Lifum betur – María Dalberg

Lifum betur er nýr fastur liður hér á síðunni okkar þar sem við spyrjum samferðafólk spjörunum úr og fáum innsýn í þeirra lífsvenjur. Með slíku samtali vonumst við til að fá hugmyndir og innblástur og ekki síður fyrirmyndir á okkar oft á tíðum hlykkjóttu vegferð – til þess að lifa betur.

María Dalberg er leikkona, jógakennari og ein af eigendum jógastöðvarinnar Iceland Power Yoga. Áhugi Maríu á jóga kviknaði fyrst fyrir tíu árum síðan þegar að hún lagði stund á leiklistarnám í London. Í kjölfarið varð jóga hluti af hennar lífstíl en síðustu fimm árin hefur hún kennt og deilt ástríðu sinni á iðkuninni hér á landi. Í haust lét hún stóra draumin rætast þegar að hún og eiginmaður hennar ásamt öðrum hjónum opnuðu jógastöðina Iceland Power Yoga í hjarta Kópavogs. 

Lýstu sjálfri þér í þremur orðum?
Jákvæð, þolinmóð og metnaðarfull.

Morgunrútínan þín?
Á virkum dögum er morgunrútínan yfirleitt svona: Ég vakna kl 7:00, klæði mig í jógafötin, tannbursta mig og drekk eitt stórt vatnsglas. Svo bý ég til smoothie og kaffi og tek með mér í vinnuna. Keyri niður í Iceland Power Yoga jógastúdíóið mitt í Holtasmára 1, fer í heitan Power Yoga morguntíma til Ingu meðeigenda míns ef hún er að kenna, annars tek ég morgunæfingu sjálf í sirka 60 mín og 15 mínútna hugleiðslu á eftir. Eftir sveittan og endurnærandi jógatíma hoppa ég í sturtu og fer aftur í jógaföt (ekki þessi sveittu samt) og er tilbúin að kenna orkumikinn Power Yoga tíma og gefa hundrað prósent af mér.

Uppáhalds morgunverður?
Grænn heimapressaður djús. Sjá uppskrift hér að neðan.

Hvernig viltu kaffið þitt?
Latté með haframjólk.

Matarspeki?
Mér finnst mikilvægt að borða hreinan mat, s.s. ekki unninn mat. Ég borða mikið fisk, grænmeti og ávexti í öllum litum. Ég borða ekki morgunmat fyrir morgunæfingar en passa að vökva mig og drekk nóg af vatni og kókosvatni. Svo fæ ég mér djús eða smoothie eftir æfingu. Í hádeginu fæ ég mér eitthvað staðgott t.d. matarmikið sallat, grænmetisrétt, ommilettu eða grænmetissúpu. Svo fæ ég mér ávexti eða orkubar ef orkan dettur niður yfir daginn. Í kvöldmat finnst mér best að fá heitan mat eins og góðan fisk, grænmetisrétt eða súpu. Ég reyni að borða ekki mikið á kvöldin rétt fyrir svefninn. Það er líka nauðsynlegt að hvíla meltinguna inná milli. Þá tek ég stundum fljótandi daga til að hvíla meltinguna almennilega.

Hreyfingin þín?
Power Yoga, sund og göngutúrar.

Ómissandi í eldhúsið?
Blender, espresso kaffivél og slow cooker pottur.

Þrennt matarkyns sem þú átt alltaf til?
Banani, kaffi og dökkt súkkulaði.

Hvaða verkefni eru á döfinni hjá þér?
Ég og Inga Hrönn Kristjánsdóttir jógakennari ásamt eiginmönnum okkar opnuðum nýlega jógastöðina Iceland Power Yoga í Holtsmára 1 í hjarta Kópavogs. Eftir rúmar tvær vikur byrjar 200 tíma jógakennaranám í Baptiste Power Yoga aðferðafræðinni hjá okkur. Baptiste Yoga aðferðafræðin samanstendur af kraftjógaflæði í heitum sal, hugleiðslu og sjálfsvinnu, en upphafsmaður hennar er jógakennarinn og metsöluhöfundurinn Baron Baptiste. Þá fáum við magnaðan kennara frá Bandaríkjunum sem heitir Alice Riccardi en hún var nemandi sjálfs Baron Baptiste til að kenna námið. Það er eiginlega orðið fullt í námið. Ég ætla að setjast aftur á skólabekk og njóta þess að taka annað 200 tíma kennaranám með frábærum kennara. Svo ætla eiginmenn okkar Ingu líka að vera með í náminu. Svo að þetta verður geggjað stuð hjá okkur.

Þrjár manneskjur sem veita þér innblástur?

  1. Lárus Helgi eiginmaður minn. Fyrir utan að vera fáránlega myndalegur, klár og skemmtilegur þá veitir hann mér innblástur á hverjum degi. Hann er mjög duglegur, drifinn og fylginn sér. Hann hvetur mig áfram á hverjum degi og ýtir mér á ystu nöf sem ég er þakklát fyrir. Það er dýrmætt að eiga maka sem hefur endalausa trú á því sem maður er að gera. Hann studdi mig alla leið í hugmyndinni að opna jógastúdíó og við eyddum öllu sumrinu í að byggja stúdíóið okkar og láta þennan draum rætast.
  2. Inga Hrönn Kristjánsdóttir “my partner in crime“ í Iceland Power Yoga gefur mér innblástur á hverjum einasta degi í vinnunni þar sem við eigum áhugaverð samtöl um jóga og bara lífið sjálft. Við höfum oft grínast með að við höfum gift okkur þegar að við ákváðum að opna stúdíó saman sem er eins og baby-ið okkar. Við erum mjög sterkt teymi og erum endalaust að læra af hvor annarri.
  3. Baron Baptiste jógakennari og metsölubókahöfundur frá Bandaríkjunum kom til Íslands og kenndi fyrsta tímann í jógastöðinni okkar í ágúst síðastliðnum. Hann er magnaður kennari. Það var mikill heiður að hitta hann og mjög súrrealískt eftir að hafa gert jógatíma og hugleiðsluæfingar með honum á netinu mánuðum saman og hafa lesið bækurnar hans og hitta hann svo í eigin persónu í stúdíóinu okkar á litla Íslandi. Hann er með mjög flotta sýn á lífið og er búin að hafa áhrif á fólk um allan heim. Hann skrifaði eiginhandaráritun fyrir mig í bók eftir hann sem ég hef alltaf í huga: “Maria! The Magic never ends!“

Sannleikurinn á bakvið velgengni?
Vinna við það sem þú hefur ástríðu fyrir og brennur fyrir. Vinna með fólki sem er á sömu línu og þú. Setja sér skýr markmið. Búa til vinnuáætlun og vinna hörðum höndum að því að ná markmiðinu. Síðast en ekki síst miðla allri reynslunni til annarra.

Hvað gerir slæman dag betri?
Uppbyggjandi samtal við góðan vin. Göngugtúr úti í náttúrunni. Jógaæfing og hugleiðsla gerir alla slæma daga miklu betri. En ef maður þarf bara að vera upp í sófa, borða ís og horfa á Gilmore girls, þá er það líka allt í lagi.

Hvernig hugar þú að andlegri heilsu?
Ég iðka Power Yoga helst á hverjum degi og hugleiði. Það er líka nærandi fyrir sálina að hitta góðar vinkonur og fara saman í lunch eða kaffi. Við hjónin erum líka dugleg að passa uppá okkur og eigum reglulega okkar date-night þar sem við förum þá t.d. saman í sund, út að borða, bíó eða leikhús.

Uppáhalds heilsuuppgötvun?
Yoga og aftur yoga. Ég fer líka mikið í sund og þá syndi ég skriðsund og fer svo í kalda pottinn og heita pottinn til skiptis. Uppáhalds dekrið mitt er að fara í gott nudd.

Ráð sem þú hefðir viljað gefa yngri sjálfri þér?
Ég vildi oft óska þess að ég hefði byrjað að æfa jóga og hugleiða fyrr, þá hefði lífið oft á tíðum verið auðveldara. Sér í lagi á unglingsárunum, menntaskólaárunum og háskólaárunum þá hefði verið magnað að hugleiða daglega til að minnka kvíðann og stressið sem fylgir því að vera í strembnu námi og bara að vera unglingur.

Besta ráð sem þér hefur verið gefið?
Að muna að hlúa að sjálfri mér áður en ég hlúi að öðrum.  Að segja nei þegar mig langar að segja nei til að setja mér mörk og setja það sem skiptir mig mestu máli í lífinu í forgang. Tíminn okkar er svo dýrmætur að það er mikilvægt að hafa skýran fókus hvernig maður vill eyða honum.

Hvað er það besta við að búa á Íslandi?
Eftir að hafa búið í samtals átta ár í útlöndum, Kaupmannahöfn, London og New York lærði ég að meta Ísland alveg uppá nýtt eftir að ég flutti heim árið 2012. Það besta eru sundlaugarnar, vatnið, fiskurinn, náttúran og tónlistin.

Hver er uppáhalds staðurinn þinn á landinu?
Bústaðurinn okkar í Útey við Laugarvatn er besti staðurinn til að hlaða batteríin.

Hvert er þitt framlag að bættum heimi?
Að æfa mig á hverjum degi að vera betri manneskja með jóga iðkun og hugleiðslu og taka það svo með inn í daglegt líf. Svo miðla ég því sem ég iðka til nemenda minna í jógatímum.

Hvar líður þér best?
Þegar ég er að kenna jóga þá líður mér eins og allt sé eins og það á að vera. Það sem veitir mér mesta ánægju í starfi mínu er að sjá nemendur mína vaxa og blómstra bæði á jógadýnunni og í lífinu. Fyrir utan vinnuna þá í faðmi eiginmanns míns.

Drauma ferðalag?
Yoga og surf ferð með eiginmanni mínum til Bali!

Uppáhalds árstíð?
Haustin. Elska haustbirtuna og rómantísku haustlitina.

Uppáhalds bók?
Þessa stundina er það “Perfectly Imperfect“ eftir Baron Baptiste.

Mantra/mottó?
Takk! Er uppáhaldsmantran mín. Ég fer yfir allt sem ég er þakklát fyrir bæði þegar ég vakna á morgnana og áður en ég fer að sofa á kvöldin. Þakklæti hefur ótrúlegan lækningarmátt. Þakklæti og jákvæðni getur tekið þig mjög langt í lífínu.

Mottó-ið mitt er að halda áfram að vaxa á hverjum degi og lifa lífinu til fulls í núinu. Lífið er núna!

Viltu gefa okkur eina uppáhalds uppskrift í lokin?

Græni djúsinn
– Tvö græn epli
– Ein gúrka
– Lúka spínat
– Hálft lime
– Engifer eftir smekk

Umsjón: Karítas Hvönn Baldursdóttir