Jóhanna S. Hannesdóttir er kraftmikil kona sem hefur mikla ástríðu fyrir heilsu og næringu. Hana má með sanni kalla blaðamann, garðyrkjubónda, þjóðfræðing, rithöfund, heilsubloggara og mömmu en hún gaf út fallega og fróðlega bók fyrir jól sem kallast 100 heilsuráð til langlífis. Við fengum að forvitnast um morgunvenjur hennar og fjölskyldunnar:
Hvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?
Á sumrin fer ég alveg extra seint að sofa – ég einfaldlega tími ekki að fara að sofa þegar það er svona bjart og fallegt úti. Fyrir skömmu var ég t.d. ein vakandi (fjölskyldan löngu sofnuð) og klukkan orðin meira en þrjú á virkum degi. Það var svo fallegt úti, birtan svo dásamleg og svo yndislegt að heyra í öllum fuglunum að ég fékk mig bara alls ekki að fara upp í rúm að sofa. Allan dimman og kaldan veturinn bíður maður eftir sumrinu og svo þegar það loksins kemur þá finnst mér hálfgerð tímasóun að sofa. Svefn er vissulega mikilvægur en það er líka mikilvægt að njóta náttúrunnar og fegurðarinnar.
Ég bý líka í sveit og sumarkvöldin í Sandvík eru engu lík. Ég elska að fara langa göngutúra út í Heiði og upplifa sumarið með öllum skilningarvitunum. Sveitakyrrðin er alveg einstök og stundum heyrir maður bæði í sjónum á Eyrarbakka og niðinn í Ölfusá þegar maður stendur á tröppunum heima.
Ég vakna venjulega við vekjaraklukkuna (sem er stillt eins seint og hægt er). Oft er snoozað 1-2x sinnum og svo er ræs – sem er oftast um hálf átta. En núna þegar öll fjölskyldan er komin í sumarfrí þá er bara vaknað þegar fólk er búið að sofa nægju sína. Sem er oftast upp úr klukkan níu.
Hvernig eru morgunvenjurnar?
Áður en ég opna augun þá reyni ég að muna eftir því að fara með stutta þakkarbæn í huga mér. Þakka fyrir nýjan dag. Þakka fyrir góða heilsu og góða fjölskyldu. Þakka fyrir lífið sem Guð gaf mér. Svo er sprottið á fætur eftir venjulega alltof lítinn nætursvefn. Elskulegur eiginmaður minn sér um að fara út með hundinn snemma á morgnana svo að hann fær að sofa 10 mín lengur eða á meðan ég vek börnin okkar tvö. Við fjölskyldan eru öll frekar miklar B manneskjur svo að það getur tekið smá tíma að koma öllum á fætur.
Síðan er haldið inn í eldhús og oftast er mitt fyrsta verk að kveikja á útvarpinu – á Svala og Svavar á K100. Ég nenni venjulega aldrei að hlusta á tal í útvarpinu en þeir eru svo skemmtilegir og jákvæðir að mér finnst mjög gott að byrja daginn með þeim. Og það er ekki bara ég sem elskar þá – öll fjölskyldan elskar að hlusta á þá á morgnana.
Á meðan börnin klæða sig græja ég morgunmatinn fyrir þau. Það eru venjulega ferskir ávextir og gróft ristað brauð (betra fyrir meltinguna). En svo koma reglulega hafragrautstímabil eða ab-mjólkur tímabil.
Síðan eru það allir drykkirnir. Ég (og eiginmaðurinn) byrjum alltaf daginn á að drekka volgt sítrónuvatn. Ég set einnig ½ tsk af MSM dufti í glasið ásamt 1 msk af lífrænu ósíuðu eplaediki + safann úr sítrónunni. Ég fylli svo glasið af volgu vatni (sirka 400ml) drekk og fylli það svo aftur. Með því að byrja daginn á að drekka vel af vökva þá er maður að gefa líkamanum gott start fyrir daginn. Allur þessi vökvi kemur líka hreyfingu á þarmana svo að maður er svolítið að skola út „skít gærdagsins“ með þessari morgunvökvun.
Eftir að hafa drukkið tvö stór glös af vatni þá fæ ég mér stóran bolla af brenninetlutei. Segja má að það sé fyrsti og elsti heilsusiðurinn minn. Ég byrjaði að drekka brenninetlute á morgnanna löngu áður en ég fór að drekka sítrónuvatnið. Það var árið 2007 þegar ég var nýbúin að lesa bókina You Are What You Eat eftir Dr. Gillian McKeith, en hún er sérlega hrifin af teinu en það er vatnslosandi, æðastyrkjandi, blóðhreinsandi, járnríkt, gott fyrir húðina og hárið – svo eitthvað sé nefnt. Þó að mér finnist sítrónuvatnið gera gæfumuninn á morgnanna þá gæti ég tæplega verið án brenninetlutesins.
Þessir tveir drykkir eru eitthvað sem ég drekk alla jafna á hverjum degi. Svo er misjafnt hvað ég drekk eða borða næst. Lang oftast bý ég mér einhvern saðsaman smoothie þegar líða fer að hádegi. Fram að því er ég að drekka alls konar vökva, rauðrófusafa, grænt duft (blandað í vatn) og jafnvel grænan djús líka ef ég er í stuði. Það hentar mér best að fasta fram að hádegi – borða enga fasta fæðu fyrr en í fyrsta lagi um ellefu leytið en drekka nóg af næringarríkum vökvum.
Smoothie-inn minn er aldrei nákvæmlega eins. Grunnurinn er þó oftast eitthvað grænt, eins og t.d. grænkál eða spínat, gúrka, engifer, heil sítróna (fullt af næringu í sítrónuberkinum – ef hann er lífrænn), engifer og einhverjir ávextir – langoftast frosin ber. Ég set svo alls konar ofurfæðu út í smoothie-inn, eins og t.d. chiafræ og hempfræ, acaiduft, macaduft, frostþurrkað kókosvatn, ashwagandha og ýmislegt annað. Mér finnst mikilvægt að breyta til að drekka ekki alltaf það sama.
Þó að smoothie-inn verði oftast fyrir valinu sem „fyrsta máltíð dagsins“ þá finnst mér líka gott að fá mér reglulega Morgunmat fyrir ofurhetjur. Hann samanstendur af glútenfríu haframjöli, chiafræum, hempfræum, kanil, vanillu, mönldumjólk og ýmsu öðru góðgæti. Þá set ég þetta allt í krukku kvöldið áður, hræri vel með skeið, set lokið á og geymi í ísskápnum yfir nóttina. Eftir nóttina eru chiafræin búin að þenjast út og hafrarnir orðnir mjúkir og góðir – alveg fullkomið til að borða.
Það eru ákveðin fæðubótarefni sem ég reyni að taka alltaf inn, það er fjölvítamín, D-vítamín, omega 3 og svo góðgerlar. Það er alveg merkilegt hvað góðgerlarnir hafa mikil og góð áhrif á meltinguna, húðina og svo lundina.
Fyrir utan drykkina og fæðubótarefnin þá er olíumunnskolun (e. oil pulling) hluti af minni morgunrútínu. Olíumunnskolun hefur margvíslegan ávinning en fyrst og fremst styrkir hún tennurnar, gerir þær hvítari, hreinsar munninn vel og bætir andardráttinn. Eftir olíumunnskolunina nota ég svo sérstaka tungusköfu sem hreinsar tunguna vel. Mér finnst almenn munnumhirða skipta mjög miklu máli en það hefur verið sýnt fram á bein tengsl milli tannheilsu og almennrar heilsu.
Oftast geri ég ekki olíumunnskolun fyrr en börnin eru farin í skólann og eiginmaðurinn í vinnuna. En um helgar þegar allir eru heima þá geri ég olíumunnskolun fljótlega eftir sítrónuvatnið og fæ mér svo brenninettluteið að skoluninni lokinni.
Fyrir hádegi reyni ég að stunda einhverja heilsurækt, eins og t.d. að fara í sund (ekki til að synda, bara til að slaka á, aðallega í gufunni), út að labba (oft með góðri vinkonu) eða gera jógaæfingar á stofugólfinu heima. Jóga er þó orðið svo miklu meira fyrir mér en einhverjar æfingar á dýnu. Fyrir mér er jóga að kyrra hugann, ná að einbeita sér algjörlega og vera akkúrat hér og nú en ekki einhvers staðar annars staðar – eins og oft vill verða í nútíma þjóðfélagi. Þegar ég labba út í Heiði á kvöldin þá sest ég venjulega á þúfu áður en ég sný aftur heim og horfi á landslagið á meðan ég hlusta á fuglana og ána og anda að mér flóru landsins. Það er uppáhalds jógað mitt.
Ég les líka venjulega í einhverri góðri bók á morganna. Ég er mikið fyrir að lesa „andlegar bækur“ í bland við heilsubækur sem fjalla um mat og næringu. Venjulega er ég að lesa 2-3 bækur í einu og hlusta svo á hljóðbækur þegar ég fer í bað. Ég er með óslökkvandi þorsta í heilsufróðleik og því meira sem ég læri því betur sé ég hvað andlega heilsan skiptir gríðarlega miklu máli. Það er ekkert nóg að borða bara rosa hollt og hreyfa sig brjálæðislega mikið og halda að maður sé þá í svaka góðum málum. Að hlúa vel að andlegri heilsu, kunna að slaka á og afstressa sig, er mjög mikilvægt. Og um leið og það fer að vera einhver kvöð að hugsa um heilsuna, þú ert t.d. of fastur í einhverri heilsu-rútínu eða þú verður of upptekinn af því hversu „hreinn“ maturinn er, þá fer þetta að snúast upp í andhverfu sína.
Hvernig heldur þú í þessar venjur?
Það má segja að þessar morgunvenjur haldi í mig. Ég finn t.d. mun á mér ef ég byrja ekki daginn á að drekka vel af vatni eða sleppi tebollanum (t.d. ef ég er á ferðalagi). Eins ef ég sleppi MSM duftinu í sítrónuvatnið.
Líkaminn okkar er svo klár og lætur okkur alltaf vita ef við þurfum að hugsa betur um okkur á einhvern hátt. Áskorunin er fyrst og fremst fólgin í því að hlusta á líkamann – ekki hunsa það sem hann er að reyna segja okkur, hvort sem það er síþreyta, léleg melting, þurrt hár, slæm húð eða eitthvað allt annað.
Ef ég byrja daginn vel – vökva mig vel og næri mig vel með heilnæmri fæðu og fallegum hugsunum – þá verður restin af deginum í takt við það eða alveg frábær.
Ég reyni þó að vera ekki fanatísk á þessar morgunvenjur mínar. Maður þarf að kunna að slaka mátulega á. Stundum hef ég t.d. engan tíman í eitthvað dúllerí á morgnanna og gríp með mér banana á leiðinni út. Að byrja daginn á volgu vatni (þó að það sé ekkert í því) er þó orðið jafn sjálfsagt hjá mér og að bursta tennurnar. Maður kemst alltaf í vatn einhvers staðar – líka í útilegum.
Morgunvenjur mínar breytast þó nokkuð reglulega þó að þær séu oftast svipaðar í grunninn. Hluti af því að hafa áhuga á heilsu er að vera tilbúinn að prófa nýja hluti. Þjóðfræðingurinn í mér er líka svo mikið að skoða málin frá öllum hliðum, skoða öll heilsu-sjónarhornin frá hinum og þessum fræðingum og læknum. Þjóðfræðingurinn er líka sífellt að rannsaka. Rannsaka hvað sé að virka og hvað ekki. Og eins og með svo margt annað þá veit maður ekki nema maður prófar!