Í upphafi árs er gjarnan litið yfir farinn veg og um leið spáð í framtíðina. Margir ákveða að taka upp betri lífsstíl, hreyfa sig meira og borða hollan mat en þrátt fyrir fögur fyrirheit eru ófáir sem gefast upp og falla fljótt í sama gamla farið. En hvað er þá til ráða? Okkur hjá Í boði náttúrunnar lék forvitni á að fá svar við þeirri spurningu í nýjasta tölublaðinu og ræddum því við Guðna Gunnarsson hjá Rope Yoga setrinu sem deildi einnig með okkur tveimur æfingum sem allir geta gert heima í stofu. Við deilum nú með ykkur annarri æfingunni hér á vefnum sem er ansi góð en mælum með að þið lesið viðtalið við Guðna í nýja blaðinu.
Ofurhugaæfing (Super brain yoga):
Þessi æfing er góð fyrir fótleggina sem er undirstaða þinnar tilvistar, hugann og einbeitinguna
Gríptu í eyrnasneplana með hægri hendina fyrir framan þá vinstri, með þumallinn fyrir framan eyrað og vísifingur fyrir aftan. Stattu með góða axlabreidd á milli fótanna og leyfðu rassinum að síga í átt að hælunum hægt og rólega á meðan þú andar inn. Haltu hnjánum aftan við tærnar og leyfðu rassinum að síga eins djúpt og þú getur. Stattu í hælana allan tímann. Lyftu þér svo beint upp, með þungann á hælunum, á meðan þú andar rólega frá þér. Endurtaktu fimmtán sinnum eða eins oft og þú getur. Þessi æfing virkjar stærstu vöðva líkamans, minnkar stress og eykur orkuflæði. Með því að fara með hendur í kross og halda í eyrnasnepla virkjar þú hægra og vinstra heilahvelið, sem örvar sköpunargáfu og eykur einbeitingu. Mjög gott fyrir þá sem eru með athyglisbrest.