Áhrif jóga á blóðsykurinn

Það hefur margoft verið sýnt fram á heilsueflandi áhrif jóga fyrir líkama og sál. En eftir að ég greindist með tegund 1 af sykursýki fyrir um ári síðan þá hef ég hvað mest verið að skoða hvaða áhrif jóga hefur á blóðsykur. Hollt matarræði og hreyfing eru lykilþættir í aukinni blóðsykurstjórnun og uppbyggingu á frumum og vefjum líkamans.

Sykursýki af tegund 1, sem er sjálfsónæmissjúkdómur, veldur því að brisið hættir að framleiða insúlín. Insúlín er hormón sem er nauðsynlegt fyrir líkamann til að geta nýtt glúkósa úr fæðunni sem orkugjafa. Ég er því háð insúlíninntöku og mun ávallt vera það. Ég er þakklát fyrir að búa í landi þar sem ég hef gott aðgengi að færum læknum og lyfin eru að hluta niðurgreidd, en það er vissulega ekki þannig í öllum löndum. Og hér áður fyrr, fyrir tíma insúlíninntöku, var þessi sjúkdómur banvænn. Hins vegar þrátt fyrir insúlíninntöku getur sjúkdómurinn valdið nýrnabilun, blindu og taugaskemmdum sem geta leitt til aflimunar og eru tilfelli um það hér á landi enn í dag. Það er því ærin ástæða að hugsa vel um sig.

Með því að huga að hreyfingu og matarræði get ég dregið úr og minnkað insúlíninntöku og haft veruleg áhrif á blóðsykursmagnið og líðan mína. Þegar ég fann hvernig ég gat haft áhrif á þetta upplifði ég mikið frelsi. Með aukinni hreyfingu líður mér miklu betur og þá get ég notað minna af insúlíni og þannig fundið fyrir aukinni orku og jafnvægi.

En hvernig getur jóga hjálpað?

Matur getur ekki aðeins hækkað blóðsykurinn í líkamanum heldur getur til að mynda hátt hlutfall stresshormóna í líkamanum einnig haft áhrif á að blóðsykurinn hækkar.

Vissar jógaæfingar draga úr myndun stresshormóna í líkamanum og stuðla að dýpri öndun og slökun. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á heilsueflandi áhrif jóga. Nýleg rannsókn sýndi fram á að reglubundin jógaiðkun yfir þriggja mánaða tímabil jók verulega jafnvægi á blóðsykri auk þess að bæta meltingu, draga úr kvíða og jók almennt vellíðan. Jóga virkjar innkirtlana og nuddar innyflin, þ.m.t. brisið sem framleiðir insúlín. 1,2

Í annarri rannsókn upplifðu einstaklingar með sykursýki af tegund 2 sem stunduðu reglulega jóga yfir þriggja mánaða tímabil betri þyngdarstjórnun, aukið jafnvægi á blóðsykri og lægri blóðþrýsting.3

Ég sækist í jafnvægið af því ég finn svo mikið fyrir því hvernig of hár blóðsykur veldur þreytu, skapsveiflum, svimatilfinningu, sjóntruflunum og einbeitingaskorti.

Eins hvernig of lágur blóðsykur tekur líkamann algerlega úr jafnvægi, tæmir orkuna og skilur mann eftir skjálfandi í svitabaði. Líkaminn er oft mjög lengi að ná sér aftur á strik eftir blóðsykursfall. Sveiflur á blóðsykrinum taka svo gríðarlega á líkamann og því gerir maður mikið til að halda í jafvægið og draga úr sveiflunum ef maður mögulega getur.

Ég er þakklát fyrir jógað mitt sem veitir mér jafnvægið. Ég hef sjálf fundið hvernig margar öndunaræfingar (pranajama), jógaæfingar og stöður (asanas) og hugleiðslur lækka blóðsykurinn hjá mér og hafa einstaklega jákvæð áhrif á heilsuna og almenna líðan.

Það góða við jóga og hugleiðslur er að allir geta stundað það, hvar og hvenær sem er. Þess vegna á stofugólfinu heima.


1. McCall T. Yoga as Medicine: The Yogic Prescription for Health and Healing. New York: Bantam Dell; 2007.

2. Hegde SV, Adhikari P, Kotian S, Pinto VJ, D’Souza S, D’Souza V. Effect of 3-month yoga on oxidative stress in type 2 diabetes with or without complications: A controlled clinical trial. Diabetes Care. 2011;34(10):2208-2210.

3. Yang K, Bernardo LM, Sereika SM, Conroy MB, Balk J, Burke LE. Utilization of 3-month yoga program for adults at high risk for type 2 diabetes: A pilot study. Evid Based Complement Alternat Med. 2009;Epub ahead of print.

Tögg úr greininni
, , ,