Morgunvenjur Ásdísar grasalæknis

Áhugi Ásdísar Rögnu á virkni lækningajurta og hæfni þeirra til að bæta heilsu fólks kviknaði snemma á lífsleiðinni. Hún hefur lengi haft brennandi áhuga á því hvernig við getum haft áhrif á heilsuna frá náttúrunnar hendi og hvaða áhrif þessi fjölmörgu virku efni úr jurtunum hafa á mannslíkamann.
Hún starfar sem grasalæknir sem hún segir vera mjög gefandi starf og einstök tilfinning sem fylgir því að verða vitni að hvað heilsusamlegra mataræði og jurtalyf geta haft djúpstæð áhrif á einkenni, líðan og heilsu fólks.
Við fengum að forvitnast um morgunvenjur Ásdísar:

FB lítil myndHvenær og hvernig vaknarðu?

Þar sem enginn dagur er eins í vinnunni hjá mér og þar sem ég rek mitt eigið fyrirtæki þá reyni ég að stýra því þannig að ég hafi góðan tíma á morgnana til að undirbúa daginn. Þannig að það er misjafnt hvenær ég vakna en oftast er ég að glenna upp augun upp úr 7.30 og stundum seinna eftir því hvað er framundan en ég verð seint talin morgunhani af mínum nánustu! Dagarnir geta verið fjölbreyttir þar sem ég er ýmist með skjólstæðinga á klíníkinu mínu í viðtalstímum og blanda jurtalyf eða halda fyrirlestra og námskeið fyrir hópa og fyrirtæki.
Þess á milli er ég á skrifstofunni minni heima þar sem ég vinn gjarnan að ýmsum verkefnum fyrir fyrirtækið mitt og les mig til í faginu mínu og endurmennta mig, sem veitir mér mikla ánægju.
Ég er algjör B manneskja og finnst mjög gott á kvöldin þegar allir eru komnir í ró að eiga smá auka tíma til að dunda mér eitthvað og fá að sofa eilítið lengur á morgnana þegar tækifæri gefst til.

Hvernig eru morgunvenjurnar?

Við erum með stórt heimili og erum með þrjú börn þannig oft mikið um að vera á morgnana að koma öllum út á réttum tíma í skóla og vinnu.
Þegar börnin eru farin í skólann þá finnst mér voða notalegt að gefa mér tíma í að borða góðan morgunmat og ég reyni að vera dugleg að næra mig með því að hafa fjölbreytni og breyta reglulega um morgunmat.

Ég byrja alltaf á volgu vatni en ég drekk nánast bara volgt vatn allt árið um kring og finnst það hafa góð áhrif á meltinguna. Svo geri ég mér gjarnan bláberja&möndluboost, kakó chia&quinoagraut, prótein pönnsur með tahini sesamsmjöri, glúteinlaust brauð með geitaosti og eplum, eggjahræru með spínati og ýmislegt fleira eftir því hvað mér langar í hverju sinni.
Ég er dugleg að nota lækningajurtir sem hluta af daglegu mataræðinu mínu og lauma gjarnan grænu jurtadufti í flesta boostana mína, set kanil, kakóduft, maca duft, kardimommur og aðrar góðar jurtir í grauta, nota turmerik, cayenne pipar og engifer út í safa, súpur og omelettur og fleira.

Ashwagandha jurtin og maca duft eru í miklu uppáhaldi og eru hvoru tveggja orkugefandi jurtir sem efla einnig taugakerfið og hjálpa okkur að standast betur streitu og álag og ég set þær í boostana mína.
Vinnudagurinn byrjar yfirleitt líka á góðu jurtatei sem ég helli oftast upp á sjálf úr þurrkuðum jurtum og ég nota alltaf lífrænar tejurtir. Ég er mjög hrifinn af matcha grænu te um þessar mundir og blanda gjarnan brenninettlu og piparmyntu saman við, gefur manni hæfilegan skammt af koffíni inn í daginn, brenninettlan er blóðhreinsandi og næringarrík og piparmyntan frískandi og góð fyrir meltinguna.
Mér finnst líka gott að drekka túnfífilsrótar te en það er jurt sem er hreinsandi fyrir lifrina og örvar gallblöðruna og meltingu en að mínu mati þurfum við flest hver að huga betur að lifrinni okkar og aðstoða hana við afeitrunarferlið með góðum jurtum.

Ég útbý oftast nær alltaf safa á kvöldin fyrir mig og manninnn minn til að nota milli mála í vinnunni, oftast einn grænan safa og einn rauðrófu/gulrótarsafa en það er mjög hressandi að drekka einn svona safa fyrir hádegi og einn seinni partinn enda stútfullt af næringarefnum.
Ég er algjör nestisfrík en vinkonur mínar gera gjarnan gys að mér því ég er alltaf með nesti með mér hvert sem ég fer og það leynist yfirleitt eitthvað hollustunasl í töskunni minni og alltaf eitthvað gott lífrænt dökkt súkkulaði sem getur nú stundum bjargað deginum.

Ég tek alltaf inn grunn bætiefni á morgnana og nota fjölvítamín/steinefni, acidophilus góðgerla, omega 3 ýmist úr fiskiolíu eða hörfræja- eða hampolíu, D vítamín yfir veturinn. Þetta er grunnurinn minn og svo bæti ég við eftir þörfum B vítamínum, arctic root, magnesíum, jurtablöndu o.fl. Ég reyni að hafa reglulega hreyfingu í rútínunni minni og mæti fyrir hádegi 2-4x í viku og er í góðum hóp kvenna sem hittist með leiðsögn þjálfara.
Best þykir mér ef ég næ stuttum göngutúr ca 20-30 mín áður en ég hendist í vinnuna eða strax eftir vinnu en göngutúrarnir mínir eru ómissandi og ég hef vanið mig á að fara í þá daglega, en þannig næ ég að hlaða batteríin og hreinsa hugann, fylla mig af fersku súrefni og fá dagsbirtu í kroppinn.

Hvernig heldurðu þessum venjum?

Það er auðvelt fyrir mig að viðhalda góðum venjum þegar ég finn að þær gera líkamanum mínum gott og þannig verða þær órjúfanlegur hluti af deginum mínum.

Ég hef mikinn áhuga á öllu sem viðkemur heilsu á einn eða annan hátt hvort sem það tengist mataræði, lífsstíl okkar, hreyfingu eða útiveru.
Svona í seinni tíð þá hefur áhugi minn á matjurta- og kryddræktun aukist en ég rækta töluvert af mínu salati og grænmeti sjálf en ég deili þessu áhugamáli með tengdapabba og höfum við verið með stóran matjurtagarð og gróðurhús síðustu sumur og fengið ríkulega uppskeru allt sumarið og langt fram á haust.
Það flæðir allt í grænum salatblöðum og jurtum allt sumarið í eldhúsinu mínu!

Mér er afar umhugað um að fólk læri að nota sjálft jurtirnar í nánasta umhverfi og njóti heilsueflandi áhrifa jurtanna í gegnum daglegt mataræði. Við eigum fjölmargar góðar lækningajurtir sem vaxa allt í kringum okkur á sumrin sem auðvelt er að tína.
Margar þær jurtir sem við teljum illgresi eru oft bestu lækningajurtirnar en jurtir eins og túnfífill, vallhumall, blóðberg, klóelfting, maríustakkur, ætihvönn, og birki vaxa víða og tilvalið fyrir okkur að nýta í mat eða drekka sem te okkur til heilsubótar.

Þeir sem vilja skrá sig á námskeiðið hjá Ásdísi geta sent henni póst á asdis@grasalaeknir.is eða bjallað í 899-8069 og fylgst með henni á www.grasalaeknir.is og www.facebook.com/grasalaeknir.is en þar deilir Ásdís gagnlegum fróðleik um allt sem viðkemur heilsu, mataræði og lækningajurtum.

IMG_5615

1 athugasemd

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.