Morgunvenjur Guðrúnar í Systrarsamlaginu

Guðrún Kristjánsdóttir er hin systirin í Systrasamlaginu sem nú stefnir hraðbyri inn í nýtt starfsár. Afmæli Systrasamlagsins er í undirbúningi og verður því fagnað með ýmsum hætti vikuna 10. – 16. júní. Hluti af því verður m.a. afmælismorgun-Samflot Systrasamlagsins sunnudaginn 15. júní, á sjálfan afmælisdaginn. Guðrún á bakgrunn í blaðamennsku og var líka kynningarstjóri Listahátíðar í Reykjavík í mörg ár. Hún er stjórnmálafræðingur að mennt en hefur einnig stundað meistaranám í sálgæslufræðum. Guðrún hefur lengi haft áhuga á heilsumálum, er ljón og sú systra sem er sískrifandi og finnst sérlega gaman að taka ljósmyndir. Við fengum að vita hvernig þessi kraftmikla kona byrjar daginn:

Gunna k nýHvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?:
Ég er með margvíslegar morgunvenjur og myndi líklega teljast A-manneskja, þ.e. ég á ekki erfitt með að vakna á morgnanna. En hitt er að ég mætti stundum fara fyrr að sofa á kvöldin. En þar sem vor- og sumarkvöldin eru oft svo fögur á ég það til að gleyma mér. Almennt vakna ég á bilinu sex til sjö í miðri viku, átta á laugardögum og svona vel fyrir hádegi á sunnudögum.

Hvernig eru morgunvenjurnar?:

Ég er alltaf að prófa eitthvað nýtt og ekki mjög fastheldin enda hef ég þá trú að það sé gott að ögra líkamanum á góðan hátt. Um þessar mundir byrja ég á því að fá mér L-glútamín með stýrurnar í augunum á fastandi maga. Glútamín er frábært og margrannsakað bætiefni sem hentar mér vel ákkúrat núna. Það er mjög græðandi fyrir meltingafærin. Og svo hefur komið í ljós að það er líka gott fyrir heilann. Já, þetta með meltinguna og heilann! Það er mjög merkilegt samhengi. Aukabónus fyrir mig allavega.
Hálftíma síðar fæ mér volgt vatn með sítrónusafa sem er allra meina bót, eða blöndu af sítrónu með berkinum ásamt engifer, svörtum pipar, cayenne pipar og ögn af kókossykri, sem er þó búið að hreinsa trefjarnar frá. Alger dúndurblanda sem við bjóðum upp á í Systrasamlaginu.
Nú, svo er ég komin upp á lagið með að nota tungusköfu og get ekki hugsað mér lífið án hennar. Þetta er góður siður sem ég hef sótt í Ayurveda lífsvísindin og er að verða jafn sjálfsagt fyrir mér eins og að bursta tennurnar. Og ef andinn er sterkur held ég mig á jógamottunni og geri svona tvær þrjár sólarhyllingar eða losa um bandvefinn með líkamsrúllunni minni (body roller) sem er eiginlega mesta jóga tryllitækið sem ég hef komist í tæri við.

Hitt er að ég elska morgunró og nú um stundir finnst mér fátt eins notalegt og fara út í Suðurnes snemma morguns á fallegum degi. Þar tek ég inn náttúruna og hugleiði gjarnan á bekknum sem afi minn sat á löngum stundum. Hugleiðslan felst í því að horfa á fuglalífið og hafið og finna ilminn af grasinu (það kemur fyrir að ég fæ tár í augun yfir náttúrufegurðinni á Nesinu). Að lokinni þessarri morgunandakt sæki ég ýmist brauðin til Ásgeirs Sandholts á Laugaveginn eða fer upp í Systrasamlag og undirbý daginn. Þá er komið að því að borða og þar sem ég er svo vel römmuð inn í hollustu skiptir ekki máli hvað ég læt ofan í mig. En oftast byrja ég á grænum þeytingi eða kínóagraut. Ef ég er í sérstöku veisluskapi þá er það cappucino og croissant. Allt úr lífrænu. Að sjálfsögðu. Og svo er bara að taka á móti viðskiptavinum vel nærður bæði andlega og líkamlega. Það dugir ekkert minna.

Hvað hjálpar þér að halda þessum venjum?:

Hugleiðslan hefur hjálpað mér langmest. Ef ég stunda hugleiðslu reglulega er eins og líf mitt verði fyrirhafnalaust í réttum skorðum. En það er alls ekki svo að ég nái því alltaf. Stundum er ég í undarlegum mótþróa þó að ég viti í hjarta mínu hvað mér er fyrir bestu. Þess vegna finnst mér gott að stinga mér reglulega á bólakaf inn í heim jóga og hugleiðslu, eins og gerði um páskanna á Kripalu jógasetrinu (sem er himnariki á jörð). Þá næ ég mér á strik og get haldið ótrauð áfram, vonandi að vaxa.

Tögg úr greininni
, ,