Fjölgun með vetrargræðlingum

Vetrargræðlingar
Stuttir græðlingar henta vel í bakka og potta. Þeim er yfirleitt stungið beint í moldina þannig að 2/3 séu neðanjarðar og a.m.k. 1–2 brum ofanjarðar.
TEXTI Jón Þórir Guðmundsson

Að fjölga trjám og runnum með vetrar­græð­lingum er auðveld og fljótvirk að­ferð og hentar vel fyrir margar teg­undir lauf­­trjáa og runna. Helst er öspum og víði fjölgað með þessari að­ferð en líka berja­­runnum, kvistum, rósum og ýmsum fleiri tegundum, og um að gera að fikra sig áfram og prófa.

Græðlingarnir eru klipptir frá hausti og fram á vor og hafðir 10–25 cm langir. Stuttir henta vel í bakka og potta en þeir lengri beint út í beð eða út í náttúruna. Yfir­­leitt þarf ekki rótar­hormón á svona græð­l­inga heldur er þeim aðeins stungið beint ofan í moldina. Það má líka geyma þá í vatni í fötu í dálítinn tíma, eða 2–3 vikur, en ekki er æskilegt að það myndist rætur fyrir stungu heldur einungis hvítir punktar í börkinn.

Best er að taka græðlinga af nývexti síðasta árs og þá helst af kröftugum sprotum. Oft er best að klippa burt efsta hlutann því hann getur verið kalinn. Hver sproti af kröftugri ösp eða víði getur gefið 2–3 græðlinga. Græðlingi er stungið í moldina þannig að 2/3 séu neðan­jarðar og alla­vegana 1–2 brum ofanjarðar. Græðlingar í uppeldis­beði eru hafðir þar í eitt- tvö ár en síðan fluttir að vori eða hausti á framtíðarvaxtar­stað og eru þá 50–100 cm.

Jón Þórir Guðmundsson

Garðyrkjufræðingurinn Jón Þórir Guðmundsson frá Akranesi er þekkt persóna í heimi garðyrkju og ræktunar. Hann er einn af þeim sem láta ekkert óreynt þegar kemur að ræktun, séu það matjurtir, blóm eða eplatré. 

Fleiri greinar eftir Jón Þórir Guðmundsson:
Umpottun á pottaplöntum
Ræktun á hvítlauk
Radísur og hreðkur

Tögg úr greininni
, ,