Hættum að henda!

Elísabet Brynhildardóttir

Í einum af tölublöðum í boði náttúrunnar spáðum við í matarsóun og hvernig við getum spornað við henni. Um það bil einn þriðji af matvælaframleiðslu heimsins eyðileggst eða er hent árlega, samkvæmt skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum, og þessar tölur eiga einnig við hér á landi. Þessi sóun á sér stað á öllum stigum; í ræktuninni, strax eftir uppskeru, við flutning, hjá framleiðendum, í verslunum, í mötuneytum, á veitingastöðum og hjá neytendum. Beinn efnislegur kostnaður af þessu er um það bil 566 billjónir evra á ári hverju og er áætlað að meðalfjölskyldan sói um 150.000 kr. á ári í mat sem er hent! Áætlað er að hver einstaklingur í Evrópu hendi á milli 60-110 kílóum af mat á ári hverju sem er rosalegt magn. En hversu miklum mat hendir þú?

Staðreyndir um sóun á mat:

– 30% af matvælaframleiðslu heimsins fer til spillis

– 40-60% af fiski sem veiddur er í Evrópu er hent

– Talið er að 20-40 % af ávöxtum og grænmeti sé hafnað vegna útlits eða annarra ástæðna áður en það nær í verslanir 

Í Norræna húsinu vorið 2014 var haldið áhugavert málþing um sóun á mat. Þar voru ýmsir fyrirlestrar um málefnið, boðið var upp á ljúffengan hádegismat úr hráefni sem hefði annars verið hent úr stórmörkuðum og vert er að nefna í þessu samhengi samtökin Vakandi. Það eru samtök sem hafa hrint af stað vitundarvakningu um sóun matvæla á Íslandi með ýmsum leiðum. Hátíð gegn matarsóun, sem haldin var í Hörpunni í fyrra var á þeirra vegum en þar var rætt um hvað við gætum gert sem neytendur og að ábyrgðin væri vissulega að hluta til í höndum okkar þó ekki megi gleyma því að sóunin hefst í raun og veru í framleiðsluferlinu. Mikilvægt er að umræðan snúist um öll stig sóunar en við getum svo sannarlega byrjað á okkur sjálfum. Okkur voru gefin nokkur góð ráð til þess að hjálpa til við að minnka matarsóun á eigin heimili:

Við getum:

  1. Hætt að henda mat eftir dagsetningum og kynnt okkur hvað merkingin Best fyrir í raun og veru þýðir. Er matvaran raunverulega ónýt eða er framleiðandinn einungis hættur að ábyrgjast bragð og ferskleika vörunnar? Á vefsíðunni eatbydate.com er hægt að finna geymsluþol allra tegunda matvara.
  2. Klárað það sem er til í ísskápnum áður en við kaupum meira!
  3. Gert gáfulegri innkaup og farið ekki svöng í búðina. Innkaupalisti er að sjálfsögðu góð venja en einnig er ráð að smella mynd af ísskápnum með snjallsímanum áður en haldið er í búðina – þá er hægt að skoða hvað er til.
  4. Notað regluna; Fyrst inn, fyrst út. Setjum nýja matinn aftast í ísskápinn og klárum fyrst það sem er fremst.
  5. Elskað afganga. Lagt okkur fram um að ganga vel frá afgöngum og gert okkur að reglu að borða þá daginn eftir eða nýta í nesti. Einnig er um að gera að taka með sér afganga heim af veitingastöðum. (Gott að vera með lítið fjölnota box með sér)
  6. Beðið um minni skammta á veitingastöðum (það er líka oft ódýrara!)
  7. Notað frystinn betur! Það er um að gera að frysta afganga og mat sem við ætlum ekki að nota strax.
  8. Gefið dósamat og annað í skápunum sem við munum ekki nota. Á Facebook er hópur sem heitir Matarbýtti og þar skiptist fólk á eða gefur umfram mat.
  9. Búið til moltu úr matarleifum. Það er að finna frábæra grein um moltugerð í vortölublaðinu 2014  

———————————————————-

Vissir þú að …..

Flestur dósamatur endist tveimur árum lengur en Best fyrir dagsetningin segir til um.

Krydd endist mun lengur en dagsetningin segir til um þó að bragðgæði geti minnkað með árunum. Þau halda bragðgildi sínu mun lengur ef þú geymir þau á köldum stað fjarri eldavélinni.

Brauð endist allt að tveimur vikum lengur ef þú geymir það í ísskápnum.

Þú getur lengt líftíma epla ef þú geymir þau í plasti með nokkrum götum í ísskápnum.

——————————————————-

Gagnlegar vefsíður með góðum ráðum

VakandiMatarbýtti, Matargjafir,  slowfood.iseatbydate.com

———————————————————–

Þessi grein birtist fyrst í vorblaði Í boði náttúrunnar 2014

Tögg úr greininni
, ,

2 athugasemdir

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.