Systurnar í Systrasamlaginu eru með puttann á púlsinum enda í miðri hringiðu jóga- og hugleiðsluiðkunnar í litlu búðinni á Seltjarnarnesi. En sú verslun var nýlega valin Fyrirtæki ársins á Nesinu fyrir áherslur sínar á umhverfisvernd. Um leið og þær skynja mýktina og dýptina sem liggur í loftinu sjá þær andann koma sterkar inn en nokkru sinni.
Hér varpa þær fram heitustu jóga- og hugleiðslu hausttrendunum 2015:
Yin jóga
Kemur úr Táóískri hefð (sem Laxness laumaði m.a. inn í Brekkukotsannál, þó ekki jóganu heldur hugmyndafræðinni). Þessi hefð beinir athyglinni að hlutleysinu, sitjandi stöðum, þar sem markmiðið er að losa um bandvef í mjöðmum, grindarholi og neðsta hluta mænu. Stöðunum er haldið allt frá einni til tíu mínútum. Markmið Yin jóga er að auka liðleika og losa um tilfinningar sem setjast að á þessu svæði, og sleppa þeim lausum. Þetta er að sama skapi dásamleg leið til að róa hugann og læra grundvallaratriði hugleiðslu. Sem slíkt er Yin jóga líka gott fyrir íþróttafólk til að losa um spennu og liðka liði sem hafa verið undir miklu álagi. En líka sannarlega gott fyrir þá sem þurfa að ná að slaka betur á.
Yin jóga er m.a. kennt í Yogavin, Sólum, Yogashala, hjá Gyðu Dís og víðar í vetur.
Endurnærandi jóga
Endurnærandi (Restorative yoga) er að okkar mati allra forvitnilegasta jógategundin sem er að bætast stundatöflur jógasetra um allan heim. Það gengur allt út á að sefa huga og líkama í gegnum einfaldar jógastöður sem oft er haldið í 20 mínútur. Með hjálp aukahluta eins og allskyns púða, kubba, augnhlífa og jógabanda nær fólk gjarnan fullkominni slökun. Að mörgu leyti líkt Yin jóga en þó með minni áhersla á liðleika og meiri á slökun og losun. Líka sérlega gott fyrir þá sem eru stífir og vilja gefa algerlega eftir. Ekta föstudagsjóga eftir erfiða vinnuviku.
Endurnærandi jóga verður m.a. kennt í Jógasal Ljósheima í vetur og tilbrigði við það er að finna í Jógastúdíói á föstudögum.
Jóga nidra
Jóga nidra miðar að því að við náum djúpu slökunarástandi. Í tímum er slakað á öllum vöðvum líkamans en vitundinni haldið vakandi. Talið er að þannig náum smám saman að leysa upp erfiðar tilfinningablokkir og hugsunarmynstur. Nidra þýðir svefn en ólíkt svefni er um að ræða meðvitaða djúpa slökun sem er handan skilningarvitanna og þannig einnig handan streitu. Jóga nidra róar svo sannarlega taugakerfið og eflir getu okkar til að bregðast við ólíkum kringumstæðum í lífi okkar með jafnaðargeði.
Jóga nidra er m.a. kennt í Yogavin, Sólum, Yogasmiðjunni og Jógasetrinu.
Hugleitt í vatni með aðstoð Flothettunnar
Ekki síst er það alíslenska flothettan sem gerir okkur kleift að hugleiða í þyngdarleysi í vatni. Eitt það allra besta við reglulegt flot af þessu tagi er alger slökun og það að hægt sé að ná stöðugu svokölluðu þeta (theta) ástandi á skömmum tíma ( sama ástandi og munkar ná eftir margra ára hugleiðsluþjálfun). Saman draga vatnið, slökunin og hugleiðslan, úr streitu og efla vellíðan. Flothettan er enda frábær hönnun sem sprottin er upp úr okkar miklu vatnsauðlegð og –menningu. Við þreytumst aldrei á að segja að Flothettan sé trúlega stærsta gjöf Íslands til jóga- og hugleiðslu umheimsins.
Samflot er nú stundað í mörgum af skemmtrilegri sundlaugum landins. Þar á meðal Sundlauginni á Seltjarnarnesi sem reið á vaðið, en einnig í Breiðholtslaug, Árbæjarlaug, Salarlaug, Lágafellslaug, Sundlaug Garðabæjar og Sundlaug Akureyrar. Ennfremur verða haldin regluleg Sveita-Samflot í samvinnu okkar (Systrasamlagsins) og Float í vetur. Það næsta er á dagskrá í Gömlu lauginni á Flúðum 12. september n.k.
Annað mjög áhugavert í vetur sem mjög líklega vex og dafnar með lækkandi sól:
Jógadans undir lifandi tónlist
Margir íslenskir jógar eru nú þegar að uppgötva töfra tónlistar og dans við iðkun sína. Að tónlist & dans geti dýpkað jógaiðkun og örvað fleiri skilningavit. Við megum þó alls gleyma Kirtan dansi sem stundaður hefur verið undir lifandi tónum lengi hér á landi. Og svo er það hin Kosmíska dansmessa sem DansAndi stendur reglulega fyrir og inniheldur allt í senn dans, Kirtan, jóga, tónheilun og lifandi tónlist. Nýlega hóf svo jógastöðin Sólir að bjóða upp á hressilegan og nærandi jógadans með DJ Margeir; Alvöru jógadjamm sem var svo vel heppnað að engin vafi leikur á að verði reglulega á næstu misserum.
Gong- og tónheilun
Gjarnan er talað um að hið heilaga Gong opni nýjar víddir innra með okkur. Við séum jú öll hljómur eða tíðni, eins og alheimurinn og sagt er að Gongið sé það hljóðfæri sem endurspegli það best. Ennfremur er að aukast að notast sé við t.d. tíbetskar skálar, kristalla og fleira sem gefur, nærir og dýpkar í jógatímum.
Gong slökun verður reglulega í Jógastöð Ljósheima í vetur ennfremur sem Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir mun sjálfsagt halda áfram að birtast á ólíklegustu stöðum með sitt eigið Gong. Sú sem hefur þó líklega stúderað tónheilun hvað mest hér á landi er Þórey Viðars sem gjarnan notast við hin ýmsu hljóðfæri í endurnærandi jógatímum sem hún kennir í Jógastúdíói á föstudögum.
Fyrirtækjajóga
Til marks um mýkri tíma hafa mörg stærri fyrirtæki innleitt jóga og hugleiðslu sem hluta af fyrirtækjamenningu sinni. Þekktasta dæmið er líklega Google. Við höfum jafnframt fengið fregnir af því að íslenskum fyrirtækjum sem fá reglulega til sína jóga- og hugleiðslukennara fari fjölgandi. En hvort sem sú þjónusta er í boði eða ekki er margt endurnærandi hægt að gera skrifborðið, eða hvar sem þú ert stödd/eða staddur í fyrirtækinu. Það má alltaf finna leið til að staldra við og endurnýja orkuna með öndun eða meðvituðum hreyfingum. Smá breik í vinnunni dregur úr streituhormónum, gefur skýrleika og sannarlega meiri þrótt, sem við hljótum öll að sækast eftir.