Ráð til að minnka rafmengun

Rafmagn er hvorki áþreifanlegt né sjáanlegt og því er oft erfitt að átta sig á því hvort við búum við rafmengun. Fjöldi raftækja og illa jarðtengd hús geta orsakað vanlíðan og minnkað lífsgæði sem hægt er að bæta með réttum úrræðum.

TEXTI Gyða Tryggvadóttir

Tækninni fleygir ört fram og landslagið er mikið breytt frá því sem var. Útvarpsbylgjur sem eru í loftinu núna eru t.d.10 billjón sinnum sterkari en þær voru um 1940.

Ný tækni, og ekki síður breytt notkun hennar, hefur valdið aukinni rafmengun sem varla þekktist á árum áður. Nánast hvert heimili er með þráðlaust net og síma, tölvur og spjaldtölvur, fyrir utan öll sjálfsögðu rafmagnstækin sem létta okkur lífið og veita okkur afþreyingu. Margir hafa velt fyrir sér áhrifunum á umhverfi og einstaklinga og hafa augu almennings og fræðimanna í auknum mæli beinst að óæskilegum áhrifum rafmagns á heilsufar fólks og dýra. Æ fleiri virðast finna fyrir óþægindum og vanlíðan frá rafsegulsviði sem í umhverfi okkar er oftast tilkomið vegna notkunar á rafmagnstækjum á heimilum.Valdemar Gísli Valdemarsson, rafeindavirkjameistari og skólastjóri Raftækniskólans, hefur lengi látið sig þessi mál varða og hjálpað fólki og fyrirtækjum að greina rafmengun með mælingum og finna leiðir til úrbóta og bættrar heilsu.

Rafmengun

RAFMAGNSÁHRIF ERU EKKI ÁÞREIFANLEG

Að sögn Valdemars má líkja rafmengun við mengun frá bílum. „Þegar margir bílar spúa reyk og sóti sest þoka yfir svæðið eins og algengt  er í stórborgum. Þetta  kallast „smog“ og er í raun  mengunarþoka. Rafmengun er gjarna kölluð „electrosmog“ þar sem mikil geislun streymir frá nærliggjandi útvarps,- sjónvarps- og farsímasendum. Enn fremur er geislun frá raftækjum, raflögnum og ljósum.

Farsímar senda frá sér sterkar rafsegulbylgjur, svo og útvarpstæki, flatskjáir, tölvur, örbylgjuofnar, raflýsing og fleira og fleira. Aukin notkun allra þessara tækja hefur gert það að verkum að rafmengun hefur aukist og æ fleiri eru farnir að finna fyrir neikvæðum áhrifum hennar. Það getur þó verið erfitt fyrir fólk að átta sig á upptökum rafmengunar því til þess þarf að gera mælingar sem krefjast ákveðins búnaðar og þekkingar. Það er svo margt inni á heimilum og vinnustöðum sem getur valdið fólki óþægindum án þess að það átti sig á því að rafmagnsmengun sé vandamálið, því rafmagnið er hvorki sjáanlegt né áþreifanlegt.“

Rafmengun

HÆTTAN LIGGUR Í SVEFNHERBERGINU

Rafsegulsvið stafar frá öllum rafmagnstækjum og það er fullt af hlutum inni á hverju heimili sem geta valdið viðkvæmum einstaklingum truflunum, s.s. sparperur, nýjar týpur af flúrlýsingu, rafmagnsvekjaraklukkur, farsímar, venjulegir þráðlausir símar og eldavélar, sérstaklega spanhellur. „Þessi tæki eiga það þó sameiginlegt að vera notuð í stutta stund í einu og því er hæpið að þau hafi mikil áhrif,“ segir Valdimar og bætir við að vísindamenn bendi sérstaklega á rafsegulsvið á svefnstað því þar verjum við stórum hluta ævi okkar. „Ef tæki eru alltaf í sambandi eða gangi í svefnherberginu getum við verið innan rafsegulsviðs í 6-10 tíma samfleytt og það jafnvel árum saman. Í því liggur hættan. Útvarpsvekjaraklukkur eru algengasti segulsviðsgjafinn í svefnherbergjum, svo og vatnsrúm og rúm tengd rafmagni sem hægt er að stilla. Það er mikilvægt að engin rafmagnsáhrif séu í svefnherberginu, upp á lífsgæði almennt, og það getur skipt verulegu máli ef um er að ræða einstaklinga með rafmagnsóþol. Það er eitthvað í umhverfinu sem kveikir rafmagnsóþol hjá einstaklingum, t.d. viðvera í sterku rafsegulsviði í langan tíma, og getur valdið einkennum á borð við höfuðverk, þreytu, kláða eða sviða í húð, sjónþreytu og svefnleysi. Það er mjög einstaklingsbundið hvort og hvernig menn finna fyrir rafsegulgeislun; sumir finna ekki neitt á meðan aðrir eru pirraðir, eiga erfitt um svefn og finna fyrir alls konar kvillum sem jafnvel eru greindir sem ímyndunarveiki. Einfaldur hlutur eins og útvarpsvekjaraklukka getur raskað melatónínjafnvægi líkamans, sé hún staðsett mjög nálægt höfði meðan sofið er. Fólk áttar sig oft ekki á hvað það er sem orsakar vanlíðan enda finna sjaldnast allir á heimilinu fyrir óþægindum. Þetta veldur yfirleitt ekki heilsutjóni en truflar og skerðir lífsgæði fólks sem er viðkvæmt. Ég hef hins vegar tekið eftir því að einkenni ganga oft fljótt til baka þegar viðeigandi ráðstafanir hafa verið gerðar og þær eru oft og tíðum ekki flóknar.“

JARÐTENGING HÚSNÆÐIS ER BRÝNT MÁL

Að sögn Valdemars er jarðtenging húsa annar stór áhrifaþáttur þegar kemur að heilsufari. „Jarðtenging getur haft mikil áhrif á rafsegulsvið heimila og reynsla mín og annarra, sem hafa starfað við mælingar á rafmengun, hefur sýnt að gott jarðsamband er mjög mikilvægt fyrir heilsu og líðan fólks. Reglugerðir eru hins vegar þannig að nýbyggð hús hafa ekki almennilegt jarðsamband. Hitveituvatnið kemur inn í gegnum plaströr og því ekkert jarðsamband að hafa þar. Nú er krafist sökkulskauts fyrir allar nýbyggingar til spennujöfnunar en þar er í raun ekkert jarðsamband að hafa heldur vegna þess að sökkullinn er byggður ofan á púða og svo er fín möl allan hringinn, sem gerir það að verkum að húsin fá ekki almennilegt jarðsamband. Helsta merki um lélegt jarðsamband í húsum er ló og rykmyndun innanhúss en einnig sótmyndun á veggjum, sem veldur því að myndir í málmrömmum skilja eftir sig far þegar þær eru teknar niður. Lélegt jarðsamband getur einnig valdið vanlíðan íbúa og er talið að einum af hverjum fjórum íbúum finnist þeim líða betur annars staðar en heima hjá sér. Ég held að eitt það brýnasta sem við stöndum frammi fyrir sé að koma því inn í byggingarreglugerðir að hús séu almennilega jarðtengd.

Ég þekki ekki vel til þessara mála í Evrópu en veit að í Bandaríkjunum eru gerðar miklu meiri kröfur í þessu sambandi.“ Því má bæta við hér að í Urriðaholti, nýju hverfi sem rís í Garðabæ, var hugað sérstaklega að því að tryggja gott jarðsamband húsa. Var það gert með svokölluðu fimm víra dreifikerfi rafmagns sem tryggir betra jarðsamband en hefðbundin dreifikerfi, dregur úr ójöfnu flæði rafmagns og líkum á rafmengun.

Valdemar hefur lengi kennt rafvirkjum þessi fræði og segist hafa heyrt margar áhugaverðar reynslusögur sem svipar mjög til hans eigin reynslu við mælingar á rafmengun. „Nemandi minn sagði mér frá því að hann hefði ásamt öðrum verið að vinna við lagfæringar á húsi úti á landi eftir að rafmagnstafla hafði brunnið. Þeir tóku m.a. eftir því að ekki hafði verið gengið nægilega vel frá jarðskautum, sem eiga að tryggja jarðsamband, og gengu því frá og löguðu eins og reglugerðir segja til um og gekk vel. Eftir tæpa viku hringdi húsmóðirin á bænum og spurði hvað í ósköpunum þeir hefðu eiginlega gert því það hefði a.m.k. haft þau áhrif að henni hefði ekki liðið eins vel í langan tíma og sofið eins og engill á nóttunni. Líklegasta skýringin er að húsið fékk jarðsamband en það hafði líklega aldrei verið í lagi í húsinu. Annað dæmi er af heimili þar sem rafvirki var fenginn til að laga rafmagnið en algengt var að í umræddu húsi færu tvær til þrjár perur í viku. Hann hafði heyrt að það gæti hjálpað að setja jarðskaut á húsið, sem hann gerði, og í kjöfarið fór konan að tala um að henni liði betur í húsinu auk þess sem perurnar hættu að springa ört. Nemanda í rafmagnsiðnfræði fannst mjög áhugavert að þetta hefði breytt líðan konunnar og fékk leyfi til að gera rannsókn um áhrif jarðskautsins á heilsufar húsmóðurinnar sem lokaverkefni. Hann mætti á staðinn daglega í tvær vikur og ýmist tók skautið úr sambandi, setti það í samband eða lét það vera og konan, sem vissi ekkert hvað hann var að gera, hélt á meðan dagbók yfir líðan sína. Kennarinn fékk svo niðurstöður frá báðum aðilum og bar saman og kom í ljós að í öllum tilvikum leið konunni betur þegar jarðskautin voru tengd. Ég var prófdómari í þessu verkefni og þótti niðurstaðan ansi merkileg.“

ÁHRIF RAFMENGUNAR Á VÖXT MYGLU

Annað sem nú er mikið í umræðunni er mygla í húsum og almenningur er að verða betur meðvitaður um heilsuspillandi áhrif hennar. Vangaveltur hafa verið um hvort myglusveppur sé duglegri við að fjölga sér í híbýlum okkar nú en áður og ef svo er þá vakna spurningar um orsakir þess. „Það eru án efa margir þættir sem skipta þar máli, segir Valdemar, „en áhrif frá rafsegulsviði eru að mínu mati einn af þeim þáttum sem skipta máli þegar kemur að örari vexti myglusvepps. Það var gerð óformleg en áhugaverð rannsókn í Sviss. Þar var myglusveppur ræktaður í keri sem var hulið vírneti og stöðvaði það áhrif rafsegulsviðs frá umhverfinu. Að nokkrum tíma liðnum var vírnetið fjarlægt og við það jókst vaxtarhraði myglunnar til muna, auk þess sem hún gaf frá sér meira af sveppaeitri, sem benti til þess að hún teldi sig þurfa að verja sig gegn óvinum. Þetta styður vangaveltur um að mygla sé að verða vandamál vegna aukinnar rafmengunar en það þarf að gera fleiri rannsóknir af þessu tagi til að fá skýrari mynd af því hvaða tíðnir og tegundir geislunar hafa mest áhrif.“

Umhverfi okkar er að versna af mannavöldum og við eigum langt í land með að verða umhverfisvæn hvað rafmagn varðar. Tækninni fleygir fram og við fylgjum með, stundum hugsunarlaust. Nú þykir þráðlaust net sjálfsagt í skólum og leikskólum; börn eru t.d. í sívaxandi mæli með spjaldtölvur með wi-fi og 3G virkni  og líklega eru þráðlausar tengingar á flestum barnaheimilum landsins. Valdemar segir að hópur vísindamanna, sem hefur sérstakan áhuga á þessum málum, hafi sent frá sér ályktun fyrir ekki svo löngu þar sem þeir lýstu yfir áhyggjum af mjög aukinni notkun á þráðlausu neti í húsum og að það væru skýrar vísbendingar um að þetta hefði áhrif á hegðunarmynstur og þroska barna. „Við þurfum að vera betur vakandi, umgangast rafmagn með virðingu og varast óæskileg áhrif þess á heilsuna, t.d. með því að huga vel að jarðtengingum híbýla okkar. Þekking á þessu sviði er enn takmörkuð en víst er að ef við skoðum þessi mál ekki af yfirvegun, og á grundvelli rannsókna, verður okkur lítið ágengt,“ segir Valdemar að lokum.

RÁÐ TIL AÐ MINNKA RAFMENGUN

  • Takið rafmagnstæki í svefnherberginu úr sambandi á meðan sofið er, þ.m.t. rafmagns vekjaraklukkur.
  • Ekki hafa þráðlaust net í gangi á nóttunni. Slökkvið á „router“ þegar hann er ekki í notkun. Einnig er hægt að setja tímarofa á hann þannig að á honum sé slökkt t.d. frá miðnætti fram á morgun.
  • Hafið aldrei móðurstöð þráðlausra innanhússsíma inni í svefnherbergi. Móðurstöðin er alltaf að gefa frá sér merki. Hægt er að setja á tímarofa eða taka þá úr sambandi. Til eru þráðlausir símar með Eco-stimpli sem senda ekki frá sér merki á nóttunni.
  • Takið rafmagn af sjónvarpstækjum og afruglurum þegar tækin eru ekki í notkun. Gott er að hafa þau tengd um fjöltengi með rofa og venja sig á að slá fjöltengið út að næturlagi.
  • Athugið hvort spennubreytar á tölvum eru jarðtengdir. Ójarðtengdir spennubreytar hafa margfalt meiri geislun.
  • Tryggið að öll fjöltengi sem notuð eru við tölvubúnað beri jarðsamband (málmfjaðrir beggja megin í innstungu).
  • Hægt er að láta mæla rafsegulsvið í svefnherbergi en til þess þarf aðila sem búnir eru réttum tækjum og hafa þekkingu sem til þarf.

1 athugasemd

Lokað er fyrir athugasemdir