Maríu S. Hólm Halldórsdóttir þekkja flestir Hot Yoga aðdáendur Íslands sem Maríu Hólm, en hún er í fullu starfi sem jógakennari hjá Sólum, nýja jóga og heilsusetrinu á Granda. Hún hefur kennt jóga síðan 2012 þegar hún lærði hjá jógakennaranum Jimmy Barkan (sem heldur námskeið næstu helgi á Íslandi) og hefur mikla ástríðu fyrir jóga. Hún hóf að kenna með fullu starfi á skrifstofu, enda menntuð í ensku og alþjóðasamskiptum, en stökk svo út í djúpu laugina í byrjun 2014 og ákvað að gera jóga að sínu aðalstarfi. Hún hefur tekið tvö stig í hjá Jimmy Barkan, samtals 300 tímar auk þess að hún bætti við sig 200 tímum til viðbótar hjá Matý Ezraty hjá Yoga Works síðasta sumar.
Hvenær og hvernig vaknar þú á morgnanna?
Vakna venjulega um 6 á morgnana. Hugleiði í 15-20 mín og fer með jákvæðar staðhæfingar til að starta deginum. Finnst mikilvægt bæði með hugleiðslunni og staðhæfingunum að setja “tóninn” fyrir daginn 🙂
Hvernig eru morgunvenjurnar?
Morgunmaturinn er glas af vatni og Smoothie. Mismunandi hvaða stemming er í smoothinum…. ávaxta eða grænn, fer eftir því hverju ég er með æði fyrir hverju sinni. Bæti alls konar góðgæti út í smoothie dagsins, eins og til dæmis Chia fræjum, Maca dufti, hörfræolíu og Goji berjum. Ef ég er með grænan skelli ég hveitigrasdufti til viðbótar. Góður kaffibolli setur svo punktinn yfir I-ið.
Hvað hjálpar þér að halda þessum venjum?
Það sem hjálpar mér að halda þessum venjum er klárlega jóga og sá lífstíll sem tengist jóganu. Ég finn hvað mér líður miklu betur ef ég held mér í rútínu og ef ég byrja daginn vel þá á ég auðveldara með að mæta deginum, og því sem hann færir mér. Ég er svo heppin að mér finnst ég í raun aldrei mæta í vinnuna, og það eru stórkostleg forréttindi að fá að starfa við það sem ég elska. Það er ekki nóg að sá fræjunum, það þarf líka að sinna þeirri uppskeru sem við fáum í lífinu. Ef ég hætti að iðka það sem lætur mér líða vel þá er ég fljót að finna fyrir því. Alveg eins og maka-, vina- eða fjölskyldusamböndum þá þurfum við að rækta samband okkar við okkur sjálf, og hugleiðslan ásamt jóganu er stór þáttur í því fyrir mig.