Ef einhver er á þeirri skoðun að hlaup séu einhæf og leiðinleg þá hefur sá hinn sami líklega ekki kynnst utanvegahlaupum. En hvað eru utanvegahlaup? Oftast er talað um „trail“ hlaup á ensku en á íslensku er orðið utanvegahlaup oftast notað til að lýsa þessari tegund af hlaupum. Það má segja að utanvegahlaup séu hlaup sem eru nær eingöngu hlaupin utan malbiks eða á öllu undirlagi sem er ekki er ætlað til aksturs eða gangstéttir. Hvað þýðir það? Jú þessi hlaup eru ekki beinlínis slétt og fín, heldur ójöfn og oft grýtt. Það sem einkennir utanvegahlaup helst eru þröngir stígar en orðið „trail“ þýðir einmitt gönguleið. Einnig má búast við því að utanvegahlaup séu flest hæðótt og stundum er farið yfir hæðir og hóla en í þeim erfiðustu þarf að klífa heilu fjöllin.
Að fara upp brekkur vex mörgum í huga en það finnst mér þó eitt það skemmtilegasta við hlaupin. Það krefst jú þjálfunar að geta hlaupið upp þær bröttustu en í utanvegahlaupunum er mjög algengt að fólk gangi brekkurnar upp rösklega og ekki nema þeir fremstu sem ná að hlaupa þær allar upp. En þegar maður er kominn upp þarf iðulega að komast aftur niður og það er sko skemmtilegt. Hins vegar gleyma margir að þó að það sé auðvelt fyrir lungun að hlaupa hratt niður þá taka niðurhlaup oft gríðarlegan toll af lærisvöðvunum að framan.
Það sem mér finnst skemmtilegast við utanvegahlaupin fyrir utan það að kynnast nýjum stöðum og náttúru er tæknilega hliðin. Maður týnir sér í fjölbreyttu umhverfi og hættir að hugsa eingöngu um hraða og að halda sama stíl. Oft takmarkar undirlagið hraðann og þá koma inn tæknileg atriði sterk inn eins og jafnvægi og snörp fótavinna. Utanvegahlaup reyna á fleiri vöðva í einu en þegar maður hleypur á sléttu malbiki og því getur alls kyns krossþjálfun gagnast utanvegahlaupurum mikið.
Nokkrir punktar fyrir byrjendur í utanvegahlaupum:
- Ekki bara hugsa um hlaupin heldur njóttu náttúrunnar í leiðinni!
- Finndu taktinn og hlustaðu á öndunina en ekki láta þér bregða þó að púlsinn rjúki stundum upp, það er eðlilegt í ójöfnu landslagi. Hann jafnar sig aftur þegar þú kemst aftur á slétt undirlag eða þegar þú hleypur niður.
- Utanvegahlaup eru oft haldin nálægt hálendi landsins og því má búast við snörpum veðrabreytingum. Hafðu alltaf með þér góðan jakka, húfu og vettlinga.
- Minnkaðu skrefin þegar þú ferð upp brattar brekkur, notaðu kraftinn úr rassinum og mjöðmum til að ýta þér upp. Sumum finnst gott að halla sér aðeins fram og jafnvel setja hendur á læri.
- Reyndu að horfa sem minnst beint niður á tærnar þegar þú hleypur því þá er líklegra að þú dettir ef þú veist ekki hvað er framundan. Horfðu frekar nokkra metra fram fyrir þig og vertu viðbúin þegar þú þarft að hoppa yfir grjót eða tré.
Útbúnaður fyrir utanvegahlaup:
- Skór – Venjulegir götuhlaupaskór duga vel í styttri utanvegahlaup eða mjúka stíga, hins vegar getur verið gott að fjárfesta í sérstökum „trail“ hlaupaskóm ef þú ætlar að einblína á utanvegahlaup. Þeir eru með grófari botni sem grípa betur í drullu, möl og platan yfir tærnar ver þig fyrir grjóti. Betra er að hafa skóna vel rúma fyrir löng hlaup í ójöfnu landslagi.
- Klæðnaður – Þessi sami og þú hleypur vanalega í en vertu þó ekki í fötum sem þú vilt ekki skíta út í drullu eða fá göt á.
- Hlaupabakpoki – Á lengri hlaupatúrum eða keppnum getur verið gagnlegt að hlaupa með bakpoka. Í honum getur þú borið meira af vökva, hlífðarfatnað, nesti og öryggisbúnað ef við á.
Það sem einkennir íslenskt hlaupasumar er gríðarlegur fjöldi utanvegahlaupa. Fyrir marga er erfitt að velja og oft eru nokkur haldin sama daginn. Hér að neðan eru nokkur skemmtileg en ólík utanvegahlaup sem bjóða upp á vegalengdir fyrir alla:
- Mt. Esja Ultra 21. júní – Vegalengdir fyrir alla, byrjendur og vana fjallagarpa upp og niður Esjuna. Kosið hlaup ársins 2012 og utanvegahlaup ársins 2013 á Hlaup.is
- Jökulsárhlaupið 9. ágúst – Hlaupið frá Dettifoss niður í Ásbyrgi en byrjendur geta einnig valið styttri vegalengdir.
- 7 Tinda hlaupið í Mosfellssbæ 30. ágúst – Hlaupið yfir hæðir, hóla, fell og fjöll Mosfellssveitar en tindarnir eru mismargir eftir vegalengdum.