Planta vikunnar: Regnhlífatré

Regnhlífatré er hitabeltisplanta,  upprunið frá Ástralíu. Það á þó ekki að vera erfitt að rækta það hér á landi svo framarlega sem því er veitt sæmileg birta, hlýja og raki. Regnhlífatré er góð planta til að auka rakamagn í loftinu, sem veitir oft ekki af. Hún fer vel heimavið og á skrifstofum og þrífst ágætlega í gervibirtu og á hæfilega björtum stöðum. Latneska nafn plöntunnar er Schefflera, en þetta er sígræn planta með glansandi dökkgrænum laufum. Regnhlífatréð vex vel í heitu loftslagi og getur náð að vera hálfur metri á hæð, en það eru einnig til dvergaútgáfur af þessari plöntu sem verða ekki svo stórar.

GÓÐ RÁÐ TIL AÐ HALDA REGNHLÍFATRÉ Í TOPPFORMI:

  1. POTTUN: Umpottaðu árlega. Ef þú vilt hægja á vextinum frestaðu þá umpottun um nokkrar vikur eða mánuði. Plantan þrífst best í næringarmikilli og lausri mold.
  2. BIRTUSKILYRÐI: Þessi planta elskar birtu, en best fyrir hana er óbein birta, þ.e. að sólin skíni ekki á hana. Á sumrin er mögulegt að geyma regnhlífatré úti ef það fær skugga og það er ágætlega heitt úti (ókey, kannski ekki á Íslandi, en ef þú býrð í heitara loftslagi, þá er þetta tilvalið).
  3. VÖKVUN: Schefflera kann að meta raka mold. Vökvaðu tréð vikulega á vorin og sumrin og spreyjaðu það einnig reglulega. Minnkaðu vökvun á veturna. Varastu þó að ofvökva tréð. Plantan þolir mikinn raka en vex þó ekki vel í mjög blautum jarðveg. Svo að það er betra að vökva aðeins of lítið en of mikið.
  4. ÁBURÐUR: Það má bera mikinn áburð á þessa plöntu reglulega ef aukinn vöxtur óskast. Best er að nota áburð í fljótandi formi tvisvar í viku á sumrin. Það má minnka það í tvisvar í mánuði á veturna.
  5. HITASTIG: Plantan þrífst best í rökum hita, forðast skal dragsúg og að hitastigið fari neðar en 15 gráður á celsíus, þá fer plantan að þjást. Lítið vökvuð og köld regnhlífaplanta missir lauf sín auðveldlega. Ef það gerist, taktu það alvarlega og athugaðu hvort það er vökvunin, birtan eða hitastig sem er ábótavant. Ef hún missir all laufin, settu hana þá í mikla birtu, vökvaðu og spreyjaðu og hafðu hana í ágætum hita.
  6. SNYRTING: Gott er að snyrta regnhlífaplöntu svo að hún vaxi þéttar og líti betur út. Það er gert í örfáum einföldum skrefum. Plantan getur orðið aðeins of stór og þarf því reglulega snyrtingu. Sjá hér.