Planta vikunnar: PENINGAPLANTA

Kínverska peningaplantan kom til Vesturlanda sem lítill afleggjari um miðja síðustu öld en er á stuttum tíma orðin ein vinsælasta pottaplanta heims. Hún er á góðri leið með að ná öðrum tískuplöntum á Instagram, sem eru rifblaðkan og orkídean.

Rúmlega 85 þúsund myndir eru merktar myllumerkinu #pileapeperomioides, sem er alþjóðlegt heiti plöntunnar, og aðrar 35 þúsund myndir eru merktar #moneyplant.

Peningaplantan á þó langt í land að ná rifblöðkunni en á Instagram eru tæplega 530 þúsund myndir merktar myllumerkinu #monstera og orkídean er með hvorki meira né minna en 2,7 milljónir mynda merktar #orchid.

ÓLJÓS UPPRUNI
Saga kínversku peningaplöntunnar er nokkuð sérstök, og hefur því verið haldið fram að fáar plöntur hafi reynst fræðimönnum eins mikil ráðgáta. Þrátt fyrir að uppruni plöntunnar og heiti hafi ekki verið staðfest fyrr en í kringum 1985, hafði henni verið dreift af áhugafólki um plöntur frá árinu 1950, sem gáfu afleggjara til vina og ættingja eða seldu á mörkuðum. Áður en plantan var formlega skilgreind hafði hún komið reglulega inn á borð breskra grasafræðinga, sem gátu lítið sem ekkert sagt um uppruna hennar eða nafn. Árið 1978 komust þeir hins vegar á snoðir um að plantan væri mögulega sú sama og fannst í safni skoska grasafræðingsins George Forrest. Hann hafði dvalist mikið í Kína í upphafi 20. aldar og safnað þar sýnishornum af plöntum. Upp úr því fór ráðgátan að skýrast en enn hafði því ekki verið svarað hvernig kínverska peningaplantan hafði komist lifandi frá Kína til Vesturlanda.

Birt var teikning af plöntunni í dagblaðinu Sunday Telegraph, í ársbyrjun 1983, og leiddi það grasafræðingana til breskra hjóna, sem voru með plöntuna á heimili sínu og höfðu fengið hana sem afleggjara frá vinafólki í Noregi.

Ákveðið var að sýna norrænum grasafræðingum plöntuna, og í kjölfarið áttaði sænski grasafræðingurinn Lars Kers sig á því að hann ætti svona plöntu heima hjá sér. Hana hafði hann fengið í gjöf frá ættingja en hafði engar frekari upplýsingar um plöntuna. Kers ákvað að kynna hana í sænska sjónvarpinu og fékk 10.000 bréf, sem sýnir gríðarlegar vinsældir kínversku peningaplöntunnar í Svíþjóð á þeim tíma. Í kjölfarið kom í ljós að það var norski kristniboðinn, Agnar Espegren, sem hafði komið með kínversku peningaplöntuna til Noregs árið 1946. Talið er að hann hafi keypti afleggjara af plöntunni á markaði í Yunnan-héraði í Kína, og tekið hana með sér þaðan. Plantan lifði af rúmlega ársferðalag til Noregs með viðkomu á Indlandi, sem gefur til kynna hversu harðgerð hún er. Næstu ár ferðaðist Espegren víða um Noreg og átti það til að gefa afleggjara af plöntunni til vina. Á þann hátt dreifðist hún um landið og í framhaldi um nágrannalöndin.

Plantan er ein mest selda pottaplantan á Íslandi í dag, að sögn starfsmanna blómabúða. Það er með ólíkindum hvað einn lítill afleggjari frá Kína hefur náð mikilli útbreiðslu á um rúmum sjötíu árum.

UMHIRÐA
Kínverska peningaplantan er ekki aðeins falleg, vinsæl og með áhugaverða sögu heldur er líka auðvelt að halda henni á lífi. Mælt er með því að leyfa moldinni að þorna alveg á milli vökvunar og hafa plöntuna í potti með götum á botninum, svo ræturnar blotni ekki of mikið. Plantan þolir ekki of mikla og beina birtu, sem getur haft slæm áhrif á laufin. Þá er mælt með því að snúa plöntunni af og til, svo hún fái jafnt sólarljós á sig alla. Síðan má geta þess að hún vex hratt og það er auðvelt að taka afleggjara. Ekki er verra að hún er sögð færa lukku, annaðhvort í peningamálum eða vináttu. Þú ræður!

FLEIRI AUÐVELDAR PLÖNTUR
Við erum ekki öll með græna fingur og miserfitt getur reynst fyrir fólk að halda blessuðum plöntunum á lífi. Aðrar plöntur sem eru auðveldar í umhirðu er t.d. aloe vera, gúmmítré, orkídea og veðhlauparinn.