Fjögur öpp til að auðvelda okkur lífið

Við hjá Í boði náttúrunnar elskum að uppgötva ný og gagnleg smáforrit sem einfalda okkur lífið. Hér eru fjögur smáforrit sem við höfum nýlega kynnst og hafa reynst okkur vel.

 

Zero

– Frítt
Sífellt fleiri rannsóknir sýna fram á kosti þess að fasta. Stutt fasta annað slagið virðist hafa góð áhrif á bæði líkamlega og andlega heilsu.
Zero appið hjálpar þér að halda utan um þínar föstur. Það telur niður tímann og lætur vita þegar föstu líkur, sýnir fyrri föstur og birtir reglulega nýjar greinar með fræðsluefni og góðum ráðum um föstur.
Flott app fyrir föstur og fróðleik.


 

Picture This

– Árgjald u.þ.b. 3000 kr.
Þú sérð plöntu sem þú ekki þekkir en vilt vita meira um, eða þú ert í vandræðum með plöntu sem þú átt og þarft upplýsingar um hvað sé til ráða. Ekki málið, þú opnar appið, tekur mynd af henni og innan skamms blasa við þér allar þær upplýsingar sem þú þarft. Appið segir þér heiti plöntunnar, hve mikla birtu og vökvun hún þarf, hvernig best sé að taka afleggjara, hvaða vandamál geta komið upp með plöntuna og í raun bara allt sem þú mögulega þarft og þarft ekki að vita.
Stórsniðugt og þægilegt.


 

Vegan Iceland

– Frítt
App sem gefur þér upp vegan veitingastaði um allt land. Í appinu getur þú sett inn þína staðsetningu og séð hvaða staðir í grennd við þig bjóða upp á vegan valkosti. Einnig getur þú skoðað allt landið. Hagnýtt ef þú ert á leið í ferðalag og vilt kynna þér hvaða vegan veitingastaðir eru á næsta áfangastað.
Appið veitir upplýsingar um opnunartíma hvers staðar fyrir sig, vefsíðu og listar gróflega upp hvaða vegan valkostir eru í boði á hverjum stað fyrir sig.


 

Think Dirty

– Frítt
Viltu vita hvaða innihaldsefni eru í snyrti- og hreinlætisvörunum sem þú notar? Með þessu appi getur þú skannað strikamerki á vöru og kynnt þér hversu hrein hún er. Öll innihaldsefnin eru listuð upp og flokkuð í þrjá flokka eftir hreinleika og þar hægt er að lesa sér betur til um hvert og eitt innihaldsefni.
Notendur appsins geta gefið vörum umsögn og einkunn. Þannig er hægt er að sjá lista yfir þær vörur sem notendur eru ánægðir með.