Morgunvenjur Unu Emilsdóttur

Una Emilsdóttir er 28 ára læknanemi, uppalin í Garðabænum en búsett í Danmörku. Hún hefur alla tíð haft gríðarlegan áhuga á heilsu og hollu mataræði, sem er frá móður hennar komið, en hún kenndi henni snemma að meta mátt náttúrunnar.

Eftir 2 ár í heilbrigðisverkfræði í HR leiddi þessi áhugi hana í læknisfræði við Kaupmannahafnarháskólann í Danmörku. Þessa stundina er hún þó búsett tímabundið á Íslandi að vinna að kandídatsverkefninu sínu, sem er innan hjartalækninga. Næst á döfinni hjá þessari kröftugu ungu konu er hjartalækningaráðstefna í Tallin, Eistlandi, þar sem verkefnið hennar verður kynnt.

Una kynntist nýlega þýskum sérfræðingum á sviði krabbameinslækninganna og lærði hjá þeim ótal margt um hvað ber að gera til að verjast sjúkdómnum, t.d. með því að varast ákveðið mataræði, borða ákveðna sjúkdómshamlandi fæðu og passa að manni vanti ekki ákveðin lykilefni í líkamann. Alveg ótrúlega dýrmætar upplýsingar sem er erfitt að komast í. Hún ætlar því að halda fyrirlestur í Lifandi Markaði 30 júní n.k kl 17:30 – til að dreifa boðskapnum og kenna vinum, fjölskyldu og áhugasömum það mikilvægasta sem hún lærði.

Hvernig og hvenær vaknar þú á morgnanna?

Ég get nú ekki montað mig af því að vera morgunhani! Ég er bölvaður nátthrafn og sef því út við hvert tækifæri. Það er alfarið stundaskráin sem ræður því hvenær ég vakna. Eitt sinn var ég í starfsnámi á spítala í Danmörku, þar sem ég átti að vera mætt kl. 07:50 á morgunfund og hjólatúrinn þangað var u.þ.b. 45 mínútur. Það þýddi “RÆS” kl.06 á hverjum degi – vont en það vandist nú ágætlega. Ég minnist þó morgunstundanna frá því að ég tók starfsnám á Landspítalanum vorið 2014, þá flutti ég aftur í hreiðrið til mömmu og pabba og við vöknuðum saman 06:45 á hverjum morgni, gerðum smoothie sem við drukkum svo saman í bílnum á meðan mamma keyrði mig upp á spítala. Gæðastund af bestu gerð.


IMG_3225Hvernig eru morgunvenjurnar?

Ég tek tímabil í morgunvenjum. Ég byrja alltaf á því að fá mér volgt vatn í sítrónu (og skola svo munninn vel með vatni, sýran fer ekki vel með glerung tannana) og svo lýsi eða aðra olíu. Ég tek einnig tímabil í fæðubótaefnum, þar má helst nefna C- og D-vítamín, magnesíum, niacin (B3), zink og acidophilus.

Um tíma fékk ég mér alltaf hreint skyr með eplabitum, valhnetum og Acai dufti í morgunmat. Nú hef ég þróað með mér nýjar venjur til að minnka neyslu á mjólkurvörum. Ég fæ mér reglulega Chia graut: hræri 2-3 msk af chia fræjum í lífræna möndlumjólk og bæti út í rúmlega teskeið af hreinu ósykruðu kakói, lífrænu vanilludufti og möndlusmjöri. Út í þetta brytja ég svo valhnetur.

Þegar ég hef tíma, geri ég smoothie á morgnanna. Það er ýmist berja-, súkkulaði- og banana eða “grænt og vænt” þema. Grunnuppistaðan er avókadó, möndlumjólk, vatn, hör- eða hempfræ, hörfræolía, möndlusmjör eða apríkósusteinasmjör (ríkt af B17), stundum Maca duft eða æðislegt duft sem heitir ‘Life Drink’ frá Terra Nova og inniheldur fjöldan allan af dásamlegum, lífrænum bætiefnum. Svo nota ég einfaldlega það sem er ísskápnum; engifer, sítrónu, agúrku, basiliku o.fl.

Til að toppa þessa dásemd fæ ég mér kaffi með kókosolíu þegar ég hef tíma, en það eru líka algjörir prinsessustælar!

Hvernig heldur þú í þessar venjur?

Það er einfaldlega hugarfarið sem ég hef tileinkað mér – ég met heilsuna svo mikils. Það er svo dýrmætt að vera hraustur og þegar maður er mikið inni á spítala fær maður stanslaust áminningu um það, að maður á að vera þakklátur fyrir lífið og passa upp á líkama og sál eins og maður mögulega getur! Monika, stóra systir mín, kynnti mig fyrir þessari svokölluðu “núvitund”. Mér finnst það alveg frábært hugtak sem ég reyni að muna á hverjum degi. Það hvetur mig til að brosa, njóta og sækjast eftir hamingjunni og staðreyndin er einfaldega sú, að hollt mataræði er lykillinn að góðri líðan, svo þetta helst allt saman í hendur.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.