Lifum betur – Ragnar Freyr

Lifum betur er fastur liður hér á síðunni okkar þar sem við spyrjum samferðafólk spjörunum úr og fáum innsýn í þeirra lífsvenjur. Með slíku samtali vonumst við til að fá hugmyndir og innblástur og ekki síður fyrirmyndir á okkar oft á tíðum hlykkjóttu vegferð – til þess að lifa betur. 

 

Ragnar Freyr Pálsson er sjálfstætt starfandi grafískur hönnuður og dósent við Listaháskóla Íslands. Ragnar Freyr gerðist vegan fyrir nokkrum árum og brennur fyrir þann málstað.
Árið 2014 stofnaði hann vefsíðuna Vegan Guide to Iceland, sem gaf upplýsingar um hvaða veitingastaðir á Íslandi biðu upp á vegan valkosti. Nú hefur þessi síða þróast yfir í appið Vegan Iceland og nýtur það mikilla vinsælda.
Ragnar heldur einnig úti hljóðvarpinu Góð ráð dýr, ásamt félaga sínum, þar sem fjallað er um veganisma á Íslandi.

Lýstu sjálfum þér í þremur orðum? Vongóður efasemdamaður. Skipulagður. Svartsýnn á köflum.

Morgunrútínan þín? Ég fer á fætur og vigta mig. Fæ mér vatnsglas. Hugleiði í 20 mínútur. Geri smá hreyfingu til að vekja líkamann. Bý til smoothie eða hafragraut.

Uppáhalds morgunverður? Daglega fæ ég mér annaðhvort smoothie eða vel útilátinn hafragraut með hnetusmjöri, berjum og allskonar gúmmelaði. En uppáhaldsmorgunverðurinn minn er örugglega pönnukökur.

Hvernig viltu kaffið þitt? Ég hef aldrei drukkið kaffi. Ég er hins vegar mikið fyrir te. Það er hægt að fá ótrúlega fjölbreytt og bragðgott te.

Matarspeki? Að forðast að valda þjáningu með því sem ég vel mér að borða. Að borða sem næst jörðinni, þ.e. óunnin matvæli á borð við grænmeti, ávexti, hnetur og fræ.

Hreyfingin þín? Ég er enn þá að reyna að finna mig í hreyfingunni. Geri yoga og líkamsþyngdaræfingar og fer út að hlaupa. Langar að sækja meira í klifur.

Ómissandi í eldhúsið? Góður blandari. Þolinmæði. Opið hjarta.

Þrennt matarkyns sem þú átt alltaf til? Ég á alltaf haframjöl í hafragrauta og smoothie, epli til að narta í og döðlur í allt mögulegt.

Hvaða verkefni eru á döfinni hjá þér? Ég er að kenna grafíska hönnun við Listaháskólann um þessar mundir. Ásamt því er ég sjálfstætt starfandi hönnuður og vinn ýmis verkefni fyrir mína viðskiptavini. Svo held ég áfram að vinna í vegantengdum verkefnum eins og hlaðvarpinu okkar Góð ráð dýr og Vegan Iceland appinu.

Þrjár manneskjur sem veita þér innblástur? Það er mjög breytilegt eftir hvar ég sjálfur er staddur í lífinu. Akkúrat núna eru það Thich Nhat Hanh en ég sæki mikið í visku hans um lífið og einfaldleikann. Svo er það Tony Riddle sem fjallar um náttúrulega hreyfingu, líkamsgetu og möguleika mannsskepnunnar. Að síðustu er það Adriene Mishler en ég er að gera yoga núna með henni á Youtube og er innblásinn af léttleika hennar og gleði.

Sannleikurinn á bak við velgengni? Að skilgreina hvað velgengni þýðir í þínu lífi og fara eftir því.

Hvað gerir slæman dag betri? Að stoppa og gefa sér tíma til að anda og fara inn á við. Vera í hópi góðra vina eða fjölskyldu.

Hvernig hugar þú að andlegri heilsu? Ég hugleiði á hverjum degi og finnst það vera stór hornsteinn í daglegu rútínunni minni. Ég minni mig á að líkamleg heilsa er andleg heilsa og öfugt. Ég reyni að segja „nei“ við verkefnum sem vekja ekki áhuga minn. Ég reyni að elta ánægju frekar en peninga.

Uppáhalds heilsuuppgötvun? Að gerast vegan og borða heilfæði. Ekkert annað sem ég hef gert kemst nálægt þeim jákvæðu heilsufarslegu áhrifum sem það hafði að hætta neyslu dýraafurða.

Ráð sem þú hefðir vilja gefa yngri sjálfum þér? Að hætta fyrr að drekka áfengi.

Besta ráð sem þér hefur verið gefið? Mér var gefið það ráð að byrja að hugleiða. Sú gjöf heldur áfram að gefa.

Hvað er það besta við að búa á Íslandi? Vatnið. Þá aðallega drykkjarvatnið beint úr krana. Við þurfum að standa vörð um hreinleika vatnsins okkar og láta engin peningaöfl eða hagsmuni koma í veg fyrir það.

Hver er uppáhalds staðurinn þinn á landinu? Ég nýt þess að verja tímanum mínum á sumrin í Vík í Mýrdal en staðirnir eru of margir og fjölbreyttir til að velja sér uppáhalds. Svo undarlegt sem það er, þá fer það einhvern veginn meira eftir veðri en staðsetningu.

Hvert er þitt framlag að bættum heimi? Ég reyni að stunda gjörhygli og sýna umhyggju gagnvart öllum sem verða á vegi mínum. Ég reyni að valda ekki þjáningu eða skaða með neyslu minni og ég vinn ötullega í því að hvetja aðra til að breyta eins.

Hvar líður þér best? Mér líður best þegar ég næ að vera 100 prósent á staðnum. Sá staður er sennilega í stofunni heima hjá mér, í sófanum, að verja kvöldinu með konunni minni.

Draumaferðalag? Mig langar mjög mikið að sjá Mont Saint Michel í Frakklandi. Einnig hefur lengi verið draumur að heimsækja Machu Picchu í Perú. Að síðustu hefði ég ekkert á móti að ganga um Isle of Skye í Skotlandi að sumri til.

Uppáhaldsárstíð? Hásumar á Íslandi. Samt er eitthvað við vonina sem er bundin í vorinu.

Uppáhalds bók? Það er erfitt að velja. Untethered Soul eftir Michael A. Singer talaði mjög sterkt til mín á síðasta ári. Discworld bækurnar eftir Terry Pratchett eru í miklu uppáhaldi og eru einu hlutirnir sem ég safna. Ég er að renna núna í gegn um og er límdur við My Struggle bækurnar eftir Karl Ove Knausgaard. En ef ég ætti að velja eina væri það sennilega Jonathan Strange & Mr Norrell eftir Susanna Clarke.

Mantra/mottó? Ég nota mikið „Vertu hérna núna!“ í huganum þegar ég finn að ég er sveimhuga eða ekki 100% á staðnum andlega eða líkamlega. Sérstaklega í samtölum þar sem ég á oft til að hætta að hlusta og fara eitthvað langt fram í tímann. Tek þá andardrátt, finn fyrir honum og legg á hlustir.

Uppáhaldsuppskriftin

Hafragrautur extra

1 banani
4 döðlur
Hnetusmjör
Haframjöl
Hörfræ
Kanill
Fersk eða frosin ber
Vatn

Setjið banana, döðlur og slatta af hnetusmjöri í blandara með vatni. Blandið í þunna sósu. Sjóðið síðan haframjölið upp úr blöndunni. Bætið við smá kanil og muldum hörfræjum. Setjið í skál og bætið við ferskum eða frosnum berjum. Bláber, hindber og jarðarber eru best. Svo má setja hnetusmjör á toppinn.

 

 

 

1 athugasemd

Lokað er fyrir athugasemdir