var á að þeir byggju eða ynnu í rakaskemmdu húsnæði. Það var og er enn slæmt fyrir mig að vera í kringum fólk sem notar mikinn rakspíra eða ilmvatn eða mikið þvottaefni, því það ertir töluvert. Þegar ég var sem veikust, mátti ég ekki fara í líkamsrækt og þar að auki var mér alltaf kalt,“ upplýsir hún.
Þetta hafði auðvitað áhrif á félagslífið og Kristín hitti fáa. Hún hafði heyrt að sjósund gerði mörgum gott, ekki síst fyrir þá sem þjást af gigt, astma eða útbrotum, svo hún ákvað að prófa það sjálf. „Þótt ég væri þróttlítil, fann ég mjög fljótt einhverja betri líðan við að fara í sjóinn. Sem dæmi, ef ég var með útbrot og kláða minnkaði það aðeins. Ef röddin var rám og augun rauð var eins og slímhúðin róaðist.“

Sjórinn hefur líka haft góð áhrif á skapið, hvort sem hann er úfinn, sem er gaman, eða lygn, stilltur og róandi. Það fylgir því alltaf gleði að fara í sjóinn.

„Fyrir mig var það líka mikilvægt félagslega, því Nauthólsvíkin var lengi vel eini staðurinn þar sem ég gat hitt fólk utan fjölskyldunnar. Og síðan er margt gott fólk sem dýfir sér í sjóinn. Svo þegar maður er einn síns liðs, fær maður náttúruna og núið beint í æð. Ég er sannfærð um að sjórinn og allt það góða sem honum fylgir eigi sinn þátt í mínum bata, en síðustu þrjú árin hefur heilsufarið þokast upp á við. Ég hef einnig notið meðferðar frá læknum sem hafa skipt mjög miklu máli. Líkaminn og ónæmiskerfið er að jafna sig, þótt enn sé nokkuð í land,“ segir Kristín.

Hún svarar því játandi að hafa fundið fyrir fordómum í garð þessara veikinda. „En er það ekki bara eins og með margt annað, þegar fólk hefur lítinn skilning, hvað þá litla þekkingu, þá hættir því kannski til að bregðast klaufalega við? Hins vegar skipti mig miklu máli, þegar fólk mætti mér án fordóma. Það var svo frískandi og mikill stuðningur í því, þegar fólk var bara hreint og beint. Það þurfti ekki endilega að skilja hvað væri í gangi, eða ræða þessi mál sérstaklega, heldur vera eins gagnvart mér og áður. Margir sýndu mér skilning og risu upp og fyrir það er ég afar þakklát.“

Læknir og leiðsögumaður

Þar sem Kristínu líður best utandyra gerði hún sér grein fyrir því að hún þyrfti helst að finna nýtt starf úti undir beru lofti. Henni datt helst í hug skógrækt, eða að bera út póst eða sjá um leiðsögn. Úr varð að Kristín fór í nám í leiðsögn hjá Endurmenntun Háskóla Íslands haustið 2016.

„Námið var dásamlegt og gaf mér kost á að kynnast landinu okkar enn betur, en ég lærði m.a. landafræði, jarðfræði og sagnfræði, fyrir utan hvað ég kynntist góðu fólki. Það var t.d. afar áhugavert að uppgötva sögu klaustra og sjúkrahúsa á Íslandi, sem nær langt aftur í tímann. Klaustrin voru þeir staðir þar sem sjúkir og veikir gátu leitað sér aðstoðar, og í sumum tilfellum voru þau eins og elliheimili.“

Oft gefa lækningajurtir, sem vaxa villtar úti í náttúrunni, vísbendingar um hvar klaustur hafa staðið. Konur og útlendingar hafa átt stóran þátt í að byggja sjúkrastofnanir hérlendis.

„Fyrsta hátæknisjúkrahúsið var sennilega byggt af Frökkum á Fáskrúðsfirði, fyrir frönsku sjómennina sem veiddu við Íslandsstrendur í fjögur hundruð ár. Þeir byggðu líka sjúkrahús í Vestmannaeyjum og Reykjavík. Nunnur byggðu Landakot, spítalann í Stykkishólmi og síðan áttu konur stóran þátt í að Landspítalinn var byggður árið 1930. Stundum finnst mér eins og þjóðin sé að bíða eftir að útlendingar eða konur byggi hér alvörusjúkrahús,“ segir Kristín kankvíslega.

Leiðsögunámið hefur nýst henni vel. Kristín hefur m.a. farið með kvennahópa út á vegum ferðaskrifstofunnar Mundo og gengið Jakobsveginn fræga nokkrum sinnum, í heild sinni eða að hluta. „Þær ferðir eru ævintýri líkastar. Það er magnað og jafnvel andleg upplifun að feta í fótspor fólks sem gekk þarna fyrir mörgum öldum. Jakobsvegurinn er eins og lífið sjálft, áfangastaðurinn er ekki endilega markmiðið heldur vegferðin sjálf. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að fara Jakobsveginn, einmitt þegar ég þurfti á því að halda. Ég gat verið úti, og þessar ferðir hjálpuðu mér mikið með eigin heilsu og einnig að sjá og finna ný tækifæri í lífinu.“

Streitan til góðs

Heilsa, streita og seigla hefur lengi verið Kristínu hugleikin, og hún hefur haldið vinsæla fyrirlestra um þetta efni. „Ég hef unnið með Gyðu Dröfn Tryggvadóttur, lýðheilsufræðingi, með fyrirtækið Á heildina litið, og þar áður með Ólafi Ævarssyni, geðlækni, einum af frumkvöðlum varðandi kulnun og örmögnun hér á landi. Í starfi mínu sem læknir, hitti ég oft fólk sem þjáðist líkamlega vegna streitu. Streita er oft máluð upp sem grýla en það er misskilningur að hún sé endilega óvinur manns. Streitan hjálpar okkur t.d. að lifa af fæðinguna og takast á við áskoranir í lífinu. Mig langar til að auka skilning fólks á streitunni og fræða það um hvað sé í gangi þegar hjartað slær hraðar og vöðvarnir spennast upp. Óþarfi er að hræðast streituna og við getum gert margt sjálf til að takast á við hana og nýtt okkur. Skilningur á henni er fyrsta skrefið í þá átt,“ segir Kristín.

Til að hjálpa fólki að muna streituráðin notar hún kerfi sem hún kallar H-in til heilla. Fyrstu fimm h-in eru: hugsun, hegðun, hollusta, hvíld og hreyfing.

Hugsunin er í fyrsta sæti því það skiptir máli hvernig við hugsum. Við getum haft áhrif á hugsunina, og þ.a.l. á heilann. Með því m.a. að gera þakklætisæfingar getum við endurstillt heilann til að sjá betur það jákvæða í umhverfinu.

„Hvað hegðun varðar, þá skiptir máli hvernig við bregðumst við mismunandi aðstæðum, og það hefur áhrif á líðanina. Þá er hollustan mikilvæg, bæði innri, þ.e. það sem við látum ofan í okkur og ytri, þ.e. umhverfið og loftgæðin úti og inni. Við erum það sem við borðum, og hvort viljum við vera úr gæðaefni eða rusli? Svo er hvíldin, bæði í augnablikinu eða núinu, og svefninn hluti af þessu öllu. Einu sinni þótti aumingjaskapur að sofa mikið en sem betur fer hefur það breyst, enda er ein elsta pyntingaraðferðin að svipta fólk svefni. Svo erum við hönnuð til að hreyfa okkur og þurfum á því að halda, bæði andlega og líkamlega. Allt þetta eru verkfæri til að þola álag í lífinu betur og takast á við streituna, því við lendum öll í einhverju.“

Fram til ársins 1985 voru um 85% allra rannsókna á streitu gerðar á karlmönnum, eða oftast einungis á karlrottum, en sem betur fer er farið að rannsaka áhrif hennar á konur í meira mæli nú en áður, að sögn Kristínar. Þá hefur komið í ljós að streituviðbragðið er líka „Tend and befriend“, ekki einungis „Fight and Flight“ en hún á 20 skemmtileg h til viðbótar, svo sem hjálpsemi, hlátur og fleira. Fyrir tveimur árum tók svo líf Kristínar nýja stefnu þegar hún hóf störf hjá Þjónustumiðstöð rannsóknarverkefna, sem er í eigu Íslenskrar erfðagreiningar. Læknismenntunin nýtist henni í því starfi, og Kristín horfir björtum augum til framtíðar.

„Það er virkilega áhugavert að vinna fyrir svona öflugt þekkingarfyrirtæki. Ég bjóst aldrei við að vinna fyrir vísindafyrirtæki, heldur hélt ég að ég yrði spítalalæknir það sem eftir væri. Þarna fæ ég að læra mikið og vinna í leiðinni að heilsueflingu, sem er skemmtilega óvæntur snúningur. Af þessu öllu saman hef ég lært að vegferðin í lífinu er ekki endilega bein og breið, heldur getur hún verið alls konar, með mörgum óvæntum og skemmtilegum uppákomum í leiðinni.“

Kristín Sigurðardóttir býður upp á námskeið og fyrirlestra þar sem athyglinni er beint að almennri heilsu, seiglu, streitu, samskiptum & núvitund. Fagleg, gagnleg og skemmtileg framsetning á mannamáli. Tilvalið fyrir hópa, skóla og vinnustaði – smelltu hér til að skoða Á Heildina Litið nánar

 

Skoðaðu fyrirlesturinn endurgjaldslaust með því að skrá þig á póstlistann okkar!

Viðtalið við Kristínu Sigurðardóttir birtist fyrst í vorblaði Í boði náttúrunnar 2019 – smelltu hér til að kaupa áskrift.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.