Dýrindis vegan sveppabrauð

sveppabrauð frá hipstur
UPPSKRIFT Drífa Jónsdóttir og Semjon Karopka
MYND Guðbjörg Gissurardóttir

Hjónin Drífa Jónsdóttir og Semjon Karopka reka veitingastaðinn Hipstur í Mathöllinni Höfða. Þar bjóða þau upp á fisk og grænmetisrétti í norrænum stíl, allt hráefnið er ferskt og réttirnir gerðir frá gunni. Einn vinsælasti rétturinn er dýrindis sveppabrauð, sem hitti strax beint í mark. Um er að ræða súrdeigsbrauð, hlaðið steiktum sveppum, radísum, sósu og piparrót.

Þegar hjónin höfðu varpað á milli sín hugmyndum að góðum veganrétti varð sveppabrauðið til. Við komumst að þeirri niðurstöðu að flestir eru hrifnir af ferskum sveppum, sem eru rétt steiktir. Súrdeigsbrauð er í miklu uppáhaldi hjá okkur, svo ekkert annað brauð kom til greina. Við vildum að rétturinn rifi aðeins í bragðlaukana og þá datt okkur í hug að nota piparrót og rífa hana yfir brauðið. Eftir nokkrar tilraunir varð sveppabrauðið til, og það sló strax í gegn. En uppistaðan í því eru þrjár mismunandi gerðir af sveppum: flúðasveppir, portóbellósveppir og ostrusveppir,“ segir Drífa. „Svo létum við sérhanna diska undir brauðið og Inga Elín design á heiðurinn af þeim,“ bætir Drífa stolt við. 

Innt eftir því hvort fjölskyldan hafi áhuga á sveppatínslu kemur í ljós að svo er. „Já, þegar við höfum tíma kíkjum við stundum eftir sveppum en bara til að nota í matargerð heimavið. Okkur finnst gaman að kenna börnunum okkar hvað hægt er að nýta úr náttúrunni,“ segir Drífa.

SVEPPABRAUÐ FRÁ HIPSTUR 

  • Súrdeigsbrauð, skorið

  • Vegan aioli (majónes með hvítlauk)

  • 3 tegundir af sveppum, skornir í bita (portóbelló, flúðasveppir og ostrusveppir)

  • Grænkál
  • Hvítlaukur
  • Radísur
  • Sultaður rauðlaukur
  • Grænt epli
  • Súrdeigs-crumble
  • Rifin piparrót

Byrjið á að steikja súrdeigsbrauðsneið á heitri pönnu með smá olíu. Steikið báðar hliðar.

Þegar brauðið hefur tekið smá lit er það sett á disk. Smyrjið sneiðina með aioli, og gott er að hafa nóg af því.

Skerið sveppina í bita og steikið á pönnu, bætið við salti, pipar og hvítlauk. Þegar sveppirnir eru orðnir stökkir, bætið þá við hnefa­­fylli af grænkáli, slökkvið á hellunni og setjið lok yfir.

Látið steikjast í um 30 sekúndur áður en lokið er tekið af. Þetta fer svo beint á brauð­sneiðina.

Dreifið radísum, sultuðum rauðlauk og eplabitum yfir. Pipar­rótin er svo rifin yfir allt brauðið. Við skreytum brauðið með kerfli.