Heimagert páskaskraut

Það er skemmtilegt að föndra fyrir páskana. Mig hefur lengi langað til að lita egg og ákvað ég að lita með því sem til var á heimilinu.

Það sem ég notaði:

  • Hvít egg
  • Túrmerik
  • Villiberja-te frá clippers
  • Bláber
  • Rauðbeður
  • Vatn
  • Gúmmíteyjur
  • Krukkur
  • Blóm og smáar greinar til að skreyta með

AÐFERÐ

Niðurskornar rauðbeður, túrmerik og bláber soðið allt í sitthvoru lagi, 1 bolli á móti 3 bollum af vatni hvert. Vökvinn síaður frá og látinn kólna í krukku. Fyrir teið hellti ég upp á venjulegan tebolla, beið eftir að vatnið kólnaði og leyfði te pokanum að liggja með allan tíman í vökvanum.

Þá sauð ég eggin og lét þau kólna.

Eggin skreytti ég þá með blómum og smáum greinum af plöntum á heimilinu. Gróðurinn var svo festur með 2 gúmmíteygjum lagðar í kross, mjög einfalt og hélst vel á.

Eggin fengu mislangan tíma í vökvanum. Þau sem láu í túrmerik vökvanum fengu 15 mínútur. Blárberja- og rauðbeðusafinn láu í 30 mín en eggin í teinu upp í 45 mínútur. Hægt er að fylgjast aðeins með lituninni en endanlegi liturinn kemur ekki fram fyrr en eggin hafa fengið að þorna alveg.

Útkoman var mjög skemmtileg og kom á óvart. Eggin lituð með rauðbeðunum urðu ljósbrún, bláberin gáfu dökkbláan lit frá sér með fallega brúnum flekkjum, túrmerikið varð fallega gult og teið litaði þennan fallega ljósbláa lit.

Eggin voru svo borðuð með bestu list, en þau koma einnig sérlega vel út sem borðskraut í bakka eða skál

Gleðilega páska!

Helga 

Tögg úr greininni
, , , , ,