Umpottun á pottalöntum

Umpottun og næring pottaplantna
Best er að hvolfa plöntunum til að ná þeim úr pottinum og greiða aðeins úr rótarflækjunni eða grisja ræturnar ef þær eru langar og flæktar.
TEXTI Jón Þórir Guðmundsson

Að umpotta pottaplöntum er eitthvað sem þarf að gera á tveggja til þriggja ára fresti. Þetta er þónokkuð breytilegt því sumar plöntur eru nægjusamari en aðrar, þetta er því alltaf mats­atriði hverju sinni. Einnig þarf að muna að um­potta plöntum sem eru í útirækt eða í gróður­húsinu en margir rækta runna og fjöl­ær blóm í pottum utandyra.

En hvernig á að meta þörfina? Lítill vöxtur, smá­blöð og gul­leit blöð eru glögg dæmi um að umpottun sé æskileg. Það sama á við ef rótar­klumpur er orðinn þéttur og vöxtur almennt kyrkings­legur. Stundum er hægt að skipta aðeins um efsta moldar­­lagið eða um 3–5 cm og setja ferska og áburðar­ríka mold efst í pottinn.  

Best er að vökva plöntuna nokkrum klukku­­tímum fyrir umpottun. Síðan þarf að velja góðan pott sem er um 2–4 cm stærri en sá gamli. Ef potturinn, sem á að um­potta í, er notaður þarf að þrífa hann vel með heitu vatni áður. Slíkt á alltaf að gera þegar pottar og sáð­bakkar eru endur­nýttir til þess að koma í veg fyrir sýkingar og hugsanleg meindýr.

Því næst er góð pottamold valin, sem hentar fyrir almenna ræktun en sumar plöntur kjósa sér­staka mold ef hún stendur til boða, sem dæmi vilja kaktusar auka sand eða vikur út í moldina og blá­berja­­runnar og lyngrósir súra mold.

Það er best að hvolfa plöntunum til þess að ná þeim úr pottinum og síðan má gjarnan greiða aðeins úr rótarflækjunni og grisja ræturnar ef þær eru langar og flæktar. Síðan er plöntunni komið fyrir í nýja pottinum, að moldin sé um 2 cm fyrir neðan barminn á pottinum en það auðveldar alla vökvun á plöntunni síðar.

Þegar plantan er komin í nýja pottinn og moldin hefur verið þjöppuð rólega þarf að vökva vel og koma henni fyrir á framtíðar­vaxtar­stað. Grunn­áburðurinn í moldinni endist í um 3–4 vikur en þá má fara að gefa áburð á eins til tveggja vikna fresti eða oftar eftir styrk blönd­unnar og hvernig plöntu við erum með. Eftir tvær vikur ætti plantan að hafa fest sig vel í nýju moldinni og njóta nýja pottsins og næringarríku moldarinnar.

Fyrir áhugasama pottaræktendur mælum við með 10 góðum ráðum um ræktun í pottum.

Jón Þórir Guðmundsson

Garðyrkjufræðingurinn Jón Þórir Guðmundsson frá Akranesi er þekkt persóna í heimi garðyrkju og ræktunar. Hann er einn af þeim sem láta ekkert óreynt þegar kemur að ræktun, séu það matjurtir, blóm eða eplatré. 

Fleiri greinar eftir Jón Þórir Guðmundsson:
Fjölgun með vetrargræðlingum
Ræktun á hvítlauk
Radísur og hreðkur

Tögg úr greininni
, ,