Mannspekilækningar – Það besta úr báðum heimum

Flestir kannast við hugtökin óhefðbundnar lækningar andspænis hefðbundnum lækningum og þá aðskilnaðarstefnu sem ríkir í heilbrigðiskerfinu. En af hverju vinna þessir tveir heimar ekki meira saman? Í tæplega hundrað ár hafa antrópósófískar lækningar, eða mannspekilækningar, sameinað þetta tvennt með góðum árangri og eru stundaðar í yfir áttatíu löndum um allan heim. Í Þýskalandi, Sviss og Svíþjóð eru t.d. mannspekisjúkrahús orðin sjálfsagður valkostur í heilbrigðiskerfinu. En af hverju ekki á Íslandi?  — GREININ ER ÚR NÝJA VORBLAÐI Í BOÐI NÁTTÚRUNNAR

Mannspekilækningar eiga sér langa sögu og voru þróuð í Þýskalandi af lækni að nafni Ita Wegman og Rudolf Steiner í Sviss. Þeim fannst mikilvægt að mannspekilæknir hefði alltaf yfir að ráða nýjustu þekkingu í læknavísindum og að auki innsýn í andlegu vísindin og þannig er því háttað enn þann dag í dag. Þess vegna verða allir mannspekilæknar fyrst að ljúka hefðbundnu læknisnámi áður en þeir bæta við sig mannspekiþættinum. Þetta er hugsað sem heildrænt lækningakerfi þar sem læknar, hjúkrunarfræðingar og meðferðaraðilar (þerapistar) vinna saman að því að styrkja einstaklinginn í átt að betri heilsu. Meðferðin er einstaklingsmiðuð og hjálpar hverjum og einum að skilja það sem hann er að takast á við heilsufarslega og líta á það sem hluta af þroskaferli sínu, og þar af leiðandi styrkja hann í að taka þátt í uppbyggingu og ábyrgð á eigin heilsu.

Mannspekilæknar horfa á fólk út frá fjórum þáttum: líkamanum sjálfum, lífsorkunni, andlegri heilsu og einstaklingseðlinu. Þetta er skoðað sem ein heild þar sem hver þáttur hefur áhrif á annan.

DSC_0107

MANNSPEKILÆKNINGAR Á ÍSLANDI

Hér á landi eru nú starfandi um fimmtán mannspekimenntaðir þerapistar, einn hjúkrunarfræðingur en enginn læknir. Þessir aðilar starfa á ýmsum stöðum, t.d. á einkastofum, í Waldorf-skólunum og á Heilsuvikunni sem haldin er árlega, en hún verður haldin í þriðja sinn í sumar. Þar gefst íslenskum almenningi og áhugafólki um mannspeki einstakt tækifæri til að kynnast og njóta þess sem mannspekilækningar bjóða upp á. Heilsuvikan verður haldin á Sólheimum í ár, frá 10. til 16. júlí. Með þessu er verið að skapa vettvang fyrir þerapistana hér heima til að vinna saman sem heildrænt teymi með mannspekilækni, líkt og gert er á mannspekisjúkrahúsum. Þetta framtak hefur vakið athygli þerapista erlendis enda á það sér enga fyrirmynd.

Það eru allir velkomnir á slíka helgi og er hún bæði hugsuð fyrir erlenda gesti og innlenda sem vilja styrkja andlega og líkamlega heilsu sína. Elsti gesturinn á fyrstu vikunni var til að mynda níræður ástralskur vínbóndi sem vissi ekkert hvað hann var að fara út í og alls ekki vanur að láta dekra við sig, en það var á endanum það sem stóð upp úr hjá honum. Einnig er algengt að fólk komi til að byggja sig upp eftir veikindi eða til að rækta andann og svala listrænni þörf. Á staðnum verður mannspekimenntaður læknir, dr. Jan Mergelsberg frá Þýskalandi, og hann mun vinna með íslensku þerapistunum og ráðleggja fólki þá meðferð sem hentar því best þar sem það er statt í lífinu.

SONY DSC
SONY DSC

ER HÆGT AÐ DANSA OG MÁLA SIG TIL HEILSU?

Meðferðirnar eru ekki hefðbundnar og vinna ekki samkvæmt fyrir fram ákveðnum hugmyndum um t.d. einn sjúkdóm, heldur taka alltaf mið af einstaklingnum sem heild og hvar hann er staddur á sinni lífsleið. Þær þerapíur sem boðið er upp á í mannskpekilækningum, og þar með á þessari Heilsuviku, geta verið mjög áhugaverður kostur fyrir þá sem vilja leita sér óhefðbundins stuðnings til að kljást við ýmis heilsuvandamál. Í boði er listmeðferð, hrynlistarmeðferð(dans), tónlistarmeðferð, kírófónetík (handa- og hljóðanudd) og ýmsar hjúkrunarmeðferðir eins og t.d. bakstrar, rytmískt nudd og fleira.

Það hljómar kannksi undarlega að dansinn geti læknað en í hrynlistinni er unnið með hreyfingar sem virkja ákveðin ferli í líkamanum og geta komið hlutum á hreyfingu í takt við það sem viðkomandi er að fást við hverju sinni. Þessi aðferð er afar styrkjandi fyrir líkamann og virkar mjög djúpt.

Myndlistin snýst aftur á móti um að vera í flæðinu, eða núinu, og virkar vel á sálina og andlega þáttinn. Þar er unnið mikið með skynfærin og að opna fyrir sköpunarkraftinn. Þessi meðferð hjálpar oft fólki að komast yfir hindranir og mörk sem það hefur sett sér og á sérstsaklega við um tilfinningar.

Á vefsíðu Heilsuvikunnar, healthweeks.is., má lesa sér nánar til um heildræna nálgun mannspekilækninga og dagskrá vikunnar.