Í mínu jógíska lífi hef ég kosið að taka eftir þegar ég sé upplýsingar um stöðu himintungla og reyna að lifa mínu daglega lífi án þess að sveiflast of mikið með áhrifum þeirra. Ennfremur sýni ég mér sanngirni þegar mér líður ekki eins og venjulega vitandi að upplýsingar um afstöðu himintungla hafa hjálpað jógum að ná betri tökum á tilverunni í árhundruðir.
Til eru ótal jógaæfingar, hugleiðslur og öndunaræfingar sem hjálpa okkur að vera í jafnvægi og í lok þessa pistils ætla ég að deila einu jógísku ráði í því sambandi.
Við erum í sífellu að upplifa orkuleg áhrif frá öðrum hnöttum, t.d. frá sólinni. Þegar gýs á sólinni streyma hlaðnar jónir til okkar sem sólvindar eða sólstormar. Það tekur frá nokkrum klukkustundum upp í 2 daga að finna fyrir góðu sólgosi hér á jörðinni.
Sólvindar eru til dæmis stór ástæða fyrir fjölda ferðamanna hérlendis. Án sólvinda væru enginn norðurljós en þegar mikil hleðsla er í segulsviði jarðar þá eigum við til að upplifa breytta líðan.
Þegar risavaxin sólgos verða er flugumferð stundum beint nær miðbaugi til að forðast þetta rafmagn í hjúpi jarðar. Áætlað er að flugfélögin spari sér hundruðir þúsunda upp í milljónir með því að fylgjast með geimveðurspánni því það kostar töluvert að beina flugi framhjá pólunum sem er komið í loftið. Sólvindar geta líka haft áhrif á virkni gps tækja, truflað HF (high frequency) útvarpsbylgjur og dreifikerfi rafmagns. Vitandi þetta skil ég betur hvernig mitt orkukerfi bregst við svona “geimveðri”.
Eitt sinn las ég um andlegan kennari sem minntist á tíðar óeirðir í Mið Austurlöndum í sambandi við áhrif himintungla. Hann sagði að þetta svæði jarðar væri undir beinum orkulegum áhrifum frá plánetunni Mars. Orkan frá Mars er meðal annars sögð tengjast erfiðleikum og að varpa sökinni á einhvern annan.
Margt áhugafólk um stjörnuspeki hefur líklega heyrt um tímabil þar sem Merkúr sýnist hreyfast aftur á bak á himni (retrograde). Það gerist nokkrum sinnum á ári og varir í um 3 vikur. Slíkt tímabil hófst einmitt í gær.
Jógar tengja þetta tímabil við tímabundna áskorun í sambandi við næmni í samskiptum og tengslum við aðra. Hugsum sem svo; löngu áður en við opnum munninn og segjum eitthvað hefur segulsvið okkar tengst segulsviði hinnar manneskjunnar. Ef það eru ríkjandi áhrif eða tog frá einhverri plánetu á þeim tíma verður tengingin ekki eins og venjulega. Þar af leiðandi höfum við tilhneigingu til að vera ekki eins og við erum venjulega.
Jógameistarinn Yogi Bhajan talaði einu sinni um hin árlegu þrjú tímabil þar sem Merkúr er í afturvirkni. Hann sagði að ef þau væri ekki til staðar myndi fólk fara yfir um vegna stígandi orku í samskiptum og tengslum, Hann sagði að við þyrftum á þessari pásu að halda til að hægja orkulega á í þessu sambandi.
Á tímabilinu telja jógar að við þurfum að hafa meira fyrir eðlilegum samskiptum og tengslum. Þá er jógaiðkendum ráðlagt að nýta tímann til að fara inn á við og velja verkefni sem þarf að fara yfir og endurskoða til að vera ekki sífellt að synda á móti straumnum.
Þar sem við fáum ekki einu sinni samþykkt að seinka klukkunni um 1 klst í skammdeginu eru litlar líkur á að samfélagið fari að horfa á slíkar náttúruhringrásir sem afsökun fyrir því að starfa ekki á fullum afköstum.
Það sem við getum gert er að vera mild við okkur sjálf, íhuga málið í samskiptum, bregðast ekki harkalega við þótt aðrir láti tilfinningahlaðin orð falla sem sögð eru í tímabundnu ójafnvægi og sveiflast ekki með áhrifum líðandi stundar.
- Staldraðu við, gakktu úr skugga um að það sé engin misskilningur til staðar, sýndu þolinmæði ef að tengslin ganga illa eða skapast ekki. Þá ert það nefnilega þú sem ert að skapa jafnvægi.
- Gott ráð er að bíða og búa til andrými ef að samskipti ganga ekki vel.
- Andaðu, gerðu hugleiðslu fyrir bættari samskipti eða skoðaðu að gera jógaæfingar sem að vinna með allt sem tengist tjáningu, hálsstöð og að koma frá hjartanu.
- Eitt ráð er að snerta fingurgóm litla fingurs með fingurgómi þumals meðan þú talar eða hugleiðir en litli fingur er sagður tengjast plánetunni Merkúr. Þessi handstaða nefnist buddhi mudra og er lýst sem handstöðunni sem losar hindranir í samskiptum.
Eigðu góðar stundir,
Arnbjörg Kristín
Jógakennari og jógískur ráðgjafi
—
Ekki missa af hugleiðslunámskeiði Arnbjargar sem hefst 13. janúar n.k.