Lifum betur – Þyrí Huld

Lifum betur er fastur liður hér á síðunni okkar þar sem við spyrjum samferðafólk spjörunum úr og fáum innsýn í þeirra lífsvenjur. Með slíku samtali vonumst við til að fá hugmyndir og innblástur og ekki síður fyrirmyndir á okkar oft á tíðum hlykkjóttu vegferð – til þess að lifa betur.

Þyrí Huld Árnadóttir er dansari sem leggur ríka áherslu á heilnæman lífstíl. Fyrir nokkrum árum síðan kynntist Þyrí lifandi fæði sem hafði mikil áhrif á líf hennar. Nýverið opnaði hún heimasíðuna Green Thyri þar sem hún deilir með einlægum hætti bæði fróðleik og uppskriftum og veitir fleirum innblástur á leið sinni að heilbrigðari lífstíl.

Lýstu sjálfri þér í þremur orðum?
Ég er skapandi, vinnusöm og samviskusöm

Morgunrútínan þín?
Ég vakna um 06:00. 1.Skafa tunguna með tungusköfu, á nóttunni safnast saman bakteríur sem gott er að skafa í burtu hjálpar við viðhald á tönnum og andremmu. 2. Ég þurrbursta á mér allan líkaman, hjálpar til við að koma blóðflæðinu af stað og gerir húðina svo mjúka 3. Skelli mér svo í örstutta sturtu og skvetti vatni á augun og skola í burtu dauðu húðfrumurnar eftir þurrbustunina. 4.Nudda andlitið með hreinsiolíunni minni og spreyja svo góðum tóner yfir. 5.Fæ mér stórt glas af vatni með sítrónu eða lime set stundum smá engifer líka. 6.Sest á mitt stofugólfið og geri nokkrar öndunaræfingar og segi nokkur falleg orð við sjálfan mig til að taka með inn í daginn. 7.Þá er komið af hveitigras skoti og hjólað í vinnunna.

Uppáhalds morgunverður?
Kaldur hafragrautur með hindberjum, granóla, kókosjógúrt og heslihnetu karamellu.

Hvernig viltu kaffið þitt?
Ég get ekki drukkið kaffi. Ég hef gert nokkrar tilraunir sem enduðu með örum hjartslætti og svima. En í staðin fæ ég mér túrmerik latte með möndlumjólk og stundum smá kókosolíu

Mynd: Saga Sig

Matarspeki?
Þú ert það sem þú borðar.

Hreyfingin þín?
Ég vinn sem dansari hjá Íslenska dansflokknum, hreyfing er því mjög stór partur af mínu lífi. Með dansinum stunda ég pilates hjá Auði í Borgartúninu. Ég elska pilates það hefur hjálpað mér svo mikið með rétta líkamsbeitingu. Venjulegur dagur hjá mér er að ég hjóla í vinnuna þar tekur við upphitun með dansflokknum sem er oft ballettími eða movement tími. Síðan vinn ég til 15:40 þar sem ég er að dansa og skapa dans og hjóla loks heim.

Ómissandi í eldhúsið?
Fyrir utan fullt af fersku grænmeti og ávöxtum er það Vitamixinn minn. Hann er mér mjög kær og ég nota hann oft á dag.

Þrennt matarkyns sem þú átt alltaf til?
Kínóa, epli og avókadó

Hvaða verkefni eru á döfinni hjá þér?
Ég er að byrja að sýna aftur Óður og Flexa rafmagnað ævintýri, það er mjög hresst og skemmtilegt barna ofurhetju dansverk sýnt í Borgarleikhúsinu með Íslenska dansflokknum. Ég er einnig að æfa nýtt verk sem verður frumsýnt í nóvember eftir Steinunni Ketilsdóttur mjög spennandi og skemmtilegt. Fullt í gangi hjá Íslenska dansflokknum í vetur.

Þrjár manneskjur sem veita þér innblástur?
Ég þekki svo mikið af frábæru fólki sem hefur veitt mér svo mikinn innblástur í gegnum lífið en allar konur sem hafa í gegnum tíðina barist fyrir réttindum kvenna eru mínar fyrirmyndir. Án þeirra stæðum við ekki þar sem við erum í dag.

Sannleikurinn á bakvið velgengni?
Láta drauma sína rætast. Ganga í verkin þó aðrir segi að það sé ekki hægt þá er alltaf allt hægt. Og auðvita það mikilvægasta að trúa á sjálfan sig.

Hvað gerir slæman dag betri?
Gott faðmlag frá kærastanum mínum

Hvernig hugar þú að andlegri heilsu?
Ég hreyfi mig, borða hollan og næringar ríkan mat og geri öndunaræfingar. Tek tíma á daginn þar sem ég lít inná við og man eftir andadrættinum.

Uppáhalds heilsuuppgötvun?
Að hlusta á líkamann, hann segir manni allt. Það breytti líka lífi mínu að kynnast fræðum Ann Wigmore um lifandi fæði. Sem hefur hjálpað mér í gegnum erfið meiðsli og maga vesen. Ótrúlegt hvað matur getur haft læknandi áhrif á líkama og sál.

Ráð sem þú hefðir vilja gefa yngri sjálfri þér?
Að vera í góðu formi snýst ekki um það að fara í ræktina tvisvar á dag og keyra sig í botn. Vera alltaf í ströngu matarprógrami að banna sér hitt og þetta. Heldur að vera í góðu sambandi við líkaman hvíla hann þegar hann er þreyttur og borða hollan og næringarríkan mat sem hjálpar líkamanum að vera í fullkomnu jafnvægi.

Besta ráð sem þér hefur verið gefið?
Slaka á og hlusta á líkamann

Hvað er það besta við að búa á Íslandi?
Sveitin! Að komast í óspillta nátúruna fara í göngur og njóta þess að anda að sér fersku fjallalofti.

Hver er uppáhalds staðurinn þinn á landinu?
Litla risíbúðin mín

Hvert er þitt framlag að bættum heimi?
Ég á ekki bíl og ferðast mest allt á hjóli, ég er vegan og reyni hvað ég get að komast hjá því að nota plast. Ég opnaði instagramið mitt í sumar þar sem ég deili uppskriftum af plöntumat. Ég opnaði líka heimasíðu greenthyri.com þar sem ég er að deila mínum pælingum um heilbrigðan lífstíl og vona að ég geti hjálpað þeim sem vilja kynnast þessum fræðum frekar.

Hvar líður þér best?
Mér líður best þegar ég dansa frá hjartanu og gleymi öllu nema líðandi stundu.

Drauma ferðalag?
Mánaðar ferðalag um Japan með kærastanum mínum.

Uppáhalds árstíð?
Ég er mjög mikið fyrir haust og vor. Ég elska að fylgjast með hvernig náttúran breytir um liti og eitthvað nýtt er að fara í gang.

Uppáhalds bók?
Uppáhalds bækurnar mínar eru matreiðslubækur ég get endalaust skoðað þær og fengið hugmyndir af uppskriftum útfrá öðrum uppskriftum. Sú sem er í mestu uppáhaldi hjá mér er The Moon Juice cookbook eftir Amanda Chantal Bacon. Ótrúlega fallegar myndir og frábærar uppskriftir.

Mantra/mottó?
Það gerist það sem á að gerst í lífinu.

Viltu gefa okkur eina uppáhalds uppskrift í lokin

Banana hindberja ís með granóla og heslihnetu karamellu

Ís

  • 1 frosinn banani
  • 1 bolli frosin hindber
  • 1 msk maca duft
  • Smá splass af kókosmjólk
  • 1 tsk vanilla
    Allt sett í blandara eða matvinnsluvél þar til mjúkt

Karamella

  • 1 msk herslihnetusmjör
  • 1/2 msk döðlusíróp
    Hrært saman

 Granóla

  • 1 bolli graskersfræ
  • 1 bolli sólblómafræ
  • Bókhveiti (lagt í bleyti í 30 mín og spírað í sólahring)
  • 1 bolli frosin hindber
  • 6 döðlur
  • 1 msk kanill
  • 1 msk möndlusmjör

Ég set graskersfræin og sólblómafræin í bleyti og læt þau spíra en það er ekki nauðsynlegt. Hrærið öllum innihaldsefnunum saman í skál – mér finnst best að nota hendurnar. Dreifið blöndunni á bökunarpappír, stillið ofninn á 47 gráður og blástur. Ég læt ofninn ganga yfir nótt. Ef þið eigið þurrkofn notið hann. Líka hægt að stilla ofninn á 150 gráður og baka í 15 mínútur en þá er granólað ekki hráfæði.

Umsjón: Karítas Hvönn Baldursdóttir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.