Lifðu eins og meistari

Meistaramánuður er genginn í garð og tími til að taka febrúar með trompi. Ég hvet að alla til þátttöku enda er þetta gullið tækifæri til þess að skapa og tileinka sér nýjar venjur.  Meistaramánuður snýst um að skora á sjálfan sig, setja sér markmið lítil og stór og vera betri útgáfa af sjálfum sér. Töfrar átaksins felast í mikilli þátttöku því það gerist eitthvað í slíku hópefli.

Að setja sér markmið er í raun afar einfalt ferli en þau eiga þó oft til að gleymast eða falla niður forgangslistann þegar líður á. Ég hef sjálf reynt ýmsar leiðir til þess að setja mér markmið, kynnt mér margt og fundið leiðir sem virka fyrir mig. Mitt fyrsta ráð til þín er því að byrja mánuðinn á að setja þér bæði langtíma- og skammtímamarkmið, skrifa þau niður og geyma á áberandi stað. Ef þú ímyndar þér stiga þá er langtímamarkmiðið toppurinn og skammtímamarkmiðin þrepin sem koma þér þangað.

Leiðin á toppinn er ekki alltaf auðveld enda krefst vinnu, þolinmæði og tíma að tileinka sér nýjar venjur. Það er því eðlilegt að hrasa nokkru sinnum á leiðinni svo lengi sem þú stendur aftur upp. Talað er um að það taki að minnsta kosti 21 dag að koma upp breyttum venjum og því er stuttur mánuður eins og febrúar tilvalinn upphafspunktur. Að ætla sér of mikið á of stuttum tíma getur verið yfirþyrmandi og leiðir oft til uppgjafar. Lítil skref í rétta átt er því hugarfar sem gott er að tileinka sér.

Þegar kemur að markmiðasetningu er gott að hafa SMART regluna bakvið eyrað en hún felst í því að markmiðin séu eftirfarandi:

Skýr: Markmiðið er vel skilgreint og læsilegt
Mælanleg: Þú veist hvað þú þarft að leggja að mörkum til að ná markmiðinu og það er skýrt hvenær því hefur verið náð
Aðlaðandi: Markmiðið er þér hvatning og þú hefur sanna löngun til þess að ná því
Raunhæf: Þættir líkt og aðstæður, tími og vitneskja gefa til kynna að markmiðið sé raunhæft
Tímasett: Það er lokadagsetning á hvenær markmiðinu skal vera náð

Ásamt markmiðunum er gott að setja upp aðgerðaráætlun sem felur í sér hvernig, hvenær og hversu mikla vinnu þú leggur í markmiðin þín hverju sinni. Góð áætlun heldur þér við efnið og gefur þér góða yfirsýn enda er skipulag góð leið til þess að ná árangri. Ég get gefið ykkur dæmi um mitt markmið í mánuðinum:

Ég ætla að keppa í minni fyrstu glímukeppni í byrjun mars, vitandi að ég hafi lagt 100% í undirbúninginn:

  • Æfa 5-6 sinnum í hverri viku fram að keppni
  • Borða hollan og næringarríkan mat sem gefur mér jafna og góða orku (í lagi að bregða hóflega út af sporinu í félagslegum aðstæðum)
  • Skrifa niður eftir hverja æfingu hvað fór vel og hvað ég get bætt
  • Njóta þess að mæta á æfingar og hugsa jákvætt í öllum aðstæðum

Breytingar geta verið krefjandi og falið í sér margar hindranir en þrátt fyrir það er mikilvægt að geta notið ferðarinnar. Hvort sem markmiðið þitt er að borða hollara, stunda meiri hreyfingu eða lesa fleiri bækur vertu þá viss um að velja bragðgóðan mat, hreyfingu sem þig hlakkar til að stunda eða bækur sem þú getur ekki slitið þig frá. Það er ekki bara útsýnið af toppnum sem skiptir máli heldur leiðin þangað líka. Finndu því stefnu sem hentar þér vel og njóttu þess að lifa eins og meistari á hverjum degi.