Öðruvísi og ævintýraleg tjaldsvæði

TEXTI Dýrfinna Guðmundsdóttir
MYND María Kjartans

Sumir segja að við séum óheppin að hafa svona „stutt“ sumar á Íslandi en við hjá Í boði náttúrunnar höfum jákvæðnina að leiðarljósi og teljum að við séum heppin. Færri sumardagar gefa okkur nefnilega tækifæri til að nýta þá til hins ítrasta og njóta hverrar stundar. Þá er tilvalið að ferðast um fallega landið okkar og upplifa náttúruna í allri sinni dýrð þessa fáu sumardaga.

Hér á landi er að finna fjöldan allan af tjaldsvæðum og okkur langar að deila með ykkur nokkrum slíkum sem við teljum vera einstök og ævintýraleg. 

 

VESTFIRÐIR

ÓFEIGSFJÖRÐUR
Tjaldsvæðið er á gömlu grónu túni. Í Ófeigsfirði endar vegurinn sem gerir tjaldbúum kleift að gista á hálfgerðu jaðarsvæði siðmenningar og ósnortinnar náttúru. Á svæðinu má finna skemmtilegar gönguleiðir sem einkennast af friðsæld og náttúrufegurð.
Ófeigsfjörður, Árneshreppi
852 2629

MELANES
Á fallegu grænu túni sem liggur við sandinn er að finna þetta afskekkta tjaldsvæði á Rauðasandi. Frá tjaldsvæðinu er dásamlegt útsýni að Látrabjargi auk þess sem iðandi dýralíf og náttúra er allt í kring. Skemmtilegar og miserfiðar gönguleiðir liggja frá tjaldsvæðinu m.a. að eyðibýlinu Sjöundá og að vitanum Skor. Einnig er hægt að panta selaferðir út á sandinn frá tjaldsvæðinu, með fyrirtækinu Westfjords Adventures. Einstök upplifun að fara í útilegu á þessu fallega svæði.
Melanes, Rauðasandi
565 1041

HEYDALUR Í MJÓAFIRÐI
Í Heydal kennir ýmissar grasa. Boðið er upp á gistingu af ýmsu tagi en þar er einnig að finna notalegt tjaldsvæði sem liggur að Heydalsá. Þar er sérlega friðsælt, langt frá allri bílaumferð í fallegum dal. Handan Heydalsá er heitur náttúrupottur auk þess sem litla innisundlaug er að finna í gróðurhúsi og heitir pottar þar fyrir utan. Allir gestir Heydals hafa frjálsan aðgang að aðstöðunni gegn vægu gjaldi. Einnig er góður veitingastaður á svæðinu sem leggur upp úr hráefni af svæðinu.
Heydalur, Mjóafirði
456 4824
www.heydalur.is

 

VESTURLAND

LANGAHOLT
Á sunnanverðu Snæfellsnesi er að finna dásamlega náttúruperlu við sjóinn þar sem töfrandi sjávarniður syngur þig í svefn svo þú vaknar endurnærð/ur. Ljós fjaran er uppspretta endalausra ævintýra þar sem finna má allskonar marglita óskasteina og ef hlýtt er í veðri getur verið gaman að vaða í sjónum. Útsýnið samanstendur af tignarlegri fjallasýn og Snæfellsjökli í allri sinni dýrð.
Garðar Staðarsveit, Snæfellsnesi
435 6789
www.langaholt.is

 

NORÐURLAND

HRÍSEY
Tilhugsunin að fara á báti út í litla eyju og tjalda hljómar eitthvað ævintýralega. Tjaldsvæðið í Hrísey er staðsett í miðju þorpinu við sjóinn. Stutt er í allt hvort sem fjaran heillar, sjósund, sundlaug eða gönguferð um þorpið og eyjuna. Munið að koma við í orkulundinum og hlaða batteríin.
Hrísey í Eyjafirði
461 2255

HVALVATNSFJÖRÐUR – Í FJÖRÐUM
Eftir hoss og hristing á malarvegi opnast þetta ótrúlega einskismannsland við Hvalvatnsfjörð. Þar er að finna flöt sem hægt er að tjalda á og kamar en annars er hægt að vera algjörlega einn í heiminum. Í Fjörðum er vinsælt að ganga í fallegri náttúru um firðina og Látraströnd. Tjaldsvæðið opnar í júlí og þangað er ráðlagt að fara ekki á fólksbílum.
Í Fjörðum
Vegur F839

 

SUÐURLAND

ÞAKGIL 
Tjaldsvæðið í Þakgili er falin perla á Höfðabrekkuafrétti milli Mýrdalsjökuls og Mýrdalssands. Ótrúleg veðursæld og stórbrotin náttúra einkennir staðinn sem er staðsettur 15 km frá þjóðveginum og fært þangað á öllum bílum. Ævintýralegt er að snæða í matsalnum sem er náttúrulegur hellir og fara síðan í göngu eftir þeim ótal gönguleiðum sem er að finna um svæðið.
Höfðabrekkuafrétti, Vík
893 4889
www.thakgil.is