NÝTT TÖLUBLAÐ: RÆKTUN OG FERÐALÖG

Nýtt blað er komið til áskrifenda og við vonum að þið njótið þess að fletta síðunum. Í blaðinu fjöllum við um ýmisslegt tengt árstíðinni SUMAR; ræktun, ferðalög um landið, sumarhúsið, heilsa, handverk og náttúruleg ráð. Hér fylgir ritstýrupistillinn frá Dagnýju B. Gísladóttur ritstýru sem setur tóninn fyrir blaðið: KAUPA BLAÐIÐ HÉR

Hið hverfula sumar

Sumarið er komið. Vonir kvikna um sólrík ferðalög um landið en þeim fylgja gjarnan vonbrigðin, þegar tjaldið fer að leka og hliðarvindurinn eyðileggur annars huggulega nestisferð. Ég er þó ein af þessu bjartsýnisfólki sem trúir á íslenskt sumar og er ánægð með það, alveg eins og það er. Mér finnst yndislegt þegar allt grænkar, hitastigið hækkar örlítið og fólk tekur lífinu aðeins léttar. Vissulega verð ég seint á sundfötunum einum fata í garðinum mínum, enda óþarfi að ætlast til þess þegar maður býr á eyju í miðju Atlantshafi. Ég stilli sem sagt væntingum í hóf. Ég vonast til þess að hitinn haldi sér fyrir ofan frostmark, svo eitthvað sé hægt að rækta og ég geti notið mín endrum og eins á stuttermabolnum. Svo dansa ég bara í rigningunni eða fer í sólbað í úlpunni þegar þannig lætur. Með þessum lágstemmdu væntingum og leikrænu tilþrifum er sumarið bara ansi ánægjulegt!

Í sumarblaðinu reynum við einmitt að veita innblástur um hvernig hægt sé að njóta sumarsins enn betur, óháð veðurguðunum. Við lærum til dæmis að meðhöndla frjókornaofnæmi með náttúrulegum ráðum og hvernig best er að rækta salat og ætileg blóm. Þá undirbúum við okkur fyrir ferðalög um landið með tilheyrandi tékklista, innblæstri og góðum ráðum. Við kíkjum einnig í heimsókn í huggulegan garð í borginni, sem er eins og framlenging af heimilinu og mikið notaður af heimilisfólki. Þá hittum við Ásdísi grasalækni, fengum frá henni góðan innblástur fyrir heilsuna og hvatningu til þess að tína nokkrar jurtir í sumar.

Njóttu lestursins og megi sumarið fara fram úr þínum björtustu vonum!

Dagný B. Gísladóttir
Ritstýra


SMELLTU HÉR TIL AÐ KAUPA BLAÐIР

OPNUR ÚR BLAÐINU:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.