RAGGA NAGLI – Lífsstíll og lífsgildi

Ragga nagli situr afslöppuð í sófa

Lífsstíll og lífsgildi/Lifum betur er fastur liður hér á síðunni þar sem við spyrjum samferðafólk spjörunum úr og fáum innsýn í þeirra lífsvenjur. Með slíku samtali fáum við hugmyndir og innblástur og ekki síður fyrirmyndir á okkar oft á tíðum hlykkjóttu vegferð – til þess að lifa betur.

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, kannast flestir við enda ein af aðal heilsugúrúum landsins. Ragga er sálfræðingur að mennt með áherslu á heilsusálfræði og einnig lærður einkaþjálfari. Hún nýtir menntun sína í að hjálpa fólki að bættri andlegri og líkamlegri heilsu, sem hún segir að haldist í hendur, hugur stjórnar hegðun og hegðun stjórnar heilsu.
Gaman er að fylgjast með henni á Facebook, þar sem hún er dugleg að deila heilsufróðleik sínum á mjög mannlegan og skemmtilegan hátt.

Lýstu sjálfri þér í þremur orðum?
Jákvæð. Hress. Orkubolti.

Morgunrútínan þín?
Ég vakna yfirleitt milli 6 og 7. Tannbursta, greiði hár, klæði mig í ræktarfötin sem ég tók fram kvöldið áður og hristi preworkoutið mitt saman. Hjóla í ræktina og ríf í járnið eða spretti úr spori. Eftir æfingu sturta ég mig og klæði mig í betri gallann og er yfirleitt orðin grjótsvöng og á þá mitt morgunmóment með graut og prótíni. Svo trilla ég mér í vinnuna á sálfræðistofuna mína hér í Köben.

Uppáhalds morgunverður?
Kaldur næturgrautur með bökuðu epli, kanil, toppað með Good Good sykurlausu sírópi og Almighty Foods kasjúsmjöri (cashew caramello) og Made Good hafrakúlum.

Hvernig viltu kaffið þitt?
Vil það bara alls ekki. Hef aldrei drukkið kaffi.

Matarspeki?
Ég reyni að fasta allavega 12-14 tíma á dag. Ég reyni líka að setja saman máltíðir þannig að ég fái öll orkuefnin prótín, kolvetni og fitu. Ég borða mest hreina fæðu með eitt innihald sem líkaminn kann að melta og ferla. Mikið af fiski, kjöti, kjúklingi, grænmeti, kartöflur, hrísgrjón, avókadó og góðar olíur. Rannsóknir sýna að við borðum um 500 kcal meira þegar unnin fæða er í boði. Eins eru þau oft stútfull af efnum og innihaldi sem þjarma að þarmaflórunni en það eru mikil tengsl milli allskyns sjúkdóma, kvilla, andlegra veikinda og streitu og slæmrar þarmaflóru.

Rannsóknir sýna að við borðum um 500 kcal meira þegar unnin fæða er í boði

Þrennt matarkyns sem þú átt alltaf til?
Ég er með birgðakvíða þegar kemur að hnetusmjöri, möndlusmjöri, kókoshnetusmjöri og á örugglega þrjátíu krukkur. Uppáhaldið mitt eru klárlega smjörið frá Almighty foods sem fæst í Nettó. Svo á ég alltaf til haframjöl og brokkolí.

Ómissandi í eldhúsið?
Sistema gufusjóðari sem fæst í Nettó. Ég nota þessa græju í bókstaflega ALLT grænmeti. Bara dömpa grænmeti í dallinn, smá vatn í botninn, inn í örbylgju í nokkrar mínútur og málið er dautt. Þessi gaur er algjör bylting fyrir letihauginn og upptekna skrifstofublók.

Hreyfingin þín?
Góðar gamaldags lyftingar þar sem ég legg áherslu á gömlu rótgrónu æfingarnar: hnébeygju, réttstöðulyftu, push press, bekkpressu ásamt ólympískum lyftingum clean and jerk og snörun. Svo tek ég mikið af Crossfit æfingum inn á milli þar sem ég skiptist á að hlaupa, hjóla eða róðravél í bland við æfingar á hárri ákefð. Svo stunda ég spretthlaup og syndi 1-2x í viku.

Þrjár manneskjur sem veita þér innblástur?
Systir mín í metnaði og metorðum en hún er yfirmanneskja hjá CNN. Amma mín heitin var með einstakt jafnaðargeð og ég reyni að tileinka mér jákvæðni hennar til að bregðast við streituvaldandi aðstæðum. Ingunn Lúðvíksdóttir Crossfit stjarna er mér innblástur fyrir æfingar en hún keppir í 40-44 ára flokki og tekur það í nefið.

Sannleikurinn á bak við velgengni?
Vinna vinna vinna. Ekkert gerist af sjálfu sér.
Ekki láta höfnun eða mótlæti slá sig út af laginu heldur halda áfram og reyna aftur og reyna betur.
Hafa trú á sjálfum sér og verkefninu sínu.
Hafa þolinmæði í bílförmum því hlutirnir gerast stundum á hraða skjaldbökunnar.

Hvað gerir slæman dag betri?
Að huga að grunnstoðum heilsunnar. Svefn, hreyfing, mataræði, félagslíf. Fara í ræktina, og langan göngutúr, hlusta á fræðandi podcast, borða hollan mat sem fer vel í mig, og anda djúpt í kviðinn.
Fara snemma að sofa.
Síðan er mikilvægt að endurorða erfiðleikana og sjá það frekar sem verkefni sem krefjast lausna. Skrifa niður vandamálið og allar mögulegar lausnir og velja þá bestu.

Hvernig hugar þú að andlegri heilsu?
Ég hef stundað mikið mindfulness til að bregðast öðruvísi við áreitum sem áður settu mig úr jafnvægi. Þannig get ég valið viðbrögðin mín í staðinn fyrir að bregðast alltaf við með tilfinningum. Ég reyni að vera jákvæð, og brosa meira, jafnvel þó mér líði illa. Því rannsóknir sýna að þegar andlitstjáning er í mótsögn við tilfinningarnar og við brosum, hlæjum, og dönsum þegar við erum leið og pirruð, þá líður okkur strax betur og getum virkjað framheilann til að bregðast við.

Ég reyni að vera jákvæð, og brosa meira, jafnvel þó mér líði illa

Uppáhalds heilsuuppgötvun?
Kaldar sturtur. Að fasta í allavega 14 tíma á dag til að komast í betri tengsl við svengdar og seddumerkin.
Að hræra kakó út í möndlumjólk og kókos Stevia dropa og löðra yfir morgungrautinn minn. Núna nýlega uppgötvaði ég að ef ég hita uppáhalds prótínstykkið mitt (Tom Oliver) í 15 sekúndur í örbylgjuofni þá verður það eins og brownie.

Ráð sem þú hefðir vilja gefa yngri sjálfri þér?
Að hlusta á líkamann þegar kemur að mataræði og hreyfingu. Að þú þarft ekki að borða sex sinnum á dag, þú þarft ekki að borða eftir klukku. Þú þarft ekki að borða ákveðið magn af ákveðnum mat. Borðaðu þegar þú ert svöng og hættu þegar þú ert södd.
Að þú þarft ekki að keyra þig í svaðið með eins mörgum og áköfum æfingum og það er partur af prógrammet að taka hvíldardaga.

Besta ráð sem þér hefur verið gefið?
Alltaf að sækja á brattann, því auðveldasta leiðin er leiðin til uppgjafar. Þetta sagði formóðir mín víst og ég hef lifað eftir þessu. Ef mér finnst eitthvað erfitt og óþægilegt sem ég er að forðast þá reyni ég að mæta óttanum og kýla á það og sanna fyrir mér að óttinn í hausnum er alltaf miklu verri en raunveruleikinn.

Ragga nagli hugsiNú býrðu í Danmörku, en hvað fannst þér það besta við að búa á Íslandi?
Ohh það er svo margt gott við að búa á Íslandi.
Fólkið mitt númer eitt, tvö og þrjú. Ég er sjúklega félagslynd og elska að hitta vini mína, fjölskyldu og smæð landsins gerir það að verkum að maður hittir oft kunningja fyrir tilviljun í Kringlunni og á Laugaveginum.
Svo er það náttúran Ég missi alltaf andann þegar ég keyri Sæbrautina og horfi á Esjuna. Hún gefur mér einhvern magískan kraft. Esjan er vinkona mín. Það er engin náttúra í Köben og ég finn alltaf meir og meir hvað ég sakna hennar.
Ég elska líka bjartar sumarnætur og lúpínubreiður í júní.
Vesturbæjarlaugin, laxinn, hrossakjöt, Austurvöllur á góðviðrisdegi og hneggið í hrossagauknum.

Hver er uppáhalds staðurinn þinn á Íslandi?
Arnarfjörður og Vestfirðirnir. Ég er úr Djúpinu fyrir vestan svo taugin á Kjálkann er sterk. Svo hef ég líka sterka tengingu við Hafnarfjörðinn og finnst hann svo fallegur og vinalegur.

Ég missi alltaf andann þegar ég keyri Sæbrautina og horfi á Esjuna. Hún gefur mér einhvern magískan kraft.

Hvert er þitt framlag að bættum heimi?
Ég flokka rusl og matarúrgang samviskusamlega. Við eigum ekki bíl svo ég fer allra minna ferða á hjóli, í almenningssamgöngum eða fótgangandi.

Hvar líður þér best?
Í faðmi mannsins míns. Eftir langan dag kl 21:30 uppi í rúmi með góða bók. Mér líður líka rosalega vel úti að borða með karlinum í góðri steik og majónesi, og auðvitað eftir erfiða æfingu.

Drauma ferðalag?
Við hjónin erum að fara til Egyptalands í mars, sem hefur lengi verið draumur. En mig langar rosalega til Japan og Suður Ameríku á kjötkveðjuhátíðina í Brasilíu og dansa tangó og borða nautasteik í Argentínu.

Uppáhalds árstíð?
Sumarið hér í Danmörku alveg tvímælalaust. Ég er með klassískan íslenskan sólarkvíða og reyni að nýta hvern einasta dag með þeirri gulu að fara á ströndina sem er bara í 10 mínútna hjólatúr frá mér.

Uppáhalds bók?
Úff þær eru svo margar en fyrst upp í hugann er Let’s talk about Kevin og Time traveller’s wife. Þórbergur Þórðarson alltaf í uppáhaldi og Sálmurinn um blómið er mér ofarlega í huga núna enda var Lilla Hegga frænka mín. Er núna að lesa Svínshöfuð og get ekki lagt hana frá mér. Eins er ég mjög hrifin af bókum Ólafs Jóhanns, Auðar Övu, Auðar Jónsdóttur og Ragnars Jónassonar.

Mantra/mottó?
Það er betra að sjá eftir því sem þú gerðir en því sem þig langaði að gera en gerðir ekki.

Hvaða verkefni eru á döfinni hjá þér?
Sinna sálfræðiviðtölum á stofunni hjá mér og í gegnum Köru Connect fjarfundabúnaðinn. Halda streitunámskeið og heilsunámskeið á Íslandi. Fá fleiri viðmælendur í Heilsuvarpið sem er podcastið mitt, skrifa heilsupistla á Vísi.is, setja allskonar heilsunöldur á Facebook og Instagram og reyna að skrifa fleiri greinar á heimasíðuna mína www.ragganagli.com

 

Brúnkaka og jarðarberUppáhaldsuppskriftin

Ávanabindandi brúnkur

1 dós Biona svartar baunir (hella vökvanum af)
35 g haframjöl
35 g Himnesk hollusta kókosolía
2 msk ósætað kakó (t.d. Himnesk hollusta)
3 msk Sukrin gold
2 msk GOOD GOOD sykurlaust síróp
1 tsk skyndikaffi duft
60 g dökkt súkkulaði hakkað t.d Naturata 75%
1 tsk lyftiduft
Klípa af Lífsalt

Valfrjálst: hakkaðar hnetur t.d pekan, valhnetur, jarðhnetur krydd, hnetusmjör, kókos, chilli, appelsínubörkur, sítrónubörkur.

Aðferð

  1. Dömpa öllu gumsinu nema hökkuðu súkkulaði í skál og hræra saman með töfrasprota.
  2. Blanda hakkaða súkkulaðinu saman við deigið með sleif.
  3. Deigið á að vera vel blautt og engar klessur.
  4. Hella deiginu í brownie form (18×20).
  5. Jafna vel út að ofan.
  6. Baka 180°C í 15-20 mínútur.
  7. Brúnkan á að vera smá blaut í miðjunni þegar hún kemur út. Fylgist vel með að hún ofbakist ekki
  8. Henda strax í kæli/frysti. Er best þegar hún hefur fengið að kólna alveg.

 

Fylgist með Röggu nagla á Facebook, Instagram og á vefsíðunni hennar ragganagli.com.


 

GYÐA DRÖFN – Lífsstíll og lífsgildi

Lifum betur – Ragnar Freyr

Lifum betur – Martha Ernstsdóttir