Ég er dálítið hrifin af Meistaramánuðinum og finnst þetta skemmtilegt framtak. Það er gott að nýta þennan mánuð til að leggja ekki einungis áherslu á hreysti og mataræði heldur einnig innihaldsríkara líf og að rækta hluti sem maður hefur gleymt eða er latur að sinna.
Það þarf þó að velja markmiðin vel og ekki ætla sér of mikið. Ef markmið í meistaramánuði nást þá eru flestir tilbúnir til að halda áfram á beinu brautinni og líklegri til að setja sér reglulega markmið allt árið. Meistaramánuðurinn gæti þó verið öflugasti mánuðurinn og meira “keppnis”. Október er jú ekkert gríðarlega spennandi mánuður, sumarið búið, ennþá langt til jóla og haustlægðirnar koma í röðum með slagveður. Því ekki nýta hann til þess að prófa nýja hluti og stíga aðeins út fyrir þægindarammann!
En að vera meistari snýst fyrst og fremst um temja sér varanlegar venjur en það getur tekið tíma að þróa þær og festa í sessi.
Það er held ég ómögulegt að temja sér marga nýja siði á einum mánuði. Það myndi enda eins og mörg fjögurra vikna átaksnámskeið. Alls ekki líta á þetta sem átak heldur gott tækifæri til að byggja upp nýjar og góðar venjur sem gera líf þitt betra til frambúðar. Vilji eða áhuga þarf vissulega að vera til staðar svo að þetta sé raunhæft. Það er óraunhæft að ákveða að hætta að borða eitthvað sem þér finnst virkilega gott þó það sé ekki það hollasta. Löngunin í eitthvað ákveðið eykst oft enn frekar þegar það er komið á bannlista. Hvernig væri að endurskoða neysluvenjur þínar með það að markmiði að borða þetta ákveðna sjaldnar í hóflegu magni og njóta þess betur í leiðinni.
Til að setja sér nýtt markmið í mataræðinu, t.d. borða þrjá ávexti á dag, þarf einnig að skipuleggja framkvæmdina. Það þarf að bæta fleiri ávöxtum í innkaupakörfuna og ákveða hvenær skal borða þá: Einn ávöxtur með morgunmatnum, einn í kaffipásunni í vinnunni og einn eftir kvöldmat. Næst þarf að passa að hafa aðgang að þeim þegar þú ætlar þér að borða þá. Að lokum þarftu að minna þig á að borða þá á ákveðnum tímum – t.d. stilla það í símann. Eftir nokkrar vikur ætti viðkomandi að finnast algjörlega sjálfsagt mál að grípa ávexti á þessum tímum eða öðrum (t.d. í staðinn fyrir óhollustu) og þarf ekki að láta minna sig á það.
Markmiðin mín í meistaramánuði verða eitthvað á þennan veg:
- Draga úr notkun á sætuefnum, sjá hversu auðvelt/erfitt það verður
- Keppa í hálfmaraþoni 25. október. Það er góður hvati til að vera meistari í æfingum og mataræði næstu vikurnar.
- Skrifa nokkrum sinnum á bloggið
- Selja föt, skó og dót sem ég er hætt að nota í Kolaportinu
——
Ef ég næ þessu öllu þá verð ég 100% sáttur meistari!
Gangi ykkur vel og setjið ykkur raunhæf markmið en ekki of mörg!
Ef þig vantar skynsamleg ráð varðandi mataræðið getur þú pantað tíma hjá mér: elisabet@betanaering.is