Ræktun á hvítlauk
Best er að fá viðurkennt útsæði af heilbrigðum stofni en það má líka notast við útsæðislauk sem fengin er úr matvöruverslun. Öruggast er að fá lífrænt ræktaða lauka, ef þeir fást, og helst með stórum rifum.
Ræktun á hvítlauk er frekar einföld. Þú einfaldlega setur niður rif á haustin í september-nóvember, en hvítlaukur þarf kuldatímabil til þess að skipta sér, annars verður hann kringlóttur. Laukurinn er tekinn í sundur og hvítlauksrifin eru sett niður með 15 cm millibili, en ekki er ráðlegt að afhýða þau áður. Dýptin þarf að vera 5-10 cm og á mjórri endinn að vísa upp en laukkakan niður.
Jarðvegurinn þarf að vera frjósamur og er gott að setja gamlan húsdýraáburð í beðið eða safnhaugamold. Gott er líka að kalka jarðveginn og hann má ekki vera blautur þar sem hvítlaukur þolir illa mikla bleytu. Yfir sumarið þarf að fjarlægja allt illgresi og vökva eftir þörfum.
Laukarnir eru uppskeruhæfir upp úr miðju sumri eða þegar neðstu blöðin byrja að visna. Laukurinn verður lausari í sér ef hann stendur of lengi í moldinni fram eftir hausti og geymist því síður. Best er að skola alla mold af honum við uppskeru og hengja hann svo upp til þurrkunar. Eftir 2-3 vikur má svo klippa burt blöðin og ræturnar og koma laukunum fyrir í þurri geymslu við 5-10°C. Hvítlaukur getur þannig geymst í marga mánuði en einnig má flétta hann saman og hengja hann þannig upp.