Sveppatínsla og góð máltíð

Sveppir og heil máltíð
TEXTI / LJÓSMYNDIR Helga Einarsdóttir
UPPSKRIFT Matthías Emanúel Pétursson

Ég hef farið í sveppatínslu með ömmu minni frá því að ég man eftir mér. Þetta voru ævintýraferðir milli Lerkitrjáa þar sem vonast var til að við hvert tré væri að minnsta kosti einn gullinbrúnn sveppur, Lerkisveppur. Í skóginum týndi maður tímanum. Við tókum alltaf nesti með okkur og nutum dagsins í náttúrunni.

Síðan kom langt hlé á sveppatínslunni en í ár fór ég ásamt litlu fjölskyldunni minni austur ásamt ömmu og afa. Það hafði liðið alltof langur tími síðan slík ferð var farin og þetta var alveg eins og í minningunni. Við gleymdum okkur í lerkisveppum og könglum. Könglar hafa verið notaðir til skreytingar á jólapakka heima hjá mér um langt skeið. Tilvalið er að tína þá í sömu ferð.

Við tíndum um miðjan júlí en besti mánuðurinn til tínslu er ágúst. Tína þarf í eitthvað sem loftar vel eins og körfu eða kassa, alls ekki plastpoka. Gott er að hafa með sér vasahníf til að hreinsa sveppina. Það getur verið gott að setjast niður og dunda sér við það undir berum himni. Hreinsa þarf mosa og annað sem hefur lagst á sveppina og taka svo aðeins neðan af honum og hreinsa hann aðeins til. Við tíndum í meira en 10 mjólkurfernur.

Á meðan sumir tíndu sveppi og köngla, hreinsuðu aðrir svo hægt væri að fara beint heim og byrja að elda. Þegar heim var komið steikti maðurinn minn, kokkurinn, slatta af sveppunum í smjöri og þeir voru hafðir með lambakjötinu um kvöldið. Þeir voru algjört nammi enda alltaf best það sem maður tínir sjálfur. Í hádeginu daginn eftir gerði kokkurinn svo sveppasúpu sem var bæði bragðmikil og einstaklega ljúffeng og fylgir hér uppskrift og nokkur góð ráð fyrir þá sem kunna að meta sveppi.

Sveppir og heil máltíð

7 GÓÐ RÁÐ VIÐ SVEPPATÍNSLU

1.
Vera viss um hvaða sveppi á að tína, hvar þeir vaxa og hvernig þeir líta út.

2.
Hafa ílát undir sveppina (við notuðum tómar mjólkurfernur).

3.
Taka með vasahníf eða annað til að hreinsa sveppina.

4.
Hafa meðferðis tusku því sveppirnir eru slímugir og lita gulum lit.

5.
Nýir ungir sveppir eru þeir sem á að tína.

6.
Bestu sveppirnir eru með pípur.

7.
Eldri sveppir eru oft orðnir flatir og maðkur sækir í þá. Þeir eru ekki góðir til átu og betra að láta þá vera og leyfa þeim að fjölga sér.

Sveppir og heil máltíð

GEYMSLA Á SVEPPUM

Ekki er hægt að geyma sveppi lengi, helst bara sólarhring.

Hægt er að frysta sveppina en þá best er að steikja þá fyrst og láta mest af vatninu gufa upp.

Einnig er hægt að skera sveppina í sneiðar og þurrka  en þá geta þeir geymst í nokkur ár. Ofninn er settur við 60° og sveppirnir látnir ligga þar til þeir verða stökkir. Auðvelt er að nota þá svo seinna í súpu, sósu og fleira.

Sveppir og góð máltíð

SVEPPASÚPA FYRIR 4

2 handfylli af lerkisveppum
1 bolli hvítvín
2 msk eplaedik
1 bolli vatn
½ l rjómi
50 gr smjör
salt, pipar og blóðberg

Sveppirnir steiktir vel á sjóðandi heitri pönnu í olíu. Næst er smjöri bætt úti. Blóðbergi (eftir smekk) og salti er þá bætt úti í og steikt með til að fá bragðið í sveppina. Bolli af hvítvíni bætt út í og það soðið niður um helming. Þá er vatni bætt út í og einnig soðið niður um helming. Næst er rjómanum bætt við og látið malla rólega. Loks er öll súpan maukuð með töfrasprota eða látin kólna örlítið og sett í blandara. Þá er bara eftir að smakka súpuna til með salti og pipari, ediki og blóðbergi.