Ræktun
Litlar salat-radísur eru það grænmeti sem þroskast á stystum tíma, jafnvel bara á um fjórum vikum frá sáningu til uppskeru. Þær þurfa sólríkan vaxtarstað, góðan jarðveg og nægan raka til að vaxa hratt og vel. Þeim er hægt að sá frá vori og fram eftir sumri og er best að sá á tveggja vikna fresti. Það er upplagt að nýta pláss á milli raða af seinvöxnum tegundum eins og gulrófum eða pastinökkum. Smágerðum radísum má sá með 2,5 cm millibili hvar sem tímabundið pláss er og uppskera löngu áður en seinvaxnar eða plássfrekar plöntur þurfa allt plássið.
Snemmsprottnar radísur jafnt sem vetrarhreðkur má aldrei skorta vatn því annars hættir þeim til að springa þegar skyndilega rignir mikið og þær fá nóg að drekka. Of mikil vökvun getur svo leitt til þess að yfirvöxtur verði mikill á kostnað rótanna.
Radísur eru náskyldar káli og sækja sömu meindýr og sjúkdómar á þessar tegundir. Sniglar geta verið til ama og líka getur þurft að gera ráðstafanir gegn kálflugu. Kálflugan verpir aðallega frá 20. júní og fram yfir mánaðamót júní-júlí. Besta vörnin er að hafa trefjadúk yfir plöntunum um varptíma flugunnar en passa þarf að fergja hann vel og að ekki séu göt á dúknum.