Ísland sem áfangastaður
Fast á eftir óvissuferðinni er ferð sem ég fór með fjölskyldunni í kringum landið þar sem við heimsóttum alla HandPicked-staðina, en HandPicked Iceland eru frí ferðakort sem flestir lesendur Í boði náttúrunnar kannast við. Fyrsta kortið fæddist í fyrsta tölublaðinu fyrir níu árum síða, og byrjuðum við á mat og gistingu. Í þeirri ferð fórum við á staði sem við höfðum aldrei farið á áður, og voru þeir oft á tíðum úr alfaraleið. Við hittum heimafólkið og upplifðum svo margt sem var svo ólíkt öðrum ferðum okkar um landið, sem snerust oftast um það að bruna frá áfangastað A til B.
Í dag reyni ég að skapa skemmtilega blöndu af heimsóknum, upplifun og spennandi uppgötvun á ferðalaginu um Ísland, sem ég svo deili með ykkur og erlendum gestum á HandPicked-kortunum. Ég kem iðulega heim full aðdáunar og einnig þakklát fyrir að hafa haft tækifæri til að kynnast frábærum einstaklingum úti á landi, sem eru að gera eitthvað einstakt og ekta, hvort sem það tengist mat, heimagerðum vörum eða upplifun.
Allir HandPicked-staðirnir eru valdir af mér og nokkrum vandlátum vinum, og reynum við eftir bestu getu að velja umhverfisvæna staði með sjálfbærni að leiðarljósi. Nokkur góð dæmi um slíka áfangastaði eru í nýjasta blaðinu. Ég uppgötvaði t.d. litlu sveitabúðina á Völlum í Svarfaðardal á ferðalagi mínu í fyrrasumar en þar selur Bjarni á Völlum lífræna framleiðslu, allt ræktað á staðnum. Nú er búðin komin á Local shop kortið ásamt versluninni Flóru á Akureyri. Við völdum Flóru í Fyrirtæki til fyrirmyndar, sem er fastur liður hjá okkur. Þar eru seldar fallegar umhverfisvænar vörur og gott expressó frá „local“ kaffibrennslu.