Mantra er orð eða röð orða sem eru endurtekin til að framkalla breytingu á huga og vitund. Flestar möntrur koma úr Sanskrít eða Gurmukhi sem eru helgar indverskar mállýskur. Orðið er samsett úr Man sem merkir hugur og tra sem merkir bylgja. Að kyrja færir okkur ró og er það mál flestra sem ég hef rætt við og hafa gert þetta að hluta af sinni andlegu næringu. Það sefar hugann og hjálpar okkur að losa upp óæskileg hugsanamynstur sem valda okkur hugarangri.
Rannsóknir hafa sýnt fram á aukningu á alpha bylgjum í heila við það að kyrja möntrur en þær aukast þegar við erum ekki að hugsa og í djúpslökunarástandi. Auk þess er búið að rannsaka áhrif þeirra á heilastarfsemi, svo sem á minnið með jákvæðum niðurstöðum.
Máttur hljóðsins
En af hverju að fara með möntru úr gömlum indverskum mállýskum? Til forna voru möntrur notaðar markvisst af uppljómuðum jógum og gúrúum sem þekktu leyndardóma og mátt hljóðsins. Þeir vissu hve áhrifaríkt það var að varpa slíkri tíðni fram í huga og orði og að það færði þeim hugljómun og vellíðan óháð kringumstæðum.
Í gegnum aldirnar hafa möntrur varðveist innan margra andlegra hefða og oft á tíðum var þessari þekkingu haldið frá almenningi því það þóttu forréttindi að búa yfir þessari vitneskju. Í dag eru breyttir tímar og fólk er almennt upplýstara og meðvitaðra um að allir eiga jafnan rétt á að upplifa líf í upplyftum anda og höndla hamingjuna innan frá. Það er mjög auðvelt að fara á veraldarvefinn og fletta upp möntrum, heyra framburð þeirra og nýta sér þær. Það virðist eins og okkar mesta vandamál í dag sé að hafa agann og athyglina til að tileinka okkur vanann sem andleg ástundun er.
Í jógískum fræðum og víðar er lögð áhersla á að vanda orðaval og hugsanir því allt sem við hugsum og segjum ber ákveðna sveiflutíðni. Tilfinningar, hugsanir og orð sem tengjast kvíða, ótta og reiði hafa frekar lága sveiflutíðni og skapa vanlíðan. Jákvæðar tilfinningar, hugsanir og orð sem tengjast kærleikanum, hamingju og gleði lyfta okkur upp. Það má líta á möntrur sem jákvæðar staðhæfingar sem styrkir allt það góða innra með okkur. Heilinn byrjar að starfa öðruvísi, senda frá sér annars konar bylgjur og lundin verður léttari.
Hæsta mögulega sveiflutíðni sem við getum framkallað, er þegar við upplifum tengingu við allt sem er, skaparann eða óendanleikann. Þá upplifum við óskilyrtan kærleika og einingu. Margir upplifa þessa tilfinningu af og til í hugleiðslu í stutta stund og upplifir fólk það gjarnan innra með sér eftir að kyrja möntru í lengri tíma.
Möntrur fyrir unga sem aldna
Ég nýti mér möntrur á hverjum degi, hvort sem ég kyrja eða hlusta á fallegt lag til að auðga daginn. Áhrif þeirra sé ég einna best hjá einlægustu þjóðfélagsþegnum okkar, börnunum. Ég kenni jóga í grunnskóla og í þeim tímum ef ég gleymi að setja af stað möntrutónlist (sem var sérstaklega samin fyrir börn) er ég rækilega minnt á að kveikja á henni. Einnig hef ég fengið fyrirspurnir frá foreldrum varðandi hvað ég sé að spila fyrir þau í tímum. Mikið úrval er til af fallegri möntrutónlist í dag. Hún er iðulega spiluð í jógatímum og fólk spilar hana einnig heimavið til ánægju og yndisauka.
Við erum sífellt að skapa veruleikann okkar og við höfum mikla getu til að hafa áhrif á framgang lífs okkar með meðvituðum hugsunum og gjörðum. Hugleiðsla með möntrum er ein af fjölmörgum leiðum til þess. Ein af fjölmörgum möntrum er mantran Sat Naam. Sat þýðir sannleikur og Naam þýðir nafn. Að endurtaka hana styrkir okkar innri og æðri sannleika. Hún er gjarnan endurtekin í hugleiðslu eða notuð sem kveðja meðal Kundalini jóga (eftir forskrift Yogi Bhajan) því það heiðrar innri sannleika beggja aðila að segja hana upphátt.
Að ganga veg sálarinnar og fylgja innri og æðri sannleika veitir okkur lífsfyllingu. Það felst mikill þroski í bera raunverulega virðingu fyrir sannleika eigin sálar og annarrar manneskju. Að segja Sat Naam við sjálfan sig og aðra er falleg gjöf og staðfesting á því að allir hafa sinn einstaka tilgang í lífinu og innan samfélagsins.