Í dag er loksins sólardagur og því tilvalið að byrja á skipulagi fyrir vorið ef þú hefur hugsað þér að rækta matjurtir. Sumt þarf að forrækta því ekki seinna vænna að koma sér inn í hvað þarf fyrir hvaða plöntur. Þetta er tilvalið dundur á meðan beðið er eftir vorinu og gefur manni smá auka sól í hjartað.
- Það fyrsta er að skrifa óskalista yfir allt það sem mann langar til að rækta. Muna að taka eitthvað nýtt með á listann hvert ár,sem ekki hefur verið prufað áður.
- Skissa svo upp ræktunarsvæðið sem þú ætlar að nota. Það er hægt að hafa teikninguna í réttum stærðarhlutföllum ef þú hefur mælt allt nákvæmlega upp en er ekki nauðsynleg. Ef þú að ert fara af stað með þinn fyrsta matjurtagarð þá skaltu hafa í huga að hann þarf að vera á sólríkum stað. Það þarf að hafa stíga inni á teikninguna líka. Sumir matjurtagarðar eru skipulagðir þannig að þeir eru bara einu sinni stungnir upp og síðan ekki meir. Þá er líka passað upp á að stíga aldrei fæti inni í beðið. Þetta hefur þau áhrif að moldin er mjög laus í sér, sem í mörgum tilfellum gefur meiri uppskeru, sérstaklega af rótargrænmeti, þar sem þrengir ekkert að því.
- Svo þarf að skoða hversu mikið pláss hvert grænmeti þarf að hafa að lágmarki. Það stendur oft utan á fræpakkanum. Sömu upplýsingar er hægt að finna í bókum og á netinu. Það er líka til hellingur af ókeypis forritum og öppum á netinu sem hægt er að nota. Skissu- eða stílabók og litir bregðast hins vegar aldei og er mjög notaleg aðferð við þetta plan/teikningu.
- Kaupa fræ. Hvort sem er á netinu eða í búð. Hafa þarf í huga að fræ geymast ekki að eilífu. Spírunarhæfni þeirra dalar talsvert eða hverju árinu sem líður. Þetta er þó mjög mismunandi eftir tegundum. Þannig að þú skalt ekki reikna með því að geta bara geymt restina af fræjunum sem þú notar ekki, til næsta árs. Það er happdrætti hvort það virkar. Aftan á mörgum fræpokum stendur oft spírunarprósentan á viðkomandi fræi. Hún er oft 75-85%. Það eru ekki öll fræ lífvænleg.
- Endurmeta þarf hvort allar tegundirnar á listanum komist fyrir miðað við plássið í garðinum og kannski með fyrri reynslu af ræktun í huga, eða það sem maður hefur lesið á netinu og í bókum. Plássið þarf líka að endurmeta ef notaðar eru forræktaðar plöntur eða þær keyptar stórar.
- Setja sig inn í hvernig hver tegund fyrir sig er sáð, í dýpt og hvenær. Einnig hver ræktunarskilyrðin eru. Sumar plöntur þurfa mikla sól, skjól eða lágmarkshitastig. Oft er hægt að nota þá þumalputtareglu, að því stærra sem fræið er, þeim mun lengra niður í jörðina á það að fara. Oft hættir okkur til að sá of djúpt. Það sem fræ þurfa á að halda til að spíra er vatn, hiti og ljós. Ef ljósið er of langt í burtu þá geta þau drepist.
- Svo er bara að byrja þegar vorið kemur og hitastigið hækkar. Taka skissuna fram og sá eins og þú eigir lífið að leysa. Þó að það hafi verið gert plan má alveg merkja sáðraðirnar. Það er gaman að gera það með fallegum handgerðum skiltum. Gæti líka hjálpað ef teikningin hefur ekki verið mjög nákvæm.
Það er svo áhugavert að geyma teikninguna til næsta árs og þannig læra af ræktunarreynslunni. Það kemur sér líka að góðum notum ef maður stundar skiptiræktun svo að plöntusjúkdómar safnist ekki fyrir í matjurtagarðinum.