Ræktun á hvítlauk

Nú styttist óðum í haustið og um að gera að svipast um eftir fallegum hvítlauk til þess að setja niður fyrir veturinn. Passið bara að velja heilbrigða og fallega lauka og setja niður stór og hraustleg rif.

TEXTI Jón Þórir Guðmundsson

Ævaforn matjurt 

Hvítlauk þekkja allir Íslendingar í dag, enda vinsæll sem krydd og matjurt í alls kyns matreiðslu. Það er þó ekki ýkja langt síðan fáir könnuðust við hann og hvað þá að hann væri ræktaður hér á landi. Ég hef sjálfur ræktað hvítlauk í tuttugu ár og er hann eina matjurtin sem ég hef getað átt allt árið um kring. Hann geymist nefnilega það vel að þegar síðustu laukarnir frá fyrra ári klárast, um mitt sumar, eru nýir að verða tilbúnir í garðinum.

Hvítlaukur er í rauninni ævaforn matjurt en heimildir um hann ná um fimm þúsund ár aftur í tímann til Egyptalands og Kína. Hvítlaukur er uppruninn í Mið-Asíu, í nágrenni við Tien Shan fjallgarðinn, sem liggur í gegnum Kasakstan, Kirgistan og til Kína. 

Laukarnir, sem eru samsettir úr nokkrum rifum, geta verið nokkuð breytilegir að lit en eru oftast hvítir eða með fjólublátt hýði. Stundum eru þeir flokkaðir í harðhálsa (hardneck) og mjúkhálsa (softneck) afbrigði en harðhálsalaukar eru með harðan blómstöngul. Til eru óteljandi yrki af báðum afbrigðum, og fjölmörg þeirra hafa reynst vel hér á landi. 

Ræktun á hvítlauk 

Best er að fá viðurkennt útsæði af heilbrigðum stofni en það má líka notast við útsæðislauk sem fengin er úr matvöruverslun. Öruggast er að fá lífrænt ræktaða lauka, ef þeir fást, og helst með stórum rifum.

Ræktun á hvítlauk er frekar einföld. Þú einfaldlega setur niður rif á haustin í september-nóvember, en hvítlaukur þarf kuldatímabil til þess að skipta sér, annars verður hann kringlóttur. Laukurinn er tekinn í sundur og hvítlauksrifin eru sett niður með 15 cm millibili, en ekki er ráðlegt að afhýða þau áður. Dýptin þarf að vera 5-10 cm og á mjórri endinn að vísa upp en laukkakan niður.

Jarðvegurinn þarf að vera frjósamur og er gott að setja gamlan húsdýraáburð í beðið eða safnhaugamold. Gott er líka að kalka jarðveginn og hann má ekki vera blautur þar sem hvítlaukur þolir illa mikla bleytu. Yfir sumarið þarf að fjarlægja allt illgresi og vökva eftir þörfum.

Laukarnir eru uppskeruhæfir upp úr miðju sumri eða þegar neðstu blöðin byrja að visna. Laukurinn verður lausari í sér ef hann stendur of lengi í moldinni fram eftir hausti og geymist því síður. Best er að skola alla mold af honum við uppskeru og hengja hann svo upp til þurrkunar. Eftir 2-3 vikur má svo klippa burt blöðin og ræturnar og koma laukunum fyrir í þurri geymslu við 5-10°C. Hvítlaukur getur þannig geymst í marga mánuði en einnig má flétta hann saman og hengja hann þannig upp.

Lækningajurtin hvítlaukurinn 

Hvítlaukur er þekkt lækningajurt og hefur um aldir verið notaður til að fyrirbyggja ýmsa sjúkdóma og kvilla. Hann er ríkur af vítamínum og steinefnum, svo sem A-, B-, og C-vítamíni, kalíum og seleni. Talið er að hvítlaukur geti haldið bakteríum og veirum í skefjum og styrki ónæmiskerfi líkamans. Hann þykir góður við t.d. kvefi, hósta, flensueinkennum, barkabólgu, magaverkjum og sótthita. Eyrnabólgur má oft lina með því að setja sneiðar af hvítlauk í grisju og leggja við eyrun. Neysla á hvítlauki er talin geta spornað gegn áhættuþáttum hjartasjúkdóma, svo sem háum blóðþrýstingi, of háu kólesteróli og myndun blóðtappa. Þá ku hann lækka blóðsykurinn. Hvítlaukur hefur þann ókost að geta valdið andremmu en það má laga með því að borða steinselju, engifer eða sítrónu. 

Við bendum hvítlauksáhugafólki á greinina um Hvítlaukinn í moldina

Jón Þórir Guðmundsson

Garðyrkjufræðingurinn Jón Þórir Guðmundsson frá Akranesi er þekkt persóna í heimi garðyrkju og ræktunar. Hann er einn af þeim sem láta ekkert óreynt þegar kemur að ræktun, séu það matjurtir, blóm eða eplatré. 

Fleiri greinar eftir Jón Þórir Guðmundsson:
Fjölgun með vetrargræðlingum
Umpottun á pottaplöntum
Radísur og hreðkur