Þegar ég byrjaði fyrst að iðka yoga var ég í krefjandi dansnámi erlendis. Samkeppnin og líkamleg og andleg áreynsla einkenndi námið og fannst mér þar af leiðandi frábært að fara í yoga og kúpla mig aðeins út, slaka á og njóta þess að beita líkamanum öðruvísi. Mér fannst frábært að gera yoga æfingar samhliða dansinum og tók ég eftir því hversu jákvæð áhrif yoga hafði á andlegu hliðina sem hafði einnig áhrif á hvernig ég beitti líkamanum.
Dansinn gerði mér kleift að komast auðveldlega inn í lang flestar yogastöður þar sem ég var bæði liðug og sterk. Þegar ég byrjaði að stunda yoga fór ég í stöðurnar og hugsaði með mér að þetta væri nú ekki mikið mál. Ég tók hins vegar eftir því að kennarinn var oft að koma og laga mig og sagði mér að fara ekki svona djúpt og að ég ætti frekar að finna stöðuna, láta hana koma innan frá. Ég var lengi að átta mig á því hvað hún átti við með því og skildi ekki af hverju ég mátti ekki bara fara eins djúpt og ég gat inn í stöðuna og leyfa liðleikanum að njóta sín.
Með tímanum áttaði ég mig á því hvað hún var að tala um. Yoga snýst ekki um að þóknast egó-inu og keppa um að fara eins langt inn í stöðurnar og hægt er. Yoga snýst heldur ekki um að sýna öllum í salnum hvað þú ert liðug/ur og allra síst að hafa það að markmiði að vera best/ur í salnum. Margir sem byrja að iðka yoga hafa þann eiginleika að vera liðugir og sterkir. Það getur svo sannarlega haft sína kosti þar sem það hjálpar til við að komast inn í stöðurnar og það verða færri líkamlegar hindranir. En það er mjög auðvelt að detta í þá gryfju að halda að hámark stöðunnar hafi verið náð og ekki sé hægt að fara lengra inn í hana. Það er nefnilega ekki þannig. Líkamleg staða kemur þér einungis hálfa leið þar sem það er svo margt annað sem skiptir líka máli til þess að fara dýpra.
Yoga er líkamleg, huglæg og andleg ræktun sem iðkuð er í gegnum stöður (asana), öndun (pranayama) og hugleiðslu (meditation). Þar af leiðandi er yoga svo miklu meira en einungis líkamlegar stöður. Í yoga ertu þú að bæta líkama og sál og leitast eftir því að finna líkamlegt og andlegt jafnvægi. Sem betur fer erum við öll ólík en við eigum það sameiginlegt að geta öll iðkað yoga hvort sem þú sért stirð/ur eða liðug/ur. Ekki láta stirðan líkama stoppa þig í að iðka yoga þar sem það er ekki til einn réttur líkami fyrir yogaiðkun. Hafðu það hugfast að þú ert að gera yoga fyrir þig og engan annan. Forðastu samkeppni, neikvæða gagnrýna hugsun og ekki láta egó-ið taka yfir. Að lokum mundu að það er alltaf hægt að fara lengra – ef ekki líkamlega þá andlega.
Practice and all is coming – Sri K Patthabi Jois.