Texti GUÐBJÖRG GISSURARDÓTTIR Myndir JÓN ÁRNASON
„Keehole Garden“, eða það sem ég kalla moltugarð, er hugmynd sem þróaðist í Suður-Afríku þar sem jarðvegur er rýr og miklir þurrkar.
Upphækkaður garðurinn er yfirleitt byggður í hring með vaff-laga innskoti til að komast að miðjunni sem matarafgöngum og öðru lífrænu efni er hent í. Þetta lífræna efni breytist svo hægt og rólega í næringu fyrir plönturnar og eykur einnig raka í jarðveginum. Fullkomið í bústaðinn, hugsaði ég þegar ég sá þetta fyrirbæri fyrst. Tvær flugur í einu höggi; minni vökvun og góð leið til að losna við matarafgangana. Garðurinn er byggður út frá svokölluðu vistkerfi eða „permaculture“ þar sem hráefni úr nærliggjandi umhverfi er nýtt.
Þegar ég rétti loksins úr bakinu tók ég eftir því að ég hafði mótað stórt hjarta í miðjum matjurtagarðinum!
Ég notaði stóra steina sem höfðu komið úr garðinum til að hækka upp beðið og hlóð í hring samkvæmt fyrirmælum en þegar ég rétti loksins úr bakinu tók ég eftir því að ég hafði mótað stórt hjarta í miðjum matjurtagarðinum! Ég varð nett væmin eitt augnablik yfir þessari óvæntu fegurð en hélt svo áköf áfram framkvæmdinni.
Ég notaði hænsnanet í miðjuna, þar sem afgangarnir fara ofan í, og bætti nokkrum steinum í botninn upp á frárennsli. Í beðið sjálft byrjaði ég á að setja í botninn greinar, bylgjupappír og ýmislegt annað eins og illgresi úr garðinum. Mold fór þar ofan á þar til beðið var orðið fullt. Þá var moltugarðurinn tilbúinn til gróðursetningar.
Þegar búa á til moltu þarf að hafa það í huga að við erum fyrst og fremst að rækta lífverur og því meira af þeim því hraðar verður niðurbrotið.
Þegar búa á til moltu þarf að hafa það í huga að við erum fyrst og fremst að rækta lífverur og því meira af þeim því hraðar verður niðurbrotið. Í grófum dráttum þá set ég alla matarafganga, fyrir utan kjöt og fisk, í moltuna; kaffikorg og tepoka, grænmetisafskurð, eggjaskurn, brauð og ávexti. Því fíngerðari sem afskurðurinn og afgangarnir eru því betra þar sem örverurnar ná þá að þekja meira yfirborð og þar af leiðandi brjóta matin hraðar niður.
Til að tryggja sem bestan árangur verður að passa upp á að moltan verði ekki of blaut, þótt rigningin hjálpi reyndar næringunni að fara út í moldina. En það þarf að halda jafnvægi á milli hins svokallaða græna efnis, sem eru matarafgangar, nýtt lauf og gras, brauð og kaffikorgur, og svo hins vegar brúna efnisins sem er sina, dautt lauf, grannar greinar, kurl, dagblöð, ólitaður eldhúspappír, eggjabakkar og brúnn pappi. Svo er um að gera að henda dýraáburði ofan í holuna af og til ef hann er við höndina og hræra í.
Aðalmálið er að flækja þetta ekki. Það versta sem getur gerst er að niðurbrotið tekur lengri tíma. Það sem ég gerði fyrsta sumarið mitt var að ég fór út með matinn og setti alltaf lag af sinu ofan á sem þakti yfirborðið. Þannig kom ég í veg fyrir það að flugurnar sæktu í matinn, hélt jafnvægi á græna og brúna efninu og moltan varð ekki of blaut. Annars er þetta uppskrift sem hver og einn verður á endanum að finna út sjálfur og hafa gaman af.
góða dag dóttir mín er að skrifa verkefni í 10 bekk um moltugerð og vildi ég kanna hvort þið gætuð bent okkur á einhvern sem hún gæti tekið viðtal við til að kynna sér betur moltugerð í heimahúsum.
kær kveðja María R
gsm 8408400